Síldarminjasafnið



Siglfirðingar tala oft um tvö landnám Norðmanna, hið fyrra þegar Þormóður rammi nam Siglufjörð um 900, og hið síðara árið 1903. Þá hófust hinar miklu norsku síldveiðar, sem leiddu til þess að á Siglufirði byggðist frægasti síldarbær í heimi.

Á 40 árum varð lítið og fámennt þorp að fimmta stærsta bæ landsins með yfir 3000 íbúa. Allt snerist í kringum síldina. Hún var söltuð á 23 söltunarstöðvum og brædd í 4 verksmiðjum.
Lengst af var Siglufjörður einhver mikilvægasta höfn landsins og nokkrum sinnum fór síldarútflutningur frá Siglufirði yfir 20% af öllum útflutningi landsmanna. Í þessum "Klondyke Atlantshafsins" ríkti hin sanna gullgrafara- stemning síldarævintýrisins. Síldarspekúlantar komu og fóru, ýmist vellauðugir eða blásnauðir og verkafólk í tugþúsundatali sótti þangað atvinnu í gegnum tíðina. Í brælum lágu þar hundruð síldarskipa af mörgu þjóðerni. Fólksmergðin í bænum var stundum eins og á strætum stórborga og óvíða var mannlífið litríkara eða fjörugra.

Síldarminjasafnið er stærsta sjóminja- og iðnaðarsafn landsins. Í þremur ólíkum húsum kynnumst við síldveiðum og vinnslu á silfri hafsins.
Í Bátahúsinu liggja skip og bátar við bryggjur þar sem hafnarstemningin frá því um 1950 er endursköpuð.

Róaldsbrakki er gamla norska söltunarstöðin og þar er flest eins og áður, vistarverur síldarstúlknanna, kontórinn og vinnuplássið. Á góðum sumardögum er þar sýnd síldarsöltun, harmonikkan þanin og slegið er upp bryggjuballi. Í Bátahúsinu og bræðsluminjahúsinu Gránu fara tíðum fram tónleikar og listsýningar.
Í Gránu er safn um sögu bræðsluiðnaðarins sem löngum hefur verið kallaður fyrsta stóriðja Íslendinga. Þar hefur verið komið upp lítilli síldarverksmiðju frá 1935-40.
Síldarminjasafnið hlaut Íslensku safnverðlaunin árið 2000 er þau voru veitt í fyrsta sinn og Evrópuverðlaun safna árið 2004, Michletti verðlaunin.

Heimasíða Sildarminjasafnsins