Rauðskörð

Vegalengd: 10 km
Leið: Kleifar - Rauðskarðsdalur.
Mesta hæð: 570 m.
Göngutími: 5-6 klst.

Gönguleiðin um Rauðskarð er sú leið sem mest er farin úr Ólafsfirði og koma margir ferðamenn nú hvert sumar, bæði innlendir og erlendir, og leggja upp frá Kleifum eða koma til Kleifa úr Héðinsfirði og mjög algengt er líka að Héðinsfjörður sé aðeins viðkomustaður á leið ferðamanna frá Siglufirði eða Ólafsfirði.

Þegar gengin eru Rauðskörð (Ólafsfirðingar nefna þau svo) er lagt upp norðan Gunnólfsár, upp frá Ytri-Á. Dalurinn er mjög auðveldur uppgöngu og vel gróinn. Lítill bratti er á leiðinni þar til kemur fram þar sem lagt er á skarðið. Gengið er undir hlíðum Arnfinnsfjalls í fyrstu, en þegar kemur fram í miðjan dal er stór skál í fjallið er nefnist Hrafnaskál  og við tekur Ytrárfjall. Úr Hrafnaskál gengur allstórt gil og þar fyrir framan eru hjallar er nefnast Jókuhjallar. Þar er mjög góð skíðastökkbraut frá náttúrunnar hendi og hafa ólafsfirskir stökkvarar oft notað hana þegar lítill snjór er í byggð. Þegar komið er vel inn fyrir Jókuhjalla eru Rauðskörð á hægri hönd, tvö skörð eru í fjallseggina og er Rauðskarð fremra og hærra skarðið, en skarðið nær Hrafnaskál heitir Loftskarð og ef farið er þar um er komið niður í botn Víkurdals. Sú leið er mun erfiðari en að fara Rauðskörð. Best er að fara vel inn fyrir skarðið og ganga síðan hlíðina til norðurs upp á klettahausa sem þar eru. Bratt er upp í skarðið en þó ágætt að fara ef rétt leið er farin. Þegar staðið er í skarðinu er fagurt útsýni til Kleifa og austan fjarðarins blasir Múlinn við.

Niður í Víkurdal er greiðfært og komið er fyrst niður í skál allstóra; í henni er stór steinn þar sem menn hvíla sig gjarnan. Frá steini þessum rennur lækur sem fylgja ætti þegar farið er niður úr skálinni. Gangan til Víkur í Héðinsfirði tekur um fjóra tíma.