Hvanndalir úr Héðinsfirði

Vegalengd: 6-7 km
Leið: Vík - Víkurhólar - Víkurbyrða - Vestaravik - Hvanndalir.
Mesta hæð: 800 m
Göngutími 4 – 5 klst. 

Hvanndalir, eitt afskekktasta byggða ból á Íslandi um aldir, eru norðaustan Héðinsfjarðar, handan Víkurbyrðu (890 m). Til að komast þangað þarf að fara "yfir Byrðuna" eða um Hvanndalaskriður, hinn versta veg. Hvanndalir voru nýttir vegna góðra landkosta fyrir sauðfé, en búseta var þar stopul. Þar hefur margt fátækt almúgafólk leitað frelsis og sjálfstæðis en orðið að flýja þennan harðbýla stað. Skömmu fyrir aldamótin 1900 keypti hreppsnefnd Hvanneyrarhrepps jörðina að Hvanndölum gagngert til að koma í veg fyrir að mannabyggð héldist þar lengur.

Sýrdalur er lítið dalverpi austur undir Hvanndalabjargi (740 m). Ódáinsakur er sagður hafa verið bújörð í Sýrdal fyrr á öldum. Þar vaxa sérstök lífgrös sem eru þeirrar náttúru að þau veita mönnum líf og heilsu. Sagan segir að fyrrum hafi svo rammt kveðið að þessari náttúru að bærinn hafi verið fluttur að Hvanndölum því enginn hafi getað dáið á Ódáinsakri.

"Há eru og hrikaleg Hvanndalabjörg, þar eiga bergtröllin heimkynni og hörg", orti Jón Trausti. Hvanndalabjarg er við mynni Ólafsfjarðar að vestanverðu, eitt hæsta og ógurlegasta bjarg á Íslandi. Bóndakona í Málmey á Skagafirði sem brotið hafði þau álög að enginn mætti búa á eynni lengur en nítján ár, var numin brott af tröllskessunum í Hvanndalabjargi. Hálfdán Einarsson, prestur í Felli sem setið hafði í Svartaskóla samtíða Sæmundi fróða, flutti Málmeyjarbónda sjóleiðis á hesti sínum að Hvanndalabjargi. Þar var fyrir bóndakonan "krossi vígð, komin í bland við tröllin" og varð hún ekki þaðan tekin. 

Gönguferðin hefst frá eyðibýlinu Vík í Héðinsfirði og gengið norður um Víkurhóla í mynni Víkurdals. Í norðaustri gnæfir yfir Víkurbyrða. Upp Byrðuna er best að ganga eftir öxlinni þar sem mætast suðvestur og vestur hlíðar fjallsins, allbrött leið en vel fær. Þegar komið er upp á fjallsbrún er mjög víðsýnt. Þaðan liggur leiðin niður Vestaravik sem liggur í sveit niður í botn Hvanndala en þaðan er um 2 km leið meðfram hvanndalaá út á sjávarbakka. Hér er hrikaleiki á alla vegu. Í vestri girðir Hvanndalabyrða að dalbotni. Að austan rís Miðdegishyrna og Hádegisfjall nær sjó. Á háum sjávarbökkum stendur björgunarskýli SVFÍ og þar vestan árinnar sjást tóftir síðasta hvanndalabæjarins. Ustan árinnar er Ódáinsakur og þar eru fornar tóftir. Héðan liggur leið austur í Selskál, skeifulaga fjallasal og hér er tónleikahöll frá náttúrunnar hendi