Landnámsöld

Saga mannsins er mjög stutt á Íslandi. Það var ekki fyrr en um 870 e. Kr. að norrænir menn, víkingar frá Skandinavíu og írskir menn hófu búsetu á Íslandi. Telja má líklegt að nálægt 900 hafi Siglufjörður verið numinn.

Vegna ófriðar og landleysis í Noregi yfirgaf Þormóður rammi Haraldsson heimili sitt í Noregi. Hann sigldi yfir hafið með fólki sínu, föggum og fénaði, fann óbyggðan fjörð fyrir miðju Norðurlandi og leist svo vel á sig að hann settist þar að. Hann reisti bú sitt á Siglunesi, sem er við mynni Siglufjarðar. Landnám Þormóðs ramma náði yfir Siglufjörð og Héðinsfjörð.

Í Landnámu er getið ófriðar sem Þormóður rammi átti við nágranna sinn Ólaf bekk í Ólafsfirði. Þeir deildu um eignarhald á litlu dalverpi, Hvanndölum austan Héðinsfjarðar. Úlfsdali vestan Siglufjarðar nam Úlfur víkingur.

Þjóðveldisöldin

Hið nýja þjóðríki Íslendinga var fest formlega í sessi við stofnun Alþingis á Þingvöllum árið 930. Það var fyrsta þjóðþing sem vitað er um. Ættstórir og vinsælir héraðshöfðingjar fóru með umboð þegna sinna á Alþingi, settu landinu lög og dæmdu í málum. Fyrstu 100 ár þjóðveldisaldar var hin eiginlega söguöld, þegar Íslendingasögurnar gerðust. Þær greina aðallega frá valdabaráttu og vígaferlum en minna fer fyrir hversdagslegum háttum landsmanna.

Árið 1000 var heiðinn dómur lagður af er kristin trú var lögleidd á Aþingi. Með því var komið á tengingu við hina evrópsku kirkju sem átti eftir að móta svo mjög þróun íslenska þjóðfélagsins næstu 1000 árin.

Þjóðveldisöld lauk árið 1262 þegar Íslendingar afsöluðu sjálfstæði sínu og gerðust þegnar Noregskonungs. Innbyrðis deilur og bræðravíg voru aðalástæður þess að við lutum hinum voldugu Norðmönnum. Með þjóðveldisöldinni lauk því skeiði sem margir telja eitt hið glæsilegasta í sögu okkar. "Þá riðu hetjur um héruð", landsmenn stunduðu frjálsa verslun, og "smjör draup af hverju strái" í þessu gnægtaríka landi.

Miðaldir
Þótt frelsið væri glatað ríkti enn blómaskeið að mörgu leyti. Sagnaritunin hélt áfram og verslun stunduð af kappi við Norðmenn. Aðalútflutningsvara okkar var skreið.

Kaflaskil urðu enn í sögunni árið 1380 þegar Danir náðu völdum á Íslandi um leið og þeir lögðu undir sig Noreg. Um 1400 höfðu Englendingar mikil áhrif í verslun við Íslendinga án þess að hin nýja herraþjóð gæti rönd við reist. Síðar eða um 1500 höfðu Þjóðverjar náð góðri fótfestu í verslun á Íslandsströnd sem ekki var hnekkt fyrr en með lögum um einokun Dana í Íslandsversluninni árið 1602. Þá má segja að hefjist hinn mesti niðurlægingartími í sögu okkar.

Í hart nær tvær aldir bjó þjóðin við hið versta ófrelsi og fátækt, og yfir landið gengu ýmist drepsóttir eða harðindi í náttúrunnar ríki. Hafís lagðist að landi með fimbulkuldum og úr hyldjúpum jarðar vall glóandi hraun og eitrað loft. Nokkru áður eða 1550 höfðu landsmenn verið neyddir til að leggja af kaþólskan sið og taka upp lútherska trúarsiði og það var þjóðinni mikið áfall að sjá af merkum menningarverðmætum og helgidómum sem fjarlægðir voru úr kirkjunum.