Höfðingjar í hérðaði

Tveir menn settu mikinn svip á þennan tíma og höfðu forystu í atvinnulífi Siglfirðinga. Annar þeirra var Jóhann Jónsson hákarlaformaður og bóndi í Höfn. Hann var sjálfmenntaður skipasmiður og lagði kjölinn að þilskipaútgerð Siglfirðinga og Norðlendinga og stuðlaði einnig að framförum í landbúnaði í heimasveit sinni.

Snorri Pálsson, verslunarstjóri, stjórnaði útgerð hákarlaskipa og kom á fót niðursuðu matvæla til útflutnings. Hann var einna fyrstur Íslendinga til að gera tilraunir til síldveiða og útflutnings saltsíldar, og var helsti hvatamaður að stofnun Sparisjóðs Siglufjarðar, elstu peningastofnunar á Íslandi, árið 1873. Sem þingmaður Siglfirðinga beitti hann sér fyrir margs konar framfaramálum fyrir Siglufjörð. Snorri lést árið 1883 aðeins fertugur að aldri og var öllum harmdauði.

Fjórum árum síðar kom annar eldhugi fram á sögusvið okkar er ungur prestur vígðist til Hvanneyrarsóknar, sr. Bjarni Þorsteinsson. Bjarni átti á langri ævi eftir að verða mikill örlagavaldur í sögu staðarins og er reyndar af mörgum nefndur faðir Siglufjarðarkaupstaðar. Með líkum hætti hefði mátt segja að Snorri Pálsson hafi verið afi Siglufjarðar, svo mikilvægur er einnig hann í sögu bæjarins.