Um Siglufjörð

Siglufjörður

er nyrsti kaupstaðurinn á Íslandi og stendur við lítinn, samnefndan fjörð, undir háum fjöllum. Íbúarnir eru um 1300 og hefur undirstöðuatvinna þeirra í gegnum árin verið fiskveiðar og úrvinnsla sjávarfangs enda er Siglufjörður frá náttúrunnar hendi ein besta höfn landsins. Undanfarin áratug hefur þó orðið mikil breyting á atvinnuháttum á Siglufirði þar sem störfum tengdum sjávarútvegi hefur fækkað gríðarlega, eða um 300, með tilheyrandi fólksfækkun. Ýmis þjónustustörf og fjarvinnsla fyrir stofnanir er nú orðin mikilvægur hlekkur í atvinnulífi bæjarins og horfa bæjarbúar m.a. til fjölgunar starfa á þeim sviðum sem vaxtarbrodd í atvinnumálum.

Þjónusta við ferðamenn hefur aukist á undanförnum árum og er kappkostað að taka vel á móti gestum bæjarins. Á því sviði er annar vaxtarbroddur sem litið er vonaraugum til því með tilkomu Héðinsfjarðarganga er búist við mikilli fjölgun ferðamanna enda hefur Siglufjörður upp á margt að bjóða sem vert er að skoða og njóta. Skal þar fyrst telja stórbrotin fjöllin og fegurð náttúrunnar sem virka sem áskorun á alla sem unna útivist. Frá fuglamergð fjörunnar eru stuttar gönguleiðir (eða um 3-4 km.) upp á 800-900m háa fjallatinda! Vert er að skoða Síldaminjasafnið, sem án efa er eitt af áhugaverðustu söfnum landsins, Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar og fleiri söfn og vinnustofur listamanna. Íþróttalíf staðarins er einnig fjölbreytt og aðstaða til íþróttaiðkunar með ágætum, 9 holu golfvöllur, stór sundlaug og sparkvellir. Hér er nyrsti ræktaði skógur landsins sem gaman er að skoða og síðast en ekki síst er hér gott mannlíf og friðsældin og veðurblíðan sem svo oft ríkir hér í þessum nyrsta kaupstað landsins er mikil.

Eins og áður segir er mannlíf bæjarins fjölbreytilegt og ýmis konar félags- og menningarstarf blómlegt. Öflugt tónlistarstarf er á vegum tónlistarskólans, kirkjunnar, kóra og einstaklinga, leikfélagið setur upp metnaðarfullar sýningar á hverju ári og fjöldi annarra félagasamtaka setur svip sinn á bæjarbraginn með öflugu starfi og ýmsum viðburðum. Hér eru haldnar veglegar tónlistar- fjölskyldu- og íþróttahátíðir sem fjöldi fólks sækir. Íþróttir eru stundaðar af kappi af bæjarbúum á öllum aldri því íþróttafélög bæjarins standa fyrir fjölbreyttu og öflugu íþróttastarfi.

Fáir bæir á Íslandi eiga sér jafn viðburðaríka sögu og Siglufjörður. Gengi fiskveiða og sjávarútvegsfyrirtækja hefur risið og hnigið á víxl og staðurinn ýmist gleymdur eða víðfrægur.

Í byrjun 20. aldar var hér lítið þorp, hálfnorskt, sem óx svo hratt að Siglufjörður öðlaðist kaupstaðarréttindi árið 1918 og varð um leið sjálfstætt lögsagnarumdæmi og um miðja öldina var staðurinn orðinn einn af stærstu kaupstöðum landsins. Á ýmsan hátt ber hann þess enn merki að hafa verið höfuðborg síldveiðanna í Norður-Atlantshafi um langt skeið. Á Síldarminjasafninu, eina safni sinnar tegundar í heiminum, kynnumst við hinu stórkostlega síldarævintýri Íslendinga.

Fyrstu stóru jarðgöngin á Íslandi, Strákagöng, voru opnuð í gegnum fjöllin við Siglufjörð 1967 og var þá vetrarlöng einangrun bæjarbúa rofin. Opnun Héðinsfjarðarganga 2. október 2010 er mikil lyftistöng fyrir bæinn og Siglufjörður ekki lengur endastöð þjóðvegarins sem þangað liggur. 

Árið 2006 varð Siglufjörður hluti af sameiginlegu sveitarfélagi með Ólafsfirði sem heitir Fjallabyggð. Á Siglufirði eru skrifstofur Fjallabyggðar í Ráðhúsinu, Gránugötu 24.

Fyrsti bæjarstjóri Fjallabyggðar var Þórir Kristinn Þórisson. Núverandi bæjarstjóri Fjallabyggðar, frá 2023, er Sigríður Ingvarsdóttir.

Hér að neðan er hægt að kynna sér sögu Siglufjarðar enn frekar.

Landnámsöld

Saga mannsins er mjög stutt á Íslandi. Það var ekki fyrr en um 870 e. Kr. að norrænir menn, víkingar frá Skandinavíu og írskir menn hófu búsetu á Íslandi. Telja má líklegt að nálægt 900 hafi Siglufjörður verið numinn.

Vegna ófriðar og landleysis í Noregi yfirgaf Þormóður rammi Haraldsson heimili sitt í Noregi. Hann sigldi yfir hafið með fólki sínu, föggum og fénaði, fann óbyggðan fjörð fyrir miðju Norðurlandi og leist svo vel á sig að hann settist þar að. Hann reisti bú sitt á Siglunesi, sem er við mynni Siglufjarðar. Landnám Þormóðs ramma náði yfir Siglufjörð og Héðinsfjörð.

Í Landnámu er getið ófriðar sem Þormóður rammi átti við nágranna sinn Ólaf bekk í Ólafsfirði. Þeir deildu um eignarhald á litlu dalverpi, Hvanndölum austan Héðinsfjarðar. Úlfsdali vestan Siglufjarðar nam Úlfur víkingur.

Þjóðveldisöldin

Hið nýja þjóðríki Íslendinga var fest formlega í sessi við stofnun Alþingis á Þingvöllum árið 930. Það var fyrsta þjóðþing sem vitað er um. Ættstórir og vinsælir héraðshöfðingjar fóru með umboð þegna sinna á Alþingi, settu landinu lög og dæmdu í málum. Fyrstu 100 ár þjóðveldisaldar var hin eiginlega söguöld, þegar Íslendingasögurnar gerðust. Þær greina aðallega frá valdabaráttu og vígaferlum en minna fer fyrir hversdagslegum háttum landsmanna.

Árið 1000 var heiðinn dómur lagður af er kristin trú var lögleidd á Alþingi. Með því var komið á tengingu við hina evrópsku kirkju sem átti eftir að móta svo mjög þróun íslenska þjóðfélagsins næstu 1000 árin.

Þjóðveldisöld lauk árið 1262 þegar Íslendingar afsöluðu sjálfstæði sínu og gerðust þegnar Noregskonungs. Innbyrðis deilur og bræðravíg voru aðalástæður þess að við lutum hinum voldugu Norðmönnum. Með þjóðveldisöldinni lauk því skeiði sem margir telja eitt hið glæsilegasta í sögu okkar. "Þá riðu hetjur um héruð", landsmenn stunduðu frjálsa verslun, og "smjör draup af hverju strái" í þessu gnægtaríka landi.

Miðaldir

Þótt frelsið væri glatað ríkti enn blómaskeið að mörgu leyti. Sagnaritunin hélt áfram og verslun stunduð af kappi við Norðmenn. Aðalútflutningsvara okkar var skreið.

Kaflaskil urðu enn í sögunni árið 1380 þegar Danir náðu völdum á Íslandi um leið og þeir lögðu undir sig Noreg. Um 1400 höfðu Englendingar mikil áhrif í verslun við Íslendinga án þess að hin nýja herraþjóð gæti rönd við reist. Síðar eða um 1500 höfðu Þjóðverjar náð góðri fótfestu í verslun á Íslandsströnd sem ekki var hnekkt fyrr en með lögum um einokun Dana í Íslandsversluninni árið 1602. Þá má segja að hefjist hinn mesti niðurlægingartími í sögu okkar.

Í hart nær tvær aldir bjó þjóðin við hið versta ófrelsi og fátækt, og yfir landið gengu ýmist drepsóttir eða harðindi í náttúrunnar ríki. Hafís lagðist að landi með fimbulkuldum og úr hyldjúpum jarðar vall glóandi hraun og eitrað loft. Nokkru áður eða 1550 höfðu landsmenn verið neyddir til að leggja af kaþólskan sið og taka upp lútherska trúarsiði og það var þjóðinni mikið áfall að sjá af merkum menningarverðmætum og helgidómum sem fjarlægðir voru úr kirkjunum.

Verstöðin Siglunes

Austan kaldinn á oss blés,
upp skal faldinn draga trés.
Veltir aldan vargi hlés,
við skulum halda á Siglunes.


Þormóður rammi gerði Siglunes að miðstöð Siglufjarðarbyggða. Í meira en 600 ár var þar aðalkirkja og þingstaður allra íbúa Sigluneshrepps hins forna. Siglunes var einnig um aldir ein af mikilvægustu verstöðvum landsins. Þangað sóttu sjómenn til róðra víða að og fluttu í heimabyggðir sínar skreið og Sigluneshákarlinn fræga, það mikla hollmeti og hnossgæti.

Árið 1614 var aðalkirkjan flutt til Siglufjarðar. Nýtt kirkjuhús var reist á Hvanneyri sem eftir það var miðstöð hreppsins, Hvanneyrarhrepps.

Snemma bar mjög á því hve Siglufjarðarbyggðir voru afskekktar og úr alfaraleið. Þannig var til dæmis talið að eftir að kristni var lögleidd árið 1000 hafi hin nýja trú einna síðast náð til íbúa slíkra staða sem Sigluneshrepps. Sama máli gegndi með að framfylgja öðrum landslögum s.s. eftirliti með verslunarlögum herraþjóðanna. Sagnir herma að á 15. öld hafi enskir sjómenn átt vingott við Siglfirðinga og haft hér bækistöð og stundað verslun óáreittir af yfirvöldum landsins. Siglfirðingum var á tímum verslunareinokunar Dana ætlað að sækja verslun til Akureyrar, en oftar en ekki reyndist leiðin vestur í Hofsósverslunina þeim styttri.

Fáum sögum fer af hag forfeðra okkar hér í hreppnum á fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Sennilegt er þó að í venjulegu árferði hafi þeir notið mjög nálægðar við gjöful fiskimið, haft nóg að bíta og brenna og hagnast á verslun og flutningi sjávarfangs héðan. Einnig má ætla að á harðindatímum þegar hafís lá landfastur langtímum saman hafi oft verið þröngt í búi.

 Hákarlatíminn

Við lok verslunareinokunarinnar hófst formleg verslun í Hvanneyrarhreppi 1788. Árið 1818 varð Siglufjörður löggiltur verslunarstaður og var þá orðinn til fyrsti vísir að þorpsmyndun á Siglufirði. Þá voru íbúar hreppsins 161, þar af 8 á Hvanneyri og 8 í kauptúninu. Á þessum tíma voru hákarlaveiðar stundaðar af kappi á opnum seglskipum, t.d. sexæringum og áttæringum.

Þegar leið á seinni hluta 19. aldar urðu miklar framfarir á Siglufirði í tengslum við vaxandi hákarlaútgerð. Hákarlinn var veiddur í miklum mæli á þilskipum í hafinu langt norður af Siglufirði. Lifrin úr hákarlinum var brædd og lýsið sem úr lifrinni fékkst flutt til Danmerkur. Hið verðmæta hákarlalýsi var notað til að lýsa upp stræti danskra borga og bæja.

Með þilskipunum varð Siglufjörður miðstöð hákarlaveiðanna fyrir Norðurlandi og réði því hið framúrskarandi hafnarlægi sem hér er og nálægðin við miðin.

 Höfðingjar í héraði

Tveir menn settu mikinn svip á þennan tíma og höfðu forystu í atvinnulífi Siglfirðinga. Annar þeirra var Jóhann Jónsson hákarlaformaður og bóndi í Höfn. Hann var sjálfmenntaður skipasmiður og lagði kjölinn að þilskipaútgerð Siglfirðinga og Norðlendinga og stuðlaði einnig að framförum í landbúnaði í heimasveit sinni.

Snorri Pálsson, verslunarstjóri, stjórnaði útgerð hákarlaskipa og kom á fót niðursuðu matvæla til útflutnings. Hann var einna fyrstur Íslendinga til að gera tilraunir til síldveiða og útflutnings saltsíldar, og var helsti hvatamaður að stofnun Sparisjóðs Siglufjarðar, elstu peningastofnunar á Íslandi, árið 1873. Sem þingmaður Siglfirðinga beitti hann sér fyrir margs konar framfaramálum fyrir Siglufjörð. Snorri lést árið 1883 aðeins fertugur að aldri og var öllum harmdauði.

Fjórum árum síðar kom annar eldhugi fram á sögusvið okkar er ungur prestur vígðist til Hvanneyrarsóknar, sr. Bjarni Þorsteinsson. Bjarni átti á langri ævi eftir að verða mikill örlagavaldur í sögu staðarins og er reyndar af mörgum nefndur faðir Siglufjarðarkaupstaðar. Með líkum hætti hefði mátt segja að Snorri Pálsson hafi verið afi Siglufjarðar, svo mikilvægur er einnig hann í sögu bæjarins.

Sr. Bjarni Þorsteinsson

Bjarni Þorsteinsson varð sóknarprestur Siglufjarðar árið 1888. Ný timbur kirkja með turni var byggð á Eyrinni 1892 fyrir tilstilli hans en kirkjur höfðu staðið úti á Hvanneyrarhól frá 1614 (þar var og er enn sjálft prestsetrið).

Þegar kaupstaðurinn fór að vaxa verulega á Norðmannatímanum, á öðrum áratug 20. aldar, lét sr. Bjarni mjög til sín taka í skipulagsmálum og stjórn hins unga bæjarfélags. Af einstakri atorku og framsýni var hann frumkvöðullinn í öllum helstu framfaramálum staðarins, hvort sem það var bygging skólahúss og rafveitu 1913, öflun kaupstaðarréttinda 1918 eða bygging hinnar glæsilegu steinkirkju 1932, svo nokkur dæmi séu nefnd. Hann var hinn óumdeildi foringi bæði í andlegum og veraldlegum málum Siglfirðinga.

Þekktastur er þó sr. Bjarni fyrir störf sín að tónlistarmálum. Auk þess að vera gott tónskáld safnaði hann og bjargaði frá gleymsku íslenskum þjóðlögum og gaf út á mikilli bók árið 1909. Það afrek eitt dygði til að halda nafni hans á lofti um aldur og ævi. Hann lést árið 1938

Síldartíminn

Árið 1903 urðu mikil tímamót á Siglufirði er Norðmenn hófu stórfelldar síldveiðar við Norðurland og gerðu Siglufjörð að miðstöð síldarútvegsins. Með síldveiðunum og nýrri tækni til botnfiskveiða, togaraútgerðinni urðu stórstígari framfarir en nokkurn tíma í sögu Íslands. Þjóðin steig út úr aldalöngu myrkri og fátækt til nýs tíma með rafljósum og tækniframförum á öllum sviðum.

Strax á fyrsta ári Norðmanna hér fékk almúgafólk, sem hjá þeim vann, greidda peninga í vinnulaun í fyrsta sinn. Þótt "sjálfskipaðir eigendur" vinnuhjúanna, kaupmenn og bændur reyndu að hindra að nýir siðir væru upp teknir þá voru fyrstu sporin stigin til aukins frelsis og framfara. Norðmenn reistu fjölda stórhýsa til atvinnurekstrar og félagsstarfa þ.á.m. Norska sjómannaheimilið sem einnig var fyrsta sjúkrahúsið á staðnum.

Siglufjörður öðlaðist kaupstaðarréttindi með konungsbréfi 1918. Árið 1913 hafði nýtt steinsteypt skólahús verið vígt og fallorka vatnsins úr Hvanneyrarskál lýsti upp híbýli þorpsbúa í fyrsta sinn það sama ár. Á næstu áratugum óx staðurinn hraðar en nokkur annar bær landsins. Þar sem í aldarbyrjun örlaði vart á þorpsmynd var fjörutíu árum síðar 5. mesti þéttbýlisstaður landsins. Árið 1950 var íbúafjöldinn í hámarki eða um 3100 manns sem hafði hér skráða búsetu.

Á þessu skeiði var Siglufjörður einhver mikilvægasta höfn landsins og nokkrum sinnum fór síldarútflutningur frá Siglufirði yfir 20% af árlegum útflutningi landsmanna. Í þessum "Klondyke Atlantshafsins" ríkti hin sanna gullgrafarastemning síldarævintýrisins. Hér voru að jafnaði starfræktar 20-25 söltunarstöðvar og 3-5 bræðsluverksmiðjur. Síldarspekúlantar komu og fóru, ýmist vellauðugir eða blásnauðir og verkafólk í tugþúsundatali sótti hingað atvinnu í gegnum tíðina. Í brælum lágu hér hundruð síldarskipa af mörgu þjóðerni. Fólksmergðin í bænum var stundum eins og á strætum stórborga og óvíða var mannlífið litríkara eða fjörugra.

En svipull er sjávarafli. Hvert síldarleysissumarið rak annað lengst af á 6. áratugnum og þá fór íbúunum að fækka. Þótt vel rofaði til í veiðum um og eftir 1960, þá var skammt að bíða þess að áfallið dundi yfir Siglufjörð. Sumarið 1964 var síðasta síldarsumarið á Norðurlandsmiðum og 1968 var síldarævintýrinu endanlega lokið. Síldin var ofveidd!

Árið 1994 var opnað á Siglufirði safn til minningar um þennan stórkostlega tíma í sögunni. Síldarminjasafnið er landssafn um sögu síldarútvegsins á Íslandi.

Atvinnuþróun á Siglufirði

Eftir að síldin hvarf tóku við erfið ár í atvinnulífi staðarins en því var komið í sæmilega gott horf á árunum 1971-73 er útgerðarfyrirtækinu Þormóði ramma var komið á fót með tilstyrk ríkisvaldsins. Líklega voru ráðamenn með því að greiða Siglufirði skuld frá fyrri áratugum aldarinnar er staðurinn var ein helsta gullkista þjóðarbúsins. Skuttogaraútgerðin blómstraði, stórfelld þorskvinnsla var stunduð í frystihúsum staðarins og mikil loðna var brædd ár eftir ár í gömlu síldarbræðslunni, stærstu fiskimjölsverksmiðju landsins. Eftir 1990 jókst mjög útgerð rækjuveiðiskipa frá Siglufirði og við lok 20. aldar hafði rækjan tekið við af þorski í landvinnslu frystihúsanna.

Undanfarin áratug hafa orðið gríðarlegar breytingar á atvinnuháttum á Siglufirði, störfum við fiskveiðar og vinnslu hefur fækkað jafnt og þétt og eru ekki sá grunnur sem þau hafa verið í atvinnulífi staðarins.  Leitað hefur verið nýrra leiða sem gefist hafa misvel.  Fjarvinnsla fyrir stofnanir af ýmsu tagi er ein þeirra leiða sem reynst hafa vel og útlit er fyrir fleiri störf í þeim geira, vélsmíði og bátasmíði er annar vaxtarsproti sem vakið hefur athygli og skapað ný störf og fleira mætti telja.