Skíðasaga Ólafsfjarðar

Siglufjörður og Ólafsfjörður eru margfrægir fyrir afreksfólk sitt á sviði vetraríþrótta fyrr og síðar. Sveitarfélagið Fjallabyggð varð til við sameiningu Siglufjarðarkaupstaðar og Ólafsfjarðarbæjar árið 2006 og skyldi engan undra að sveitarfélag sem verið hefur vagga skíðaíþróttarinnar um árabil skuli bera heitið Fjallabyggð. Sumarið 2008 hófst söfnun munnlegra heimilda um skíðaiðkun Siglfirðinga á árum áður. Á þessari síðu má sjá afrakstur þeirrar söfnunar auk annars efnis sem viðkemur skíðaíþróttinni á Siglufirði. Það var svo árið 2010 sem sambærileg rannsókn hófst á Ólafsfirði og er það efni smám saman að taka á sig mynd á síðunni. Vonir eru bundnar við að þessi vefur eigi eftir að vaxa og dafna í framtíðinni.

Rannsóknin

Á þessum vef má sjá afrakstur þjóðháttarannsóknar sem gegnir því hlutverki að draga upp þjóðlífsmyndir frá 20. öldinni. Rannsókn þessi er fyrst og fremst byggð á munnlegum heimildum, viðfangsefnið er skíðasagan og er hún skoðuð í ljósi huglægra viðmiðanna, með ákveðinni viðtalstækni. Með huglægum viðmiðunum er átt við það að hver og einn skynjar heiminn með sínum hætti. Ekki er verið að leita eftir einu réttu svari við ákveðnum spurningum heldur upplifun hvers og eins af einstaka atburðum og (skíða)lífinu almennt. Þannig er rannsóknin byggð á eigindlegum aðferðum félagsvísindanna. Þessi söfnun munnlegra heimilda og annarra gagna sem viðkoma skíðalífi Fjallabyggðar fyrr og síðar skapar grundvöll fyrir safni eða sýningu í komandi framtíð. Því má hugsa sér heimasíðuna sem gagnabanka upplýsinga um skíðasöguna. Gagnabankinn er hugsaður bæði til gagns og gamans fyrir heimamenn, ferðamenn, sem og áhugamenn um skíðaíþróttina og sögu hennar.

Heimildir

Fyrir þá sem vilja leita sér frekari fróðleiks um skíðasögu Fjallabyggðar er bent á eftirfarandi heimildir:

Friðrik G. Olgeirsson. (1988). Hundrað ár í horninu: Saga Ólafsfjarðar 1883-1944.Annað bindi. Ólafsfjörður: Ólafsfjarðarkaupstaður.

Friðrik G. Olgeirsson. (1991). Hundrað ár í horninu: Saga Ólafsfjarðar eftir 1945. Þriðja bindi. Ólafsfjörður: Ólafsfjarðarbær.

Haraldur Sigurðsson. (1981). Skíðakappar fyrr og nú. Akureyri: Bókaútgáfan Skjaldborg.

Ingólfur Kristjánsson. (1988). Siglufjörður 1818-1918-1988: 170 ára verslunarstaður: 70 ára kaupstaðarréttindi. Reykjavík: Myllu Kobbi. 

Fréttir

Skráning á póstlista