Reykjaheiði

Reykjaheiði var á fyrri öldum einn algengasti og fjölfarnasti fjallvegur milli Svarfaðardals og Ólafsfjarðar vegna þess að þetta er eina leiðin sem er vel fær hestum. Leiðin var fljótlega vörðuð og fyrir nokkrum árum fóru hestamenn í hestamannafélaginu Gnýfara í Ólafsfirði og endurreistu vörðurnar Ólafsfjarðarmegin, fyrir bragðið er nú leiðin auðrataðri.

Yfir Reykjaheiði fór pósturinn á leið sinni til Ólafsfjarðar, Fljóta og Siglufjarðar. Fé Svarfdælinga leitaði áður fyrr mjög yfir í gósenlönd Ólafsfjarðar því alla tíð hefur þar verið gott til beitar fyrir sauðfé. Úrtíningsmenn úr Svarfaðardal fóru yfir á Reykjarétt fremst í Ólafsfirði og í Stíflurétt í Fljótum og ráku féð til baka yfir Reykjaheiði.

Leiðin yfir Reykjaheiði er lengsta leiðin af þeim sem farnar eru milli Ólafsfjarðar og Svarfaðardals, ef frá er talin leiðin um Klaufabrekknaskarð. Lagt er upp frá eyðijörðinni Reykjum en þar eru heitar lindir. Búið var að Reykjum fram til 1940. Ungmennafélagið í firðinum byggði sundlaug hlaðna úr torfi og grjóti og var hún notuð til sundkennslu allt fram að þeim tíma að sundlaug var byggð niðri í Ólafsfirði. Þarna er nú sumarbústaðahverfi og nota eigendur þeirra heita vatnið sem þar næst með góðu móti. Sunnan við Reyki er Reykjaá og í henni foss sem ber nafnið Reykjafoss, mikill úði er oft frá fossi þessum og sést langar leiðir.

Þegar lagt er á heiðina er farið frá þessum sumarhúsum. Norðan við Reyki er á er nefnist Lambá og er farið upp með henni að sunnan. Í fyrstu er farið yfir gróið land og ber þar mest á ýmiskonar lyngi, sem annarstaðar í Ólafsfirði, enda eru ágæt berjalönd í firðinum. Brátt rekumst við á fyrstu vörðurnar á leið okkar. Þær eru reistar á melum, en leiðin sem farin er getur varla talist mikið augnayndi, melar og aftur melar er það sem um er farið og snjór í lautum fram eftir öllu sumri. Leiðin getur varla kallast brött, melarnir eru þræddir og eftir tveggja stunda göngu er komið í skarðið sem er í rúmlega 800 m. hæð. Til vinstri handar er Einstakafjall og norðanmegin við það fjall eru Grímubrekkur þannig að stutt er á milli þessara fjallvega. Þegar horft er til Ólafsfjarðar sjást bæirnir Hreppsendaá, sem er í eyði, og Bakki en þar er nú stærsta fjárbú í Ólafsfirði. Leiðin til Dalvíkur er nú greið en nokkuð er bratt niður úr skarðinu Dalvíkurmegin en samt ágæt leið og auðfarin. Síðan liggur leiðin eftir Upsadal eða Böggvisstaðardal. Þessi leið er nú á dögum aðallega farin af ríðandi mönnum.