Barnavernd - Tilkynning til barnaverndar


Samkvæmt barnaverndarlögum ber hverjum þeim sem hefur ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu að tilkynna það barnaverndarnefnd. Sá er tilkynnir getur jafnan óskað nafnleyndar gagnvart öðrum en barnaverndarnefnd.

Starfsmenn félagsþjónustu taka við barnaverndartilkynningum í síma 464-9100. Einnig er hægt að fylla út formið hér fyrir neðan. 
Athugið að einnig er hægt að tilkynna barnaverndarmál til neyðarlínunnar í númerið 112

       

Markmið barnaverndar

er að tryggja börnum og ungmennum viðunandi uppeldisskilyrði. Við vinnslu barnaverndarmála eru hagsmunir barns ávalt hafðir í fyrirrúmi og leitast við að ná samstarfi við forsjáraðila og veita þann stuðning sem barn og fjölskylda þess þarfnast. Stuðningsúrræði barnaverndar eru meðal annars viðtöl og ráðgjöf, persónulegur ráðgjafi, tilsjónarmaður og stuðningsfjölskylda auk annarra úrræða sem sótt er um hjá Barnaverndarstofu. Með börnum er átt við einstaklinga yngri en 18 ára.

  • Tilsjónarmaður aðstoðar foreldra við að sinna forsjár- og uppeldisskyldu sinni sem best.
  • Persónulegur ráðgjafi veitir barni ráðgjöf og leiðbeiningar í þeim tilgangi að styrkja það félagslega og tilfinningalega, svo sem í sambandi við vinnu, menntun og tómstundir.
  • Stuðningsfjölskylda tekur á móti barni, eða barni og foreldri, til vistunar í nokkra daga í mánuði í því skyni m.a. að létta álagi af barni eða fjölskyldu þess og leiðbeina foreldrum og styðja þá í forsjárhlutverkinu.