Skollaskál og austanverður Siglufjörður

Tími: 5-7 klst.
Vegalengd: 7 - 8 km.

Fyrsti áningarstaður er Álfhóllá Hólsárbakka við flugstöðina. Við hólinn eru bundin forn álög. Álfur útvegsbóndi í Saurbæ, skammt frá, hafði ungur stundað víking og efnast mjög. Hafði hann mælt svo fyrir er hann fann dauðann nálgast að hann yrði heygður í hólnum með skipi og helstu dýrgripum og að engum skyldi gagnast að rjúfa hauginn meðan jaxlar hans væru ófúnir. Sagan segir að ungir menn hafi gert tilraunir til að grafa í Álfhól og ná þaðan djásnum Álfs, en utanaðkomandi atburðir stöðvuðu verk þeirra, t.d. þegar kirkjan á Hvanneyri stóð í ljósum logum og þeir hlupu til aðstoðar. Þegar til kom reyndist kirkjubruninn sjónhverfing. Á Álfhóli er útsýnisskífa með helstu örnefnum í fjallahring Siglufjarðar. Skammt austar, eða um 250 m, eru tóftir Saurbæjar sem fór í eyði á fyrrihluta 20. aldar.

Næsti áningarstaður er Staðarhólsfjara við rústir fyrstu síldarverksmiðju á Íslandi sem reist var árið 1911 og kennd við norska eigendur sína, Evangersbræður. Hin miklu mannvirki, bryggjur, þrær og 5 hús sópuðust burtu í ofboðslegu snjóflóði í aprílmánuði 1919. Níu manns fórust. Geysimikil flóðalda reis upp í sjónum og skall á ströndinni kaupstaðarmegin og olli þar skemmdum á skipum og bryggjum. Býlið að Staðarhóli litlu norðar slapp við snjóflóðið.

Þriðji hluti þessarar göngu er upp í Skollaskál austur af Staðarhóli. Skollaskál er stórgrýtt og gróðurlítil. Kalt og tært vatn sprettur undan grjóturð og rennur hægt milli mosagróinna mela. Hnjúkarnir háu sem hleypa af stað snjóflóðum flesta vetur gnæfa þar yfir. Staðarhólshnjúkur (760 m) og Hestskarðshnjúkur (855 m). Frábært útsýni er yfir Siglufjörð úr Skollaskál.

Þess má sjá glögg merki að mikið framhlaup varð sunnan við Skollaskál í febrúar 1830. Grjót og jarðvegur steyptist yfir bæinn Ráeyri. Íbúarnir hlupu undan og björguðust nema gömul kona sem sneri við til að sækja kisu sína og varð undir skriðunni.

Þægilegt getur verið að að láta undan síga suður og niður úr skálinni og ganga suður í Skútudal áður en haldið er heimleiðis.Yfir Skútudal í suðri rís hin mikilfenglega Hólshyrna(Álfhyrna 687 m), eftirlætisfjall flestra Siglfirðinga. Úr Skútudal framarlega er heitu vatni dælt úr jörðu til neyslu og húshitunar í kaupstaðnum. Hitaveitumannvirkin eru sérstaklega hönnuð og byggð til að þola hin öflugustu snjóflóð Þar geta ferðamenn áð á sumardegi og fengið heitt vatn úr krana útivið og hellt sér uppá drykk.