Burstabrekkudalur / Drangar

Lagt er upp frá Burstabrekku þegar gengið er til Dalvíkur um Dranga. Bærinn Burstabrekka er um einn og hálfan km. sunnan Ólafsfjarðarkaupstaðar. Leið þessi er auðrötuð vegna þess að raflína var lögð um Dranga frá Dalvík og er næstum hægt að fylgja línunni alla leið.

Þegar gegnið er upp frá Burstabrekku er fylgt vegarslóða sem myndaðist þegar raflínan var lögð. Leiðin er létt, gengið er yfir gróið land og bratti lítill. Burstabrekkudalur er sem aðrir dalir hér um slóðir umlukinn háum fjöllum. Á hægri hönd er Hólkotshyrna, 895 m., ákaflega svipmikið fjall sem gnæfir yfir, séð frá Ólafsfjarðarkaupstað sem píramíti. Á vinstri hönd er mikill fjallgarður sem gengur frá Kerahnjúk að norðan inn að Dröngum að sunnan, óslitin fjallsegg sem nær hæst 1062 m. hæð.

Burstabrekkudalur er nokkuð gróinn upp í miðjan dal en þá tekur við gróðurlítið svæði enda liggur snjór oft yfir dalnum langt fram á sumar. Í miðjum dal er lítið stöðuvatn og er afrennsli þess Burstabrekkuá, allmikil á miðað við hve stutt hún er. Á vorin ber hún með sér mikið af malarbornu efni niður undir Ólafsfjarðarvatn, þar er það tekið og notað til ofaníburðar í vegi.

Dalurinn er sem áður er sagt umlukinn háum fjöllum og með þverhníptum klettabeltum og er sú hlið Hólkotshyrnu sem inn í dalinn snýr nær ókleif. Er upp í dalinn er komið blasir við skarðið sem nefnt er Drangaskarð. Gangan fram dalinn er auðveld, farið er enn eftir vegarslóða um melöldur. Brátt tekur við síðasti spölurinn upp í skarðið og er gengið á snjó. Brekkan er brött en auðveld uppgöngu og brátt er staðið í skarðinu. Útsýni er fallegt til Ólafsfjarðar og sést hluti fjarðarins í vaffinu sem dalurinn myndar.

Úr skarðinu sér niður í Karlsárdal og er nokkuð bratt niður úr skarðinu og ættu menn að fara þar með gát. Þá sér út á Eyjafjörð. Karlsárdalur er nokkuð langur, svo ætla má að ferðin í heild niður á þjóðveg taki um þrjár til fjórar stundir. Þessa leið er mjög gaman að fara á skíðum og tekur hún þá mun styttri tíma ef færi er gott. Þar sem snjóalög eru mikil í dalnum eru snjóflóð tíð og ber að varast að fara mikið um dalinn ef hætta er á snjóflóðum. Einnig er mjög varasamt að fara upp í Drangaskarð um hávetur, en þá er oft svo lágt undir háspennulínur að hætta stafar af. Á Burstabrekkudal eru lindir þær er sjá Ólafsfjarðarkaupstað fyrir köldu vatni.

Sumarskíðasvæði er líka ágætt á Burstabrekkudal og er talað um að koma upp aðstöðu fyrir skíðafólk enda var dalurinn á árum áður mikið notaður til skíðaferða þegar lítill snjór var í byggð.

Leiðin um Dranga var mjög fjölfarin áður fyrr; ekki er þó hægt að fara um skarðið á hestum sökum þess hve bratt er Dalvíkurmegin. Leiðin var mikið farin þegar sækja þurfti lækni eða lyf og var talin auðveld bæði að sumri og vetri. Nú er leiðin nokkuð farin af ferðafólki, bæði frá Dalvík og Ólafsfirði.