Ártalið og ljósin á brún Hvanneyrarskálar tendruð í 65. sinn

Ártalið og ljósin á brún Hvanneyrarskálar voru sett upp og tendruð af félögum í Skíðafélagi Siglufjarðar Skíðaborg laugardaginn 15. desember 2007

Í ár er það í 65 sinn sem ljósin á brún Hvanneyrarskálar og ártalið neðan skálarinnar eru tendruð og þykir það mikil eljusemi og dugnaður af félögum í Skíðafélaginu.
Stjórn Skíðafélags Siglufjarðar Skíðaborg þakkar þeim félögum sem að þessari vinnu koma kærlega fyrir þeirra framlag í þágu félagsins.

En aðeins að sögu ljósanna frá Helgu Kristínu Einarsdóttur, formanni Skíðafélags Siglufjarðar Skíðaborgar.

Saga ljósanna á brún Hvanneyrarskálar og ártalsins.
Siglfirðingar eru frægir fyrir ýmislegt og þar með talin er sú uppfinning að lýsa upp fjallið ofan byggðarinnar og hefur sá siður verið tekinn upp á ýmsum stöðum á landinu eftir þeim framtakssömu dugnaðarforkum sem létu sér detta þetta í hug.
Sagan ljósanna í Siglufirði er í stuttu máli þessi. Það var um áramótin 1947-1948 að nokkrir starfsmenn Síldarverksmiðja Ríkisins á Siglufirði ákváðu að útbúa olíukyndla og ganga með þá upp á brún Hvanneyrarskálarinnar og ætlunin var að láta loga á kyndlunum fram yfir áramót, þetta endurtóku þeir síðan fram til áramóta 1953-1954 en þá tóku félagar úr Skíðafélaginu við og hafa haldið þeim sið fram til dagsins í dag og vonandi um ókomna tíð.
Það var síðan árið 1953 að sá heiðurslistamaðurinn og Siglfirðingurinn Ragnar Páll ákvað að útbúa ártal sem myndi skreyta fjallið enn frekar og var það útbúið með olíukyndlum eins og línan á skálarbrúnin og var til að byrja með farið með olíukyndlana upp að Gimbraklettum og ártalið útbúið utan og neðan við svokallaða Gimbrakletta. Þetta sá Ragnar Páll um að yrði gert allt til áramóta 1957-1958 en þá tóku Bjarni Þorgeirsson og Arnar ( Eini ) Herbertsson við því hlutverki og Bjarni Þorgeirsson er enn að en hann útbýr ásamt félögum sínum stafina í ártalinu. Eins og fram hefur komið þá báru menn olíuborna kyndla alla þessa leið frá árunum 1947 en það var síðan árið 1963 sem ákveðið var að útbúa rafmagnsseríu og enn þann dag í dag er notast við það og nú hefur serían lengst aðeins upp á skálarbrúninni og ártalið er komið neðan brúnarinnar.
Þar sem mér þykir saga ljósanna mjög merkileg og eitthvað sem þyrfti að varðveita ákvað ég að fara á stúfana til að fá áreiðanlegar upplýsingar og var mér bent á að tala við Jón Dýrfjörð sem að sjálfsögðu var til í að leggja sitt af mörkum til að koma þessum upplýsingum á framfæri og vill ég þakka honum kærlega fyrir það hann var einn af mörgum þeim dugnaðar forkum sem tóku þátt í þessari skemmtilegu sögu ljósanna.