Árdalur (Syðri- og Ytriárdalur)

Út með vestanverðum Ólafsfirði hefur orðið til lítið þorp er nefnist Kleifar. Á Kleifum eru tvö lögbýli Syðri-Á og Ytri-Á, en aðeins er nú búið á Syðri-Á. Nokkur hús eru þarna en aðeins búið í þremur þeirra í dag. Öll önnur hús eru nú notuð til sumardvalar og er þeim vel við haldið. Mjög sumarfagurt er á Kleifum og er þar oft margt um manninn á sumrum. Mjög stór ættbogi er frá Ytri-Á, en þar bjuggu síðast tveir bræður ásamt eiginkonum sínum og áttu önnur hjónin tuttugu börn en hin tíu og sækja þau mjög til átthaganna á sumrum. Bæirnir standa hvor sínumegin við á sem heitir Gunnólfsá. Þarna settist annar landnámsmaður Ólafsfjarðar að, en sá hét Gunnólfur gamli. Upp af Kleifum gengur allstór dalur er Árdalur heitir og rennur Gunnólfsá eftir honum miðjum, en er upp í dalinn kemur skiptist áin og rennur Gunnólfsá í Syðrárdal en önnur á rennur í Ytrárdal og nefnist hún Rauðskarðsá. Þar sem árnar mætast heita Tungur.

Árdalur er sem aðrir dalir Ólafsfjarðar girtur háum fjöllum. Að norðan í dalsmynninu er Arnfinnsfjall, 854 m., í daglegu tali kallað Finnurinn, og innar Ytrárfjall, 842 m., að sunnan er Ósbrekkufjall og heitir nyrsti hluti þess Syðrárhyrna, 724 m., Þverfjall, 905 m., skiptir dalnum í tvo fyrrnefnda dali, Syðrárdal sem gengur til suðvesturs og Ytrárdal sem gengur til norðvesturs.

Góðar gönguleiðir eru til Héðinsfjarðar úr Syðrárdal um Fossabrekkur og úr Ytrárdal um Rauðskarð. Þá er leið innst úr botni Ytrárdals sem nefnist Afglapaskarð en Ólafsfirðingar búsettir á Kleifum kalla skarðið Vatnsendaskarð. Leið þessi er lítið farin enda brött og verra að fara hana en hinar leiðirnar.