Þjóðlagasetur Sr. Bjarna Þorsteinssonar

Heimasíða Þjóðlagaseturs  Heimasíða Þjóðlagahátíðar 

Þjóðlagasetrið á Siglufirði er staðsett í einu elsta húsi Siglufjarðar. Í því eru  íslensk þjóðlög kynnt á aðgengilegan og skemmtilegan hátt. Þar er boðið upp á myndbönd af fólki á öllum aldri sem syngur, kveður eða leikur á hljóðfæri. Sagt er frá þjóðlagasöfnun sr. Bjarna Þorsteinssonar (1861 – 1938), greint frá heimildarmönnum hans og mörgum þeim sem aðstoðuðu hann við söfnunina víða um land.

Þjóðlagasetrið hefur staðið fyrir söfnun þjóðlaga i góðum mynd- og hljóðgæðum, hjá  fjölmörgum Íslendingum af öllu landinu frá árinu 2005.  Nú er svo komið að búið er að safna mörg hundruð kvæðalögum, barnagælum og þulum, sálmum og „druslum“, hjá síðustu kynslóðinni sem lærði að kveða rímur eða syngja þjóðlög af forfeðrum sínum. Landmark-kvikmyndagerð hefur séð um upptökur en Gunnsteinn Ólafsson stjórnað þeim. Í þjóðlagasetrinu er hægt að skoða þetta efni.

Í þjóðlagasetrinu eru munir úr búi sr. Bjarna Þorsteinssonar og Sigríðar Blöndal konu hans. Þar má einnig sjá sýnishorn af handritum sr.  Bjarna, bæði þjóðlög og eigin tónsmíðar. Þar eru hljóðfæri sýnd og almennur fróðleikur settur fram á lifandi hátt.

Þjóðlagasetrið á Siglufirði var vígt við hátíðlega athöfn af herra Ólafi Ragnari Grímssyni forseta, þann 8. júlí 2006.

Árlega er haldin alþjóðleg tónlistarhátíð á Siglufirði sem hefur það að markmiði að kynna þjóðlagaarf ólíkra þjóða og þjóðarbrota. Á hátíðinni hefur tónlist fjölmargra þjóða verið kynnt auk þess sem íslensk þjóðlög sitja ætíð í öndvegi. Þjóðlagahátíðin stendur frá miðvikudegi til sunnudags fyrstu heilu vikuna í júlí ár hvert. Auk tónleika er boðið upp á námskeið, bæði í tónlist og handverki, gömlu og nýju. Þá er börnum þátttakenda boðið upp á ókeypis námskeið í leiklist og tónlist.

Þjóðlagahátíðin á Siglufirði er ávalt haldinn fyrstu vikuna í júlí ár hvert. Dagskrá hátíðarinnar er aðgengileg hér.

Listrænn stjórnandi Þjóðlagahátíðarinnar á Siglufirði er Gunnsteinn Ólafsson, netfang gol@ismennt.is