Verstöðin Siglunes

Austan kaldinn á oss blés,
upp skal faldinn draga trés.
Veltir aldan vargi hlés,
við skulum halda á Siglunes.


Þormóður rammi gerði Siglunes að miðstöð Siglufjarðarbyggða. Í meira en 600 ár var þar aðalkirkja og þingstaður allra íbúa Sigluneshrepps hins forna.Siglunes var einnig um aldir ein af mikilvægustu verstöðvum landsins. Þangað sóttu sjómenn til róðra víða að og fluttu í heimabyggðir sínar skreið og Sigluneshákarlinn fræga, það mikla hollmeti og hnossgæti.

Árið 1614 var aðalkirkjan flutt til Siglufjarðar. Nýtt kirkjuhús var reist á Hvanneyri sem eftir það var miðstöð hreppsins, Hvanneyrarhrepps.

Snemma bar mjög á því hve Siglufjarðarbyggðir voru afskekktar og úr alfaraleið. Þannig var til dæmis talið að eftir að kristni var lögleidd árið 1000 hafi hin nýja trú einna síðast náð til íbúa slíkra staða sem Sigluneshrepps. Sama máli gegndi með að framfylgja öðrum landslögum s.s. eftirliti með verslunarlögum herraþjóðanna. Sagnir herma að á 15. öld hafi enskir sjómenn átt vingott við Siglfirðinga og haft hér bækistöð og stundað verslun óáreittir af yfirvöldum landsins. Siglfirðingum var á tímum verslunareinokunar Dana ætlað að sækja verslun til Akureyrar, en oftar en ekki reyndist leiðin vestur í Hofsósverslunina þeim styttri.

Fáum sögum fer af hag forfeðra okkar hér í hreppnum á fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Sennilegt er þó að í venjulegu árferði hafi þeir notið mjög nálægðar við gjöful fiskimið, haft nóg að bíta og brenna og hagnast á verslun og flutningi sjávarfangs héðan. Einnig má ætla að á harðindatímum þegar hafís lá landfastur langtímum saman hafi oft verið þröngt í búi.