Um Ólafsfjörð

Árið 2006 varð Ólafsfjörður hluti af sameiginlegu sveitarfélagi með Siglufirði sem heitir Fjallabyggð. Í Ólafsfirði eru Skrifstofur Fjallabyggðar að Ólafsvegi 4.

Ólafsfjörður frá landnámi til 1833

Í Landnámu er getið um tvo landnámsmenn Ólafsfjarðar. Í kring um árið 900 munu bræður tveir þeir Ólafur bekkur og Héðinn synir Karls úr Bjarkey af Hálogalandi hafa siglt til Íslands og námu þeir sinn hvorn fjörðinn hlið við hlið. Með þeim í för var Úlfur sem nam Úlfsdali vestan Siglufjarðar. Héðinn nam Héðinsfjörð vestan Ólafsfjarðar og Ólafur bekkur nam Ólafsfjörð að vestan og settist að á Kvíabekk. Mun Kvíabekkur síðan hafa verið þungamiðja sveitarinnar og höfuðból um margar aldir. Synir Ólafs voru þeir Steinmóður, Grímólfur og Arnoddur.

Gunnólfur hinn gamli sonur Þorbjarnar þjóta úr Sogni nam Ólafsfjörð að austan upp til Reykjaár og út í Vámúla. Hann bjó á Gunnólfsá að Kleifum, sem er vestan megin fjarðarins.

Lítið er sagt frá köppum þessum, en líklegt má telja að fylgdarmenn þeirra og afkomendur hafi byggt Ólafsfjörð með þeim. Þó er þess getið að Ólafur bekkur og Þormóður rammi sem nam Siglufjörð hafi deilt um Hvanndali og varð þar 16 manna bani áður en þeir sættust á að þeir skyldu hafa sitt sumarið hvor. Ekki er vitað frekar um þeirra hagi, en ekki er ólíklegt að ætla að Ólafur bekkur hafi verið heygður í einhverjum þeirra hóla sem eru í nágrenni Kvíabekkjar, og Gunnólfur gamli líklega sendur logandi á haf út í skipi sínu að honum látnum.

Saga staðarins er mótuð af fjallahringnum sem umvefur hann og návígi við sjóinn. Erfið búsetuskilyrði hafa sett mark sitt á íbúaþróun og flutninga fólks til og frá staðnum. Þó er ljóst að Ólafsfjörður hefur haft upp á margt að bjóða sem síður var annars staðar. Gjöfult vatn af fiski bæði silungi og svo ýmsum sjávarfiskum. Þá er mjög stutt á fengsæl fiskimið. Þetta meðal annars hefur stuðlað að því að hér hefur haldist byggð til okkar tíma. Enda segir svo frá að þegar Lárentíus Kálfsson Hólabiskup stofnsetti árið 1326 prestaspítala eða elliheimili fyrir gamla presta að Kvíabekk í Ólafsfirði réði þar mestu um hve fiskmeti var þar auðfáanlegt og er þar líklega átt bæði við til vatns og sjávar. Bendir það til þess að fiskveiðar hafi skipað stærri sess á Ólafsfirði en annars staðar á Norðurlandi, og líklega verið svo fram eftir öldum. Elstu heimildir um fiskveiðar Ólafsfirðinga eru frá 1187 og einnig má benda á máldaga Kvíabekkjarkirkju frá 15. öld, þar sem fram kemur að kirkjan fær lýsis og fisktoll af bæjum.

Um 1700 er líklegt að skipastóll Ólafsfirðinga hafi verið mikill sbr. að 11 bátar eyðilögðust þar í miklu brimi. Ólafsfjörður hefur því löngum verið mikil þorskveiðistöð þrátt fyrir erfið hafnarskilyrði. Milli 1770-80 voru hlutir hér hærri en víðast við Eyjafjörð og skipastóll stærri en víðast hvar á Norðurlandi fyrr á öldum.

Þegar hákarlatíminn byrjar um miðja 18. öld og skip fara að stækka fer hafnar- og lendingaraðstaða að skerða möguleika Ólafsfirðinga á við aðra staði svo sem Siglufjörð þar sem lífhöfn er frá náttúrunnar hendi. Þá réru Ólafsfirðingar gjarnan á stærri skipum sínum (hákarlaskipum) frá Siglufirði, en þeim minni (þorskveiðibátum) frá Ólafsfirði.

Ólafsfirðingar virðast hafa skorið sig svolítið úr hvað sjósókn snerti hér áður fyrr því þeir réru þótt sláttur stæði sem hæst, meðan aðrir drógu úr á þeim tíma. Þetta er til marks um það hve fiskur var snar þáttur í lífsbjörginni hér á Ólafsfirði og hefur sjálfsagt verið alla tíð frá landnámi. Það voru bændur sem áttu bátana og réru á sjó til búdrýginda og var svo allt fram undir síðustu aldamót er draga fór til þorpsmyndunar í Ólafsfjarðarhorni. 

Saga Ólafsfjarðar - Ólafsfjarðarhorn

Árið 1883 er talið að fyrsta "tómthúsið" hafi verið reist í Ólafsfjarðarhorni, þar sem kaupstaðurinn stendur nú. Það gerði Ólafur Gíslason sem reisti sér torfbæ og settist þar að ásamt konu sinni, Guðrúnu Jónsdóttur og tveim börnum. Bæinn nefndi hann Sandhól. Sandhóll var fyrsta "húsið" sem byggt var til íbúðar allt árið um kring í Horninu og má því segja að hjónin hafi verið fyrstu borgara Ólafsfjarðar.

Íbúum Hornsins fjölgaði svo hægt og sígandi með aukinni útgerð og verslun. Árið 1905 var þorpið orðið hið myndarlegasta og 20 október 1905 má segja að bernskuárum byggðarinnar í Ólafsfjarðarhorni hafi lokið með því að staðurinn varð löggiltur verslunarstaður.

Ólafsfirðingar komast í símasamband við umheiminn 12. október 1908.

Sparisjóður Ólafsfjarðar var stofnaður árið 1914.

Ólafsfjarðarkirkja var byggð og vígð árið 1915, og tók þá við af Kvíabekkjarkirkju fyrir íbúa "Hornsins".

Árið 1917 var nafni hreppsins breytt úr Þóroddsstaðahreppi í Ólafsfjarðarhrepp og hét svo þar til bærinn varð kaupstaður árið 1945.

Varanleg steinbryggja var fyrst reist árið 1922, en hafnargerð hófst árið 1943 með sérstökum hafnarlögum frá Alþingi fyrir Ólafsfjörð.

Ólafsfirðingar fá lækni árið 1928 , en Ólafsfjörður verður sérstakt læknishérað 23. júní 1932. Tekið var í notkun sjúkraskýli 1934 og var það rekið til 1943.

Árið 1936 var skólpveita lögð um allan bæinn.

Fyrsti skipulagsuppdráttur fyrir Ólafsfjörð var staðfestur 20. mars 1937.

Garðsárvirkjun var tekin í notkun 19. desember 1942. Ólafsfirðingar höfðu fengið rafmagn til ljósa frá árinu 1913 frá lítilli bátavél og síðustu tvö árin frá vélum frystihússins.

Rafveita Ólafsfjarðar tók þá til starfa, en var seld Rafmagnsveitum ríkisins árið 1957 eftir að Skeiðsfossvirkjun var tengd til Ólafsfjarðar.

 

Erfið lendingaraðstaða áður fyrr og hafnarskilyrði hafa haft mikil áhrif á útgerð og búsetuþróun á Ólafsfirði. Það er því ekki nema eðlilegt að höfnin hafi orðið slíkur örlagavaldur staðarins sem raun varð enda sífellt baráttumál og lífæð hans. Árið 1944 þegar hefja átti framkvæmdir við höfnina neitaði Sýslunefnd Eyjafjarðar að ábyrgjast lán til hafnargerðarinnar, þrátt fyrir að hún hafði áður samþykkt ábyrgð til annarra sveitarfélaga. Það varð til þess að Ólafsfirðingar óskuðu eftir sjálfstæði frá Eyjafirði. Þá voru íbúar aðeins 909 svo sérstök lög þurfti til þess að svo mætti verða, og í október 1944 voru samþykkt lög þess efnis að Ólafsfjörður fengi kaupstaðarréttindi 1. janúar 1945.

Fyrsti bæjarstjóri Ólafsfjarðar var Þórður Jónsson, sem var bæjarstjóri í 1 ár, síðan tók við Ásgrímur Hartmannsson sem var bæjarstjóri samfleytt í 29 ár. Næstir komu Pétur Már Jónsson, Jón E. Friðriksson, Valtýr Sigurbjarnarson, Bjarni Kr. Grímsson, Hálfdán Kristjánsson og Ásgeir Logi Ásgeirsson. Stefanía Traustadóttir var síðasti bæjarstjóri Ólafsfjarðarbæjar áður en bærinn sameinaðist Siglufirði í Fjallabyggð árið 2006. Fyrsti bæjarstjóri Fjallabyggðar var Þórir Kristinn Þórisson.  Núverandi bæjarstjóri  er Sigríður Ingavarsdóttir. 

Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá þessum tíma og margvíslegar hindranir yfirstignar og erfiðleikar lagðir að baki. Ólafsfjörður hefur vaxið á þessum rúmlega fimmtíu árum úr bernsku sjávarþorpsins í blómlegan fallegan bæ þar sem gott er að búa. Það sem skapað hefur þennan bæ og að hann hefur staðist baráttuna við óblíða veðráttu og erfiðleika fyrri ára er án efa sá óbilandi kjarkur og dugnaður sem einkennt hefur Ólafsfirðinga gegn um árin. Framtakssemi athafnamanna og Ólafsfirðinga allra, ásamt baráttu bæjaryfirvalda fyrir bættum hag staðarins með þeim gæðum sem hér eru til staðar hafa ráðið úrslitum um framtíð bæjarins. Ekki er ólíklegt, þótt ekki sé það staðfest með rannsóknum, að í æðum Ólafsfirðinga renni enn baráttublóð landnámsmannanna þeirra Ólafs bekks og Gunnólfs gamla.

Nú búa Ólafsfirðingar í blómlegum bæ þar sem hægt er að fá flesta þá þjónustu sem nauðsynleg getur talist. Ýmis opinber þjónusta er í boði, svo sem leikskóli, grunnskóli, tónskóli, bókasafn, heilsugæslustöð og dvalarheimili aldraðra. Í Ólafsfirði er einnig náttúrugripasafn, hótel, líkamsræktarstöð, sundlaug, matvöruverslun, veitingastaðir og bensínstö.

Í Ólafsfirði eru fjölmargir möguleikar til útivistar. Fjölmargar gönguleiðir eru í boði og svo er bíður Ólafsfjarðarvatn upp á mikla möguleika.  Á veturna eru miklir möguleikar til skíðaiðkana hvort sem um er að ræða svig eða skíðagöngu. Svo má nefna að þeir sem eru fyrir brimbretti geta fengið útrás fyrir sína iðkun í Ólafsfirði.

Í seinni tíð eru samgöngur einnig orðnar það góðar að ekki er tiltökumál að skjótast bæjarleið ef þörf er á eða til skemmtunar og upplyftingar þegar þess gerist þörf.