Skarðdalur - Hafnarfjall - Hvanneyrarskál

Tími: 5-7 klst. 

Úr miðjum Skarðdal er haldið til vesturs stutta leið upp Efrafjall og þaðan til norðurs vestan Snóks þvert á Dalaskarð um fjallabungur og enn til norðurs upp á Hafnarfjall (550 m) ofan kaupstaðarins. Þar er mikið útsýni yfir Siglufjörð og fjöllin í austri og suðri, hina stórskornu hnjúka Tröllaskaga. Lengst í austri eru Víkurbyrða og efsti hluti Hvanndalabjargs (740 m). Í norðaustri Grímsey. Í "Grindagili" ofan Fífladala voru sett upp snjóflóðavarnarvirki í tilraunaskyni árið 1996.

Nyrsti og hæsti hluti Hafnarfjalls er Hafnarhyrna (687 m) auðgeng. Skráma var tröllkerling sem bjó í helli þarna í grennd og er Skrámhyrna nokkru utar kennd við hana. Norðan Hafnarhyrnu er hægur gangur niður í Hvanneyrarskálog þaðan eftir akvegi sem liggur niður að kaupstaðnum. Hvanneyrarskál varð fræg á síldarárunum sem sérstakur unaðsstaður elskenda sem ekki áttu í neitt hús að venda. Norðan skálarinnar er Hvanneyrarhyrna (640 m).