Ólafsfjarðarvatn

Ólafsfjarðarvatn

Ólafsfjarðarvatn er sérstakt fyrir margra hluta sakir. Það er lagskipt með fersku og söltu vatni og sums staðar eru hlý vatnslög og er á náttúruminjaskrá vegna þessara eiginleika. Vatnið er um 2,5 ferkílómetrar að stærð; um 3 km á lengd og um 1 km á breidd þar sem það er breiðast. Allbreitt rif, sand- og malarkambur, ca 250 m breitt skilur vatnið frá sjónum og rennur ós úr því til sjávar. Ólafsfjarðarkaupstaður stendur að hluta til á þessu rifi. Ekki er talið ólíklegt að vatnið hafi áður fyrr verið alveg opið til sjávar en lokast svo af smám saman.

Vatnið er frekar grunnt, mesta dýpi er um 10 - 11 metrar. Ólafsfjarðarvatn eykur við hina sérkennilegu og stórbrotnu fegurð byggðarinnar, og var fyrr á árum og öldum mikil viðbót við matarforðabúr Ólafsfirðinga og bjargaði áreiðanlega mörgum frá hungri. Silungsveiði er með ágætum í vatninu og sjófiskar svo sem þorskur, ufsi, koli, síld og fleiri tegundir hafa veiðst þar öldum saman.
Vegna þessa var Ólafsfjarðarvatn umtalað mjög og svo víða barst frægð þess að árið 1891 sendu Frakkar herskip til Ólafsfjarðar með hóp franskra vísindamanna sem rannsökuðu vatnið og var skrifað um niðurstöðurnar í virt franskt vísindarit.

Getið er um maurungsveiði í vatninu og það talið til hlunninda, en maurungur var sá þorskur nefndur sem veiddist í vatninu. Þá er getið um síldargöngur miklar á stundum. Frekar hefur dregið úr veiði sjófiska hin síðari ár. Bændur hafa netalagnir í vatninu á sumrin og veiðist oft nokkuð vel.

Það getur verið mjög gaman að renna fyrir silung að sumarlagi í góðu veðri hvort sem er af vatnsbakkanum eða af báti úti á vatni. Seglbretta- og bátasiglingar á vatninu hafa verið stundaðar enda kjöraðstæður oftast nær. Umferð mótorbáta er þó ekki leyfð.

Mikið fuglalíf er í Ólafsfirði og við Ólafsfjarðarvatn. Hér má sjá lista yfir staðarfugla.

Á vetrum leggur vatnið og hafa menn löngum veitt í gegn um vakir. Ólafsfjarðarvatn þykir mjög skemmtilegt vatn til dorgveiði þar sem nokkuð vel veiðist og líka vegna fjölbreytni fisktegunda.

Þá hefur skautafólk notað vatnið í fallegu vetrarveðri sér til skemmtunar.