Bjarni Þorsteinsson varð sóknarprestur Siglufjarðar árið 1888. Ný timburkirkja með turni var byggð á Eyrinni 1892 fyrir tilstilli hans en kirkjur höfðu staðið úti á Hvanneyrarhól frá 1614 (þar var og er enn sjálft prestsetrið).
Þegar kaupstaðurinn fór að vaxa verulega á Norðmannatímanum, á öðrum áratug 20. aldar, lét sr. Bjarni mjög til sín taka í skipulagsmálum og stjórn hins unga bæjarfélags. Af einstakri atorku og framsýni var hann frumkvöðullinn í öllum helstu framfaramálum staðarins, hvort sem það var bygging skólahúss og rafveitu 1913, öflun kaupstaðarréttinda 1918 eða bygging hinnar glæsilegu steinkirkju 1932, svo nokkur dæmi séu nefnd. Hann var hinn óumdeildi foringi bæði í andlegum og veraldlegum málum Siglfirðinga.
Þekktastur er þó sr. Bjarni fyrir störf sín að tónlistarmálum. Auk þess að vera gott tónskáld safnaði hann og bjargaði frá gleymsku íslenskum þjóðlögum og gaf út á mikilli bók árið 1909. Það afrek eitt dygði til að halda nafni hans á lofti um aldur og ævi. Hann lést árið 1938