Atvinnuþróun á Siglufirði

Eftir að síldin hvarf tóku við erfið ár í atvinnulífi staðarins en því var komið í sæmilega gott horf á árunum 1971-73 er útgerðarfyrirtækinu Þormóði ramma var komið á fót með tilstyrk ríkisvaldsins. Líklega voru ráðamenn með því að greiða Siglufirði skuld frá fyrri áratugum aldarinnar er staðurinn var ein helsta gullkista þjóðarbúsins. Skuttogaraútgerðin blómstraði, stórfelld þorskvinnsla var stunduð í frystihúsum staðarins og mikil loðna var brædd ár eftir ár í gömlu síldarbræðslunni, stærstu fiskimjölsverksmiðju landsins. Eftir 1990 jókst mjög útgerð rækjuveiðiskipa frá Siglufirði og við lok 20. aldar hafði rækjan tekið við af þorski í landvinnslu frystihúsanna.

Undanfarin áratug hafa orðið gríðarlegar breytingar á atvinnuháttum á Siglufirði, störfum við fiskveiðar og vinnslu hefur fækkað jafnt og þétt og eru ekki sá grunnur sem þau hafa verið í atvinnulífi staðarins.  Leitað hefur verið nýrra leiða sem gefist hafa misvel.  Fjarvinnsla fyrir stofnanir af ýmsu tagi er ein þeirra leiða sem reynst hafa vel og útlit er fyrir fleiri störf í þeim geira, vélsmíði og bátasmíði er annar vaxtarsproti sem vakið hefur athygli og skapað ný störf og fleira mætti telja.