Alþýðuhúsið á Siglufirði

Hús með sál

Í desember 2011 festi Aðalheiður S. Eysteinsdóttir kaup á Alþýðuhúsinu á Siglufirði í þeim tilgangi að útbúa þar vinnustofu, heimili og leikvöll lista. Endurgerð hússins lauk 19. júlí 2012 og ævintýrið hófst.

Markmið með starfseminni í Alþýðuhúsinu er að menning verði hversdagslegur hluti í lífi fólks, þannig að ungum sem öldnum finnist listir og skapandi hugsun eiga erindi við sig. Að skapa leikvöll listamanna og skapandi fólks til að framkalla list sína og vera vettvangur samræðna og tengsla á milli fólks hvaðanæva að.

Í Alþýðuhúsinu er staðið fyrir víðtækri menningarstarfssemi ár hvert. Áhersla er á myndlist, en starfsemin telur einnig ýmis skapandi samstarfsverkefni, þrjár stórar listahátíðir, jaðartónlist, smiðjur, og vettvang fyrir kraftmikið fólk til að framkvæma eigin verk. Rithöfundar, meistaranemar og tónskáld hafa dvalið um tíma í húsinu við sína iðju og í fimm ár stóðu Arnar Ómarsson og Ari Marteinsson fyrir hugmynda- og samstarfssmiðjunni REITIR workshop sem lauk með útgáfu bókar árið 2017.
Sérstaða hússins er heimilislegur blær sem umvefur alla starfsemina, listafólkið og gesti sem þangað sækja. Enginn aðgangseyrir er á viðburði og fólk gengur inn í flæðið sem heimilið er, dagskrána sem áætluð er frá morgni til kvölds, eins og hluti af heild eða fjölskyldu. Eldhúsið er hjarta hússins eins og á flestum heimilum, en þar koma allir saman til gæðastunda áður en og eftir að listviðburðir eiga sér stað.
Húsið er í stöðugri notkun ýmist sem vinnustofa, heimili eða viðburðarými og með sýningarhaldi í Kompunni. Galleríið Kompan var stofnuð í Kaupvangsstræti á Akureyri 1998 en hefur síðastliðin 10 ár verið starfrækt í Alþýðuhúsinu. Listamönnum sem sýna í Kompunni er boðið að dvelja í húsinu um skemmri tíma við undirbúning og í sumum tilfellum gerð sýninga sinna. Sú dvöl reynist oft næringarríkt samtal listamanna og gefur tilefni til frekari kynni aðkomufólks af menningu staðarins.
Menningarviðburðir eru skipulagðir að jafnaði þrisvar í mánuði. Myndlistarsýningar í Kompunni, Sunnudagskaffi með skapandi fólki og viðburðir í sal. Suma mánuði eru viðburðir um hverja helgi, allt eftir því hversu spennandi listafólk sækir að. Kostirnir við listamannarekin rými á borð við Alþýðuhúsið eru möguleikar á að hliðra til og bæta við eftir því sem andinn blæs hugmyndum í brjóst. Flest listafólk og skapandi einstaklingar sem Aðalheiður býður þátttöku eru spennir fyrir möguleikunum og fagna boðinu og nánast undantekningarlaust verða til ógleymanleg ævintýri.

Alþýðuhúsið á Siglufirði hefur á þessum 10 árum sannað sig sem áhugaverður vettvangur lista og öðlast sess í hugum fólks sem menningarhús. Það sýnir sig með fjölda gesta er sækja viðburði, stundum þannig að færri komast að en vilja. Á þessum 10 árum hafa um 200 viðburðir farið fram. Um 2000 listamenn og skapandi einstaklingar hafa sýnt, tekið þátt í smiðjum eða komið fram með aðra menningarviðburði í Alþýðuhúsinu

Heimasíða Alþýðuhússins á Siglufirði