Sýningaropnun Péturs Magnússonar í Pálshúsi Ólafsfirði

Pétur Magnússon listamaður opnar sýningu í Pálshúsi Ólafsfirði laugardaginn 15. maí kl. 14:00. Hér er um fjölbreytta og áhugaverða sýningu að ræða og stendur hún til 24. júní nk.

Um Pétur Magnússon

Pétur Magnússon fæddist í Reykjavík árið 1958. Eftir menntaskóla fór hann í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og síðan áfram á Accademia delle belle Arti í Bologna, Ítalíu og að lokum í Rijksakademie van Beeldende Kunsten í Amsterdam, Hollandi. Að loknu námi árið 1986 var hann búsettur í Amsterdam til ársins 2003, en flutti þá til Íslands. Í Hollandi tók hann þátt í stofnun listaverkabókabúðarinnar "Boekie Woekie" sem jafnframt er gallerí og útgefandi. Hann starfaði með fyrirtækinu fyrstu árin. Boekie Woekie kynnti síðan verk hans á "Art Frankfurt" listamessunni í Þýskalandi árið 1996. Pétur lærði málun á Ítalíu og grafík í Hollandi og eldri verk hans bera þess merki. Með tímanum hefur hann fært sig yfir í ljósmyndir og skúlptúr, oft lágmyndir og einkennast aðferðir hans oft á blöndu af stálsmíði og ljósmyndun. Verk hans láta reyna á skynjunina og ögra henni meðan þau bjóða upp á nýja möguleika til að skynja umhverfið. Verkin eru oftar en ekki háð sýningarrýminu (site specific). Efni og fjarvídd spila oft stórt hlutverk í að eiga við umhverfið á heimspekilegan og skoplegan máta.

Sjá einnig peturmagnusson.is