Atvinnusaga Ólafsfjarðar

Atvinnusaga Ólafsfjarðar er hin síðari ár nátengd sjónum og hefur svo eflaust verið frá landnámi þótt í öðruvísi formi hafi verið. Landbúnaður var þó frá landnámi aðalatvinnugrein staðarins fram á þessa öld eins og annarra staða landsins, en sjósókn hefur þó óvíða verið eins mikilvæg og á Ólafsfirði.

Útgerð:
Haustið 1904 kom fyrsti vélbáturinn til Ólafsfjarðar, Hæringur EA 186. Ári síðar kom svo Ólafur bekkur , og fleiri fylgdu í kjölfarið. Ólafsfirðingar voru, ásamt Hríseyingum brautryðjendur í vélbátaútgerð á Norðurlandi. Til marks um sterka stöðu sjósóknar frá Ólafsfirði þá áttu Ólafsfirðingar árið 1907 14 vélbáta auk fjölda árabáta. Bátarnir stækkuðu sífellt og krafan um umbætur í hafnargerð óx að sama skapi.
Tímabilið 1926-1930 er að mörgu leyti merkilegt skeið í sögu bæjarins. Það má segja að það sé undanfari nútíma atvinnuhátta í sjávarútvegi Ólafsfirðinga, tengi gamla tímann og þann nýja. Árabátaútgerð lýkur, hlutdeild minnstu vélbátanna í aflamagninu minnkar en ný skip, um og yfir 20 tonn, koma fram. Þá byrja einnig tilraunir með vetrarróðra byrja.
Um 1945 varð mikil endurnýjun í bátaflota Ólafsfirðinga, en gerð þeirra var svipuð og áður. Á árunum 1955 - 1960 ráku Ólafsfirðingar, Húsvíkingar og Sauðkrækingar saman togarann Norðlending ÓF 4 en um 1960 koma stærri skip, stálskip m/siglingatækjum og nýrri veiðitækni í fjörðinn. Árið 1967 hættu ólafsfirðingar að senda báta suður á vertíð eins og tíðkast hafði en hófu þess í stað að gera út frá Ólafsfirði allt árið.
Árið 1973 komfyrsti skuttogarinn Ólafur Bekkur ÓF2 til Ólafsfjarðar og ári síðar Sólberg ÓF 12 og með komu þessara togara hefst tímabil skuttogaranna. Þrátt fyrir erfið hafnarskilyrði hafa Ólafsfirðingar yfirleitt staðið framarlega í útgerð, og skipastóll þeirra og afli oftast verið mikill miðað við stærð staðarins og er svo enn.

Landvinnsla:
Árið 1879 reistu Siglfirðingar salthús á Kleifunum. Laust eftir 1890 reistu Akureyringar salthús í "Horninu". Um 1920 hættu Ólafsfirðingar að selja Akureyringum fisk og fóru að verka sjálfir. Fjöldi aðila og fyrirtækja hefur komið við sögu söltunar á Ólafsfirði, bæði stór og smá, enda á saltfiskverkun sér ríka hefð á Ólafsfirði a.m.k. á þessari öld.
Verkun síldar hófst á Ólafsfirði árið 1935 og skaut styrkari stoðum undir atvinnulífið og jók fjölbreytni þess, en síldarsöltun varð aldrei ráðandi þáttur, heldur skipaði þorskurinn alltaf fyrsta sætið. Síldveiðar og vinnsla er mikil á árunum 1961-1966, en lögðust af frá Ólafsfirði árið 1968.
Sumarið 1930 var hafist handa við byggingu frystihúss á Ólafsfirði, það var rekið í nokkur ár en 1941 var það lagt niður og breytt í Hraðfrystihús Ólafsfjarðar hf. Árið 1941 hefst hraðfrysting hjá Hraðfrystihúsi Ólafsfjarðar hf. og árið 1962 tók til starfa Hraðfrystihús Magnúsar Gamalíelssonar.

Í gegnum tíðina hafa ólafsfirðingar reynt ýmislegt fyrir sér í vinnslu sjávarfangs. Fiskiðjuver Ólafsfjarðar, sem var niðursuðuverksmiðja, tók til starfa 1949, en átti stuttan líftíma. Árið 1950 var beinaverksmiðja byggð á Ólafsfirði og árið 1957 var hægt að bræða síld. Hún var stækkuð 1963 og ný verksmiðja reist á rústum þeirra gömlu árið 1984. Engin starfsemi hefur verið í verksmiðjunni síðan 1998. Árið 1986-7 var gerð tilraun með kavíarvinnslu á Ólafsfirði á vegum Sævers hf ogrækjuverksmiðja var rekin um nokkurt skeið á vegum Magnúsar Gamalíelssonar hf , en var seld burtu árið 1991.
Landvinnsla í Ólafsfirði hefur dregist nokkuð saman á undanförnum árum. Þó er enn töluverð vinnsla hjá Sigvalda Þorleifssoni ehf. og Stíganda hf. Þá eru nokkrir trillukarlar sem verka sinn afla sjálfir.

Landbúnaður:
Landbúnaður var rekinn á Ólafsfirði með hefðbundnu sniði eins og gekk og gerðist á Íslandi , en þó var sjósókn alltaf stór þáttur í lífsbjörg Ólafsfirðinga. Jarðir voru yfirleitt litlar og undirlendi víðast af skornum skammti og oft á tíðum óblíð veðrátta sem setti mark sitt á búskapinn, þótt hér sé ákaflega sumarfagurt. Í afmælisriti Búnaðarfélags Ólafsfjarðar sem spannar 90 ára sögu þess má sjá þróun búskapar í grófum dráttum mest alla þessa öld. Nú eru ekki mörg býli þar sem búskapur er stundaður að einhverju marki og sem aðalatvinnugrein. Það eru nánast ekki nema Bakki, Kálfsá og Kvíabekkur fyrrum höfuðból Ólafsfjarðar, sem eftir standa.

Iðnaður:
Í kjölfar vaxandi útgerðar, breyttra útgerðarhátta og fjölgunar í firðinum fer þjónustuiðnaður að skjóta rótum svo sem , byggingariðnaður, vélsmiðjur, rafverktakar, og fleiri mætti telja. Á þessum sviðum hafa Ólafsfirðingar notið góðrar þjónustu og njóta enn og hafa lítið þurft að sækja annað.

Eftir að samdráttur hófst í fiskveiðum og -vinnslu hefur annars konar iðnaður fest rætur í Ólafsfirði, þótt sjávarútvegurinn sé ennþá undirstaðan. Nú eru í Ólafsfirði margvísleg fyrirtæki sem byggja á hugviti og handverki Ólafsfirðinga, s.s. hönnun og smíði fiskvinnsuvéla, smíði slökkvi- og sjúkrabifreiða og fleira.