Félagsmáladeild

Eftirtalin málefni heyra undir fjölskyldudeild:

Mál sem tengjast félagsmáladeild hefur félagsmálanefnd með að gera samkvæmt erindisbréfum þar um.

Mín Fjallabyggð er íbúagátt þar sem bæjarbúar geta með rafrænum hætti sent inn formleg erindi, fylgst með framgangi sinna mála, komið ábendingum á framfæri og ýmislegt fleira.  

Félagsþjónusta Fjallabyggðar hefur það að markmiði að "tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar". (Lög um félagsþjónustu sveitarfélaga, 1991 nr. 40). Við framkvæmd þjónustunnar er það haft að leiðarljósi að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrums Styrkja hann til sjálfshjálpar og virða sjálfsákvörðunarrétt hans.

Félagsmálanefnd fer með málefni félagsþjónustu í umboði bæjarstjórnar.

Gjaldskrá félagsþjónustu

Tengiliðir

Hjörtur Hjartarson

Deildarstjóri félagsmáladeildar

Helga Helgadóttir

Ráðgjafi félagsþjónustu

Félagsleg ráðgjöf

Markmið félagslegrar ráðgjafar er að vinna að lausn félagslegra og persónulegra erfiðleika og veita upplýsingar og leiðbeiningar um félagsleg réttindi. Ráðgjöf er veitt vegna fjármála, húsnæðismála, uppeldismála, skilnaðarmála, forsjár- og umgengismála, ættleiðingarmála, veikinda, atvinnuleysis, samskiptaerfiðleika í fjölskyldum, áfengis -og vímuefnavanda o.fl. Nánari upplýsingar veitir Helga Helgadóttir ráðgjafi félagsþjónustunnar.

Fjárhagsaðstoð

Fjárhagsaðstoð félagsþjónustu Fjallabyggðar fer eftir 21. gr. Laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1997 og Reglum Fjallabyggðar um fjárhagsaðstoð sem samþykktar voru í bæjarstjórn 14. desember 2000.
Í 19. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga segir m.a. að hverjum manni sé skylt "að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára". Til að eiga rétt á fjárhagsaðstoð frá Fjallabyggð þarf umsækjandi að vera fjárráða og eiga lögheimili í sveitarfélaginu. Sjálfstætt starfandi einstaklingar þurfa að hafa lagt inn vsk-númer sitt. Fjárhagsaðstoð er veitt í tengslum við önnur úrræði, t.d. ráðgjöf og leiðbeiningar.
Upphæð fjárhagsaðstoðar tekur mið af tekjum umsækjanda eða hjóna/sambúðarfólks og ákveðinni grunnfjárhæð sem er frá 1 mars. 2014 fyrir einstakling kr. 133.258. og fyrir hjón kr. 213.213. Fjárhæðir eru endurskoðaðar árlega af félagsmálanefnd.

Sótt er um fjárhagsaðstoð hjá starfsmönnum félagsþjónustu. Eftirtalin gögn þurfa að fylgja umsókn:
1. Tekjuseðlar (laun/bætur) fyrir síðustu 2 mánuði.
2. Staðfest afrit af skattframtali og álagningarseðill eða veflykill frá RSK.
3. Skráning frá Svæðisvinnumiðlun Norðurlands eystra eða læknisvottorð um óvinnufærni.
4. Önnur gögn eða gjöld sem við geta átt, s.s. yfirlit yfir greiðsluþjónustu.
5. Dvalarleyfisskírteini frá Útlendingastofnun hafi umsækjandi erlent ríkisfang.
Allir fjárhagsstyrkir eru skattskyldir og af þeim er dregin staðgreiðsla skatta. Áríðandi er að skila inn skattkorti áður en til greiðslu kemur.
Eftir að öll gögn hafa borist eru umsóknir lagðar fyrir teymisfund starfsmanna og í vissum tilfellum fyrir félagsmálanefnd. Áfrýja má niðurstöðu félagsmálanefndar til Úrskurðarnefndar félagsþjónustu- og húsnæðismála í velferðarráðuneytinu.

Umsókn um fjárhagsaðstoð er að finna á "Mín Fjallabyggð" 

Félagsleg heimaþjónusta

Félagsleg heimaþjónusta hefur það markmið að aðstoða einstaklinga og fjölskyldur sem geta ekki án utanaðkomandi aðstoðar verið, séð um heimilishald eða persónulega umhirðu. Þjónustan er veitt tímabundið eða til lengri tíma, allt eftir aðstæðum. Heimaþjónusta fer fram á dagvinnutíma, virka daga. Greitt er fyrir aðstoðina samkvæmt gjaldskrá heimaþjónustu.

Samkvæmt lögum um málefni aldraðra og lögum um félagslega þjónustu sveitarfélaga eiga þeir rétt á félagslegri heimaþjónustu sem búa í heimahúsum og geta ekki vegna skertrar getu, fjölskylduaðstæðna, álags, veikinda, barnsburðar eða fötlunar sinnt heimilishaldi eða persónulegri umhirðu hjálparlaust. Í þeim tilvikum sem umsækjandi deilir heimili með fullorðnum einstaklingi, sem á ekki við veikindi að stríða, er að öllu jöfnu ekki veitt heimaþjónusta.

Sækja þarf skriflega um félagslega heimaþjónustu. Hægt er að nálgast umsóknareyðublað á skrifstofum Fjallabyggðar. Eftirtalin gögn þurfa að fylgja umsókn:
1. Staðfest ljósrit af síðasta skattframtali viðkomandi.
2. Ljósrit af launaseðlum umsækjanda og maka síðastliðna þrjá mánuði.
3. Ljósrit af greiðsluseðlum almannatrygginga og lífeyrissjóða, sé um þá að ræða
4. Læknisvottorð ef við á
Eftir að umsókn hefur borist hefur starfsmaður félagsþjónustu samband og ákveður heimsókn til að meta þörf fyrir þjónustu í samráði við umsækjanda. Þegar mat liggur fyrir er gengið frá þjónustusamningi þar sem nánar er tiltekið hvaða verkefni starfsmaður skuli inna af hendi. Heimaþjónusta felst meðal annars í aðstoð við þrif og önnur heimilisstörf, aðstoð við eigin umsjá, heimsendingu matar, félagslegan stuðning, innliti og aðstoð við umönnun barna og unglinga.
- Aðstoð við þrif eða önnur heimilisstörf getur meðal annars falið í sér almenn heimilisþrif og þvott. Gert er ráð fyrir að umsækjandi og aðrir heimilismenn taki þátt í heimilisþrifum eftir því sem kostur er. Aðstoð við heimilisþrif takmarkast við þau herbergi sem eru í daglegri notkun s.s. eldhús, baðherbergi, ganga, svefnherbergi, stofu og borðstofu. Þjónusta er veitt aðra hverja viku nema sérstakar aðstæður kalli á annað. Almennt er ekki veitt aðstoð við stórhreingerningar, þrif á stigagöngum og sameign, gluggatjaldaþvott, uppsetningu gluggatjalda og við að strauja þvott.
- Aðstoð við eigin umsjá felst meðal annars í aðstoð við klæðnað, mat og lyf og önnur verkefni sem ekki teljast til heimahjúkrunar. Tíðni þjónustu fer eftir þörfum og mati.
- Heimsending matar í hádegi virka daga er þjónusta ætluð þeim sem ekki geta eldað sjálfir um skemmri eða lengri tíma.
- Félagslegur stuðningur miðar að því að mæta þörfum einstaklinga og/eða fjölskyldna á ýmsa vegu meðal annars með samveru og hvatningu í þeim tilgangi að rjúfa félagslega einangrun. Félagslegur stuðningur getur einnig falið í sér aðstoð við innkaup á nauðsynjavörum. Gert er ráð fyrir að umsækjandi fari með starfsmanni í innkaupaferðir. Geti umsækjandi það ekki er hann hvattur til að nýta sér reikningsviðskipti hjá matvöruverslunum og heimsendingu matvæla og/eða lyfja. Í undantekningartilfellum er heimilt að gera samning um að starfsmaður heimaþjónustu sjái um innkaup á nauðsynjavörum. Þjónustan er að öllu jöfnu veitt vikulega.
- Innliti er ætlað þeim einstaklingum sem vegna félagslegra og heilsufarslegra aðstæðna þarfnast eftirlits eða öryggis með. Tíðni þjónustunnar fer eftir þörfum.
- Aðstoð við umönnun barna og unglinga er veitt þegar um er að ræða sérstaklega erfiðar fjölskylduaðstæður, t.d. vegna fötlunar, veikinda eða félagslegra erfiðleika.

Umsókn um heimaþjónustu

Félagslegt leiguhúsnæði

Félagslegt leiguhúsnæði er ætlað þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna. Veita þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru færir um það sjálfir, úrlausn í húsnæðismálum til að leysa úr bráðum vanda á meðan unnið er að varanlegri lausn. Í Fjallabyggð eru félagslegar leiguíbúðir til staðar bæði á Siglufirði og í Ólafsfirði. Einnig eru í boði leiguíbúðir fyrir aldraða og öryrkja í Skálarhlíð á Siglufirði og á Ólafsfirði hafa aldraðir og öryrkjar forgang við úthlutun leiguíbúða að Ólafsvegi 32, samkvæmt samþykkt bæjarstjórnar.

Íbúðir eru auglýstar til leigu á vef sveitarfélagsins www.fjallabyggd.is Umsóknum, ásamt fylgigögnum er skilað á skrifstofu Fjallabyggðar. Að loknum umsóknarfresti úthlutar Starfshópur um úthlutun leiguíbúða í Fjallabyggð íbúðum samkvæmt sérstöku mati.

Gjaldskrá vegna húsaleigu er tekin til skoðunar og ákvörðuð af bæjarstjórn ár hvert.

Eftirtalin gögn þurfa að fylgja umsókn:
1. Staðfest afrit af þremur síðustu skattframtölum umsækjanda og maka/sambúðaraðila.
2. Ljósrit af launaseðlum umsækjanda fyrir síðustu sex mánuði eða reiknuðu endurgjaldi.
3. Íbúavottorð frá Þjóðskrá Íslands.
4. Læknisvottorð ef við á.
5. Núverandi leigusamningur og umsögn fyrrverandi/núverandi leigusala um greiðslur húsaleigu og umgengni.

Umsókn um leiguíbúð 

Húsaleigubætur

Markmið með greiðslu húsaleigubóta er að lækka húsnæðiskostnað tekjulágra leigjenda íbúðarhúsnæðis. Bæjarfélagið sér um greiðslu húsaleigubóta og annast afgreiðslu umsókna. Sótt er um bætur fyrir hvert almanaksár og endurnýja þarf umsókn fyrir 16. janúar ár hvert til þess að greiðslur falli ekki niður. Við útreikning húsaleigubóta er tekið mið af fjárhæð húsaleigu, heimilis tekjum, eignum að frádregnum skuldum og framfærslu barna.

Þeir sem leigja húsnæði til íbúðar eiga rétt á húsaleigubótum að því tilskyldu að þeir eigi lögheimili í hinu leigða. Erlendir ríkisborgarar sem eiga lögheimili á Íslandi eiga sama rétt á húsaleigubótum og Íslendingar. Undanþegnir ofangreindu eru fatlaðir einstaklingar á sambýlum og námsmenn á framhalds- og háskólastigi sem leigja herbergi á heimavist eða á stúdentagörðum. Ekki eru greiddar húsaleigubætur vegna leigu á einstaklingsherbergjum ef eldhús eða snyrting er sameiginleg fleirum.

Sótt er um húsaleigubætur gegnum Mín Fjallabyggð.

Eftirtalin gögn þurfa að fylgja með umsókn um húsaleigubætur:
1. Þinglýstur húsaleigusamningur til a.m.k. sex mánaða.
2. Ljósrit af skattframtölum þeirra sem lögheimili/aðsetur eiga í íbúðinni, staðfest af skattstjóra. Hafi framtölunum verið skilað rafrænt er hægt að senda þau í tölvupósti á asta@fjallabyggd.is eða biddy@fjallabyggd.is.
3. Ljósrit af launaseðlum (greiðsluseðlum) þeirra er í íbúðinni búa, fyrir síðustu 3 mánuði.
4. Og/eða staðfesting á reiknuðu endurgjaldi fyrir sama tímabil.
5. Vottorð frá Hagstofu Íslands eða sveitarfélagi um hverjir búa í íbúðinni.
6. Staðfesting skóla um nám umsækjanda og/eða börn umsækjanda 20 ára og eldri.
Umsókn er ekki afgreidd fyrr en öll fylgigögn hafa borist. 

Aðstoð við áfengissýki og vímuvarnir

Félagsþjónusta Fjallabyggðar starfar að forvörnum í áfengis- og vímugjafamálum í nánu samstarfi við aðrar deildir og stofnanir Fjallabyggðar, sem og lögreglu, heilbrigðisþjónustu og aðra aðila sem starfa á sviði vímuvarna. Félagsþjónustan stuðlar eftir föngum að því að áfengissjúkir og þeir sem misnota áfengi eða aðra vímugjafa fái viðeigandi meðferð og aðstoð og veitir aðstandendum og fjölskyldum áfengissjúkra ráðgjöf og aðstoð eftir því sem við á. Enn fremur er leitast við að tryggja að áfengissjúkir og misnotendur vímugjafa, sem fengið hafa meðferð og læknishjálp, fái nauðsynlegan stuðning og aðstoð til að lifa eðlilegu lífi að meðferð lokinni.

Barnavernd

Markmið barnaverndar er að tryggja börnum og ungmennum viðunandi uppeldisskilyrði. Við vinnslu barnaverndarmála eru hagsmunir barns ávalt hafðir í fyrirrúmi og leitast við að ná samstarfi við forsjáraðila og veita þann stuðning sem barn og fjölskylda þess þarfnast. Stuðningsúrræði barnaverndar eru meðal annars viðtöl og ráðgjöf, persónulegur ráðgjafi, tilsjónarmaður og stuðningsfjölskylda auk annarra úrræða sem sótt er um hjá Barnaverndarstofu. Með börnum er átt við einstaklinga yngri en 18 ára.

- Tilsjónarmaður aðstoðar foreldra við að sinna forsjár- og uppeldisskyldu sinni sem best.

- Persónulegur ráðgjafi veitir barni ráðgjöf og leiðbeiningar í þeim tilgangi að styrkja það félagslega og tilfinningalega, svo sem í sambandi við vinnu, menntun og tómstundir.

- Stuðningsfjölskylda tekur á móti barni, eða barni og foreldri, til vistunar í nokkra daga í mánuði í því skyni m.a. að létta álagi af barni eða fjölskyldu þess og leiðbeina foreldrum og styðja þá í forsjárhlutverkinu.

Samkvæmt barnaverndarlögum ber hverjum þeim sem hefur ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu að tilkynna það barnaverndarnefnd. Sá er tilkynnir getur jafnan óskað nafnleyndar gagnvart öðrum en barnaverndarnefnd. Starfsmenn félagsþjónustu taka við barnaverndartilkynningum í síma 464-9100 en einnig er hægt að tilkynna barnaverndarmál til neyðarlínunnar í númerið 112

Barnaverndarlög nr. 80/2002

Málefni aldraðra

Félagsþjónusta skal stuðla að því að aldraðir geti búið við eðlilegt heimilislíf í umgengni við aðra svo lengi sem verða má meðal annars með heimaþjónustu, félagsráðgjöf og  heimsendingu matar. Jafnframt skal  öldruðum tryggður aðgang að félags- og tómstundastarf við hæfi. Aldraðir eiga rétt á allri almennri þjónustu sveitarfélags að öðru leyti fer um málefni þeirra samkvæmt lögum um málefni aldraða. 

Málefni fatlaðra

Félagsþjónusta skal stuðla að því að fötluðum einstaklingum séu tryggð jafnrétti og sambærileg lífskjör á við aðra þjóðfélagsþegna ásamt því að skapa skilyrði til þess að fatlaðir geti lifað sem eðlilegustu lífi. Fatlað fólk á rétt á almennri þjónustu ríkis og sveitarfélags eftir því sem unnt er og við á, að öðru leyti er þjónusta við fatlað fólk veitt samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks.  Með fötlun er átt við einstakling sem er andlega eða líkamlega fatlaður og þarfnast sérstakrar þjónustu og stuðnings af þeim sökum. Er hér átt við þroskahömlun, geðfötlun, hreyfihömlun, sjón- og heyrnarskerðingu ásamt fötlun vegna  langvarandi veikinda eða af völdum slyss.