Spurningar og svör um sorphirðu

Hver er tilgangurinn með flokkuninni?
Tilgangurinn er að minnka umfang þess sorps sem fer til urðunar og auka endurvinnslu. Það er bæði umhverfisvænna og fjárhagslega hagkvæmt. Kostnaður af urðun hefur hækkað mikið og mun halda áfram að hækka. Það er því æ mikilvægara að halda magni sorps til urðunar í lágmarki. Sorp sem hægt er að endurvinna er verðmæt vara sem hægt er að selja og nota tekjurnar til að lækka þennan kostnað.

Hækka sorphirðugjöldin við þessar breytingar?
Sorphirðugjaldið hækkar árið 2010. Nýtt fyrirkomulag sorphirðu er þó ekki ástæðan. Ástæðan er að sorphirðugjöld hafa ekki staðið undir kostnaði af sorphirðu eins og eðlilegt þykir. Í reynd lækkar kostnaður okkar við breytinguna.

Hvað eru tunnurnar stórar?
Græna og gráa tunnan eru 240 ltr. Málin eru D 72,5sm x B 58sm x H 107,5sm. Brúna tunnan er 140 ltr og mál hennar eru D 55sm xB 48sm x H 106,5sm.

Hver tæmir tunnurnar?
Íslenska gámafélagið mun sjá um að tæma tunnurnar samkvæmt sorphirðudagatali.

Er sorp líka tekið frá fyrirtækjum?
Fyrirtæki sjá sjálf um að farga sorpi og framleiðsluúrgangi og standa straum af kostnaði. Fyrirtæki geta samið við sveitarfélagið um að fá sömu þjónustu og heimili, en þá er gert ráð fyrir að aðeins sé um að ræða sorp frá kaffistofu o.þ.h. sem er svipað að samsetningu og heimilissorp.

Hvert á að hringja ef tunnan er ekki tæmd á réttum tíma?
Ef tunna er ekki tæmd á réttum tíma, eða ef íbúar vilja kvarta undan þjónustunni eiga þeir að hafa samband við bæjarskrifstofu Fjallabyggðar í síma 464 9100

 Hvar mega tunnurnar standa?
 Aðalatriðið er að tunnurnar séu aðgengilegar fyrir þá sem tæma þær þann dag sem þær eru tæmdar. Samkvæmt samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Fjallabyggð eiga tunnurnar að vera innan 15 metra frá götu og standa þannig að ekki þurfi að fara upp eða niður tröppur með þær. Undirlagið á leiðinni sem fara þarf með tunnurnar yfir við tæmingu á að vera þannig að auðvelt sé að keyra tunnurnar um það.
Ef tunnurnar eru geymdar á stað sem ekki uppfyllir þessi skilyrði, er það á ábyrgð íbúa að koma tunnunni á stað sem það gerir á auglýstum sorphirðudegi. Íbúar eiga einnig að moka snjó og vinna gegn hálku á leiðinni sem fara þarf með tunnurnar um.

Þarf tunnan að vera alveg við götuna?
Nei, það er ekki skilyrði (sjá næsta svar á undan).