Þjónusta við fullorðna

Þjónusta félagsþjónustu Fjallabyggðar við fatlaða fólk 18 ára og eldra byggir á  sáttmála Sameinuðu þjóðanna um jafna þátttöku fatlaðra og hugmyndafræði um sjálfstætt líf og valdefningu. Faltað fólk nýtur allrar almennrar þjónustu sem bæjarfélagið hefur upp á að bjóða. Auk þess er í boði ýmis sértæk þjónusta í samræmi við lög um málefni fatlaðs fólks sem miðar að því að tryggja einstaklingum jöfn tækifæri og stuðla að sem eðlilegustu lífi. Stuðningur er veittur af virðingu og miðar að því að efla sjálfræði einstaklinga samkvæmt hugmyndafræði um valdeflingu.

Félagsleg ráðgjöf

Ráðgjöf um almenna og sérhæfða félagsþjónustu samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og laga um málefni fatlaðs fólks. Veitt er ráðgjöf um félagsleg réttindi og vegna félagslegs og persónulegs vanda s.s vegna uppeldis- og samskiptavanda, skilnaðarmála, fjármála, húsnæðismála, þjónustu vegna búsetu, atvinnu og hæfingu og þjónustu vegna fatlaðra barna.

Búsetustuðningur

Búsetustuðningur er sérstakur stuðningur sem miðar að því að fatlað fólk geti búið þannig að sem best henti hverjum og einum. Tekið er tillit til óska, aðstæðna og þarfa einstaklings fyrir búsetu og þeirri meginreglu fylgt að fólk eigi val um hvernig það býr, enda sé það í samræmi við það sem almennt tíðkast. Stuðningur við búsetu getur falist í félagslegri heimaþjónustu, liðveilsu, frekari liðveislu og sólahringsþjónustu. Búsetustuðningur er einstaklingsmiðaður, heildstæður og sveigjanlegur og veittur með það að markmiði að efla vald fólks yfir aðstæðum sínum og lífi, styrkja sjálfsmynd þess, sjálfstraust, félagslega stöðu, sjálfsvirðingu og lífsgæði. Búseta getur meðal annars verið í eigin húsnæði, almennri leigulíbúð, félagslergir leiguíbúð og á sambýli. Sótt er um búsetuþjónustu og sértækt húsnæðisúrrræði hjá ráðgjafa félagsþjónustu. Teymi fagfólks metur þjónustuþörf og ákvarðar um fyrikomulag þjónustu samkvæmt reglum þar um. Ákvörðun um þjónustu og fyrkomulag hennar er sett í þjónustusamning.

Búseta með sólahringsþjónustu er í búsetukjarnanum við Lindargötu 2 á Siglufirði.  Forstöðuþroskaþjálfi er Bryndís Hafþórsdóttir. Sími 467-1217,  netfang sambylid580@simnet.is

Umsókn um þjónustu á heimili og sértækt húsnæðisúrræði

Reglur byggðasamlags um málefni fatlaðra á Norðurlandi vestra við afgreiðslu umsókna um þjónustu á heimilum fatlaðs fólks og sértækt húsnæðisúrræði vegna sértækra eða mikilla þjónustuþarfa

Félagsleg heimaþjónusta

Félagsleg heimaþjónusta hefur það markmið að aðstoða einstaklinga og fjölskyldur sem geta ekki án utanaðkomandi aðstoðar séð um heimilishald eða persónulega umhirðu. Þjónustan er veitt  tímabundið eða til lengri tíma, allt eftir aðstæðum. Heimaþjónusta fer fram á dagvinnutíma, virka daga. Greitt er fyrir aðstoðina samkvæmt gjaldskrá heimaþjónustu.

Samkvæmt lögum um félagslega þjónustu sveitarfélaga eiga þeir rétt á félagslegri heimaþjónustu sem búa í heimahúsum og geta ekki vegna skertrar getu, fjölskylduaðstæðna, álags, veikinda, barnsburðar eða fötlunar sinnt heimilishaldi eða persónulegri umhirðu hjálparlaust. Í þeim tilvikum sem umsækjandi deilir heimili með fullorðnum einstaklingi, sem á ekki við veikindi að stríða, er að öllu jöfnu ekki veitt heimaþjónusta.

Heimaþjónusta felst meðal annars í aðstoð við þrif og önnur heimilistörf, aðstoð við eigin umsjá, heimsendingu matar, félagslegum stuðnigni, innliti og aðstoð við umönnun barna og unglinga.

  • Aðstoð við þrif eða önnur heimilisstörf  getur meðal annars falið í sér almenn heimilisþrif og þvott. Gert er ráð fyrir að umsækjandi og aðrir heimilismenn taki þátt í heimilisþrifum eftir því sem kostur er. Aðstoð við heimilisþrif takmarkast við þau herbergi sem eru í daglegri notkun s.s. eldhús, baðherbergi, ganga, svefnherbergi, stofu og borðstofu. Þjónusta er veitt aðra hverja viku nema sérstakar aðstæður kalli á annað.  Almennt er ekki veitt aðstoð við stórhreingerningar,  þrif á stigagöngum og sameign, gluggatjaldaþvott og uppsetningu gluggatjalda.

- Aðstoð við eigin umsjá felst meðal annars í aðstoð við klæðnað, lyf, mat og önnur verkefni sem ekki teljast til heimahjúkrunar. Tíðni þjónustu fer eftir þörfum og mati.

  • Heimsending matar í hádegi virka daga er þjónusta ætluð þeim sem ekki geta eldað sjálfir um skemmri eða lengri tíma.

- Félagslegur stuðningur miðar að því að mæta þörfum einstaklinga og/eða fjölskyldna á ýmsa vegu meðal annars með samveru og hvatningu í þeim tilgangi að rjúfa félagslega einangrun. Félagslegur stuðningur getur einnig falið í sér aðstoð við innkaup á nauðsynjavörum. Gert er ráð fyrir að umsækjandi fari með starfsmanni í innkaupaferðir. Geti umsækjandi það ekki er hann hvattur til að nýta sér reikningsviðskipti hjá matvöruverslunum og heimsendingu matvæla og/eða lyfja. Í undantekningartilfellum er heimilt að gera samning um að starfsmaður heimaþjónustu sjái um innkaup á nauðsynjavörum. Þjónustan er að öllu jöfnu veitt vikulega.

  • Innliti er ætlað þeim einstaklingum sem vegna félagslegra og heilsufarslegra aðstæðna þarfnast eftirlits eða öryggis með. Tíðni þjónustunnar fer eftir þörfum.

  • Aðstoð við umönnun barna og unglinga er veitt þegar um er að ræða sérstaklega erfiðar fjölskylduaðstæður, t.d. vegna fötlunar, veikinda eða félagslegra erfiðleika.

Umsókn um heimaþjónustu
Reglur um félagslega heimaþjónustu á vegum félagsmálanefndar Fjallabyggðar

Frekari liðveisla

Frekari liðveisla felur í sér margháttaða aðstoð við ýmsar athafnir daglegs lífs. Frekari liðveisla er viðbót við félagslega heimaþjónustu og miðar að því að gera einstaklingi kleift að búa eins og honum hentar best. Þjónustan er einstaklingsmiðuð, heildstæð og sveigjanleg og er veitt meðal annars með það að markmiði að efla vald fólks yfir aðstæðum sínum og lífi og styrkja sjálfsmynd þess og félagslega stöðu. Sótt er um þjónustuna hjá ráðgjafa félagsþjónustu. Teymi fagfólks metur þjónustuþörf og ákvarðar um fyirkomulag þjónustu samkvæmt reglum þar um. Ákvörðun um þjónustu og fyrkomulag hennar er sett í þjónustusamning.

Umsókn um þjónustu á heimili og sértækt húsnæðisúrræði

Reglur byggðasamlags um málefni fatlaðra á Norðurlandi vestra við afgreiðslu umsókna um þjónustu á heimilum fatlaðs fólks og sértæk húsnæðisúrræði vegna sértækra eða mikilla þjónustuþarfa

Liðveisla

Liðveisla er persónulegur stuðningur sem miðar að því að rjúfa félagslega einangrun, til dæmis með aðstoð við að njóta tómstunda, menningar og lista. Liðveisla er veitt fötluðu fólki 18 ára og eldra sem býr í foreldrahúsum, sjálfstæðri búsetu og sjólarhringsbúsetu. Starfsmenn félagsþjónustu leggja mat á þjónustuþörf og ákvarða um þjónustu innan ramma gildandi reglna, sem félagsmálanefnd hefur staðfest. Ákvarðanir um þjónustu og fyrirkomulag eru settar í þjónustusamning sem er undirritaður af þjónustuþega og liðveitanda.

Umsókn um liðveislu

Reglur um félagslega liðveislu á vegum félagsmálanefndar Fjallabyggðar

Dagþjónusta

Dagþjónusta er félagsleg hæfing og endurhæfing sem stuðlar að því að draga úr áhrifum fötlunar og auka hæfni fatlaðs fólks til starfa og þátttöku í daglegu lífi. Þjónustan er ætluð þeim sem vegna skertrar vinnugetu þurfa sérstaka aðstoð við þáttöku á vinnumarkaði eða sérúrræði dagþjónustu vegna fötlunar sinnar.  Dagþjónusta fyrir fatlað fólk 18 ára og eldra er starfrækt í Iðju alla virka daga. Þar gefst fólki meðal annars tækifæri til að sinna tómstundaiðju, vinna ýmis verkefni, fara í gönguferðir og sund, spjalla, fá keyptan hádegismat og fá aðstoð vegna atvinnu á almennum vinnumarkaði.  Þjónustan er veitt á grundvelli einstaklingsbundins mats og þjónustuáætlunar sem tekur mið af getu og þörfum hvers og eins og þeim möguleikum sem til staðar eru. Sótt er um þjónustuna hjá ráðgjafa félagsþjónustu. Teymi fagfólks metur þjónustuþörf og ákvarðar um fyirkomulag þjónustu samkvæmt reglum þar um. Ákvörðun um þjónustu og fyrkomulag hennar er sett í þjónustusamning.

Umsókn um dagþjónustu og aðstoð vegna atvinnu

Reglur byggðasamlegs um málefni fatlaðra á Norðurlandi vestra um dagþjónustu og aðstoð vegna atvinnu fyrir fatlað fólk.

Atvinna með stuðningi (AMS)

Atvinna með stuðningi (AMS) er þjónusta við fatlað fólk 18 ára og eldra sem miðar að því að veita einstaklingum aðstoð við þátttöku á almennum vinnumarkaði þegar þess gerist þörf. Stuðningur fellst í sérstakri liðveislu á vinnustað, svo og fræðslu og leiðbeiningum til annars starfsfólks. Lögð er áhersla á samvinnu við Vinnumálastofnun, Virk starfsendurhæfingarsjóð og Iðju eftir því sem við á. Sótt er um þjónustuna hjá ráðgjafa félagsþjónustu. Teymi fagfólks metur þjónustuþörf og ákvarðar um fyrirkomulag þjónustu samkvæmt reglum þar um. Ákvörðun um þjónustu og fyrkomulag hennar er sett í þjónustusamning. Samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks annast Vinnumálastofnun framkvæmd vinnumarkaðsaðgerða fyrir fatlað fólk. Ráðgjafi félagsþjónustu hefur umsjón með gerð vinnusamninga við Tryggingastofnun ríkisins. 

Umsókn um dagþjónustu og aðstoð vegna atvinnu

Reglur byggðasamlegs um málefni fatlaðra á Norðurlandi vestra um dagþjónustu og aðstoð vegna atvinnu fyrir fatlað fólk.

Styrkur til náms-, verkfæra- og tækjakaupa

Styrkur til  náms og verkfæra- og tækjakaupa samkvæmt 27. gr. laga um málefni fatlaðs fólks er aðstoð sem heimilt er að veita fötluðu fólki 16 ára og eldra til þess að sækja sér menntun, viðhalda og auka við þekkingu sína og færni og nýta mögleika til aukinnar þátttöku í félagslífi og atvinnu. Styrkir eru veittir annars vegar vegna námsgagna og námskeiðs- og skólagjalda  sem ekki eru greidd samkvæmt ákvæðum annarra laga og hins vegar til verkfæra- og tækjakaupa sem auðvelda einstaklingum að skapa sér atvinnu  með heimavinnu eða sjálfstæðri starfsemi að endurhæfingu lokinni. Vakin er athygli á rétti til umsóknar með auglýsingu a.m.k. einu sinni á ári. Sótt er um styrk vegna 27. greinar hjá ráðgjafa félagsþjónustu. Umsóknir eru afgeiddar af þjónustuhópi.

Reglur byggðasamlags um málefni fatlaðra á Norðurlandi vestra um styrki til náms og verkfæra- og tækjakaupa

Notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA)

Notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA) er þjónustuform sem ætlað er að uppfylla þarfir fatlaðs fólks fyrir aðstoð heima og úti í samfélaginu. Þjónustan er skipulögð á forsendum notandans og undir verkstjórn hans. Þjónustunotandi eða aðili í hans umboði fær mánaðarlegar greiðslur til ráðstöfunar vegna þjónustu sem hann þarfnast  til þess að ráða til sín starfsmenn, persónulega eða í gegnum samvinnufélag  og / eða til þess að kaupa þjónustu frá samtökum eða einkafyrirtækjum. Fjármagnið grundvallast á heildstæðu mati á stuðningsþörf og fjárhagsáætlun sveitarfélags. NPA er tímabundið tilraunaverkefni ætlað fötluðu fólki sem býr á einkaheimilum en ekki í sértæku húsnæðisúrræði. Verkefninu lýkur í árslok 2016.

Reglur byggðasamlags um málefni fólks á Norðurlandi vestra um notendastýrða persónulega aðstoð fyrir fatlað fólk

Reglugerð um þjónustu við fatlað fólk á heimili sínu nr. 1054/2012

Réttindagæslumaður fatlaðs fólks á Norðurlandi fylgist með högum fatlaðs fólks og er því innan handar við réttindagæslu hvers konar, hvort sem það er vegna meðferðar einkafjármuna þess, þjónustu sem það á rétt á, varðandi önnur persónuleg réttindi eða einkamál. Öllum er skylt að tilkynna til réttindagæslumanns ef þeir hafa ástæðu til að ætla að brotið sé á rétti fatlaðs einstaklings. Fatlaður einstaklingur, sem telur að réttur hans sé fyrir borð borinn, getur tilkynnt það réttindagæslumanni. Komist réttindagæslumaður að þeirri niðurstöðu að réttur fatlaðs einstaklings hafi verið fyrir borð borinn aðstoðar hann viðkomandi við að leita réttar síns miðað við atvik máls hverju sinni og óskir. Réttargæslumaður á Norðurlandi er Guðrún Pálmadóttir. Tímapantanir eru í síma 858 1959.