Bæjarráð Fjallabyggðar

736. fundur 31. mars 2022 kl. 08:00 - 08:45 í fjarfundi
Nefndarmenn
  • Nanna Árnadóttir aðalmaður, I lista
  • Jón Valgeir Baldursson aðalmaður, H lista
  • S. Guðrún Hauksdóttir formaður, D lista
Starfsmenn
  • Guðrún Sif Guðbrandsdóttir deildarstjóri stjórnsýslu- og fjármála
  • Elías Pétursson bæjarstjóri
Fundargerð ritaði: Guðrún Sif Guðbrandsdóttir deildarstjóri stjórnsýslu- og fjármála
Formaður hvað sér hljóðs og óskaði eftir því að nýjum lið yrði bætt á dagskrá, um er að ræða mál 2203083, Skálarhlíð - utanhúsviðhald.

Samþykkt samhljóða að bæta umræddum lið á dagskrá og að hann yrði númer 3, númerun annarra liða breytist til samræmis.

1.Gjaldskrár Vatnsveitu 2022

Málsnúmer 2111018Vakta málsnúmer

Lögð eru fram drög að breyttri gjaldskrá vatnsveitu sem unnin eru í samræmi við bókun bæjarráðs á 734. fundi ráðsins.
Vísað til afgreiðslu bæjarstjórnar
Bæjarráð samþykkir framlögð drög að breyttri gjaldskrá og vísar henni til bæjarstjórnar.

2.Ofanflóðavarnir - Svar Veðurstofu við fyrirspurn Fjallabyggðar

Málsnúmer 2109057Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf Umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytisins dags, 21. mars 2022 ásamt fylgjandi minnisblaði Veðurstofu Íslands (VÍ) er varðar endurskoðun hættumats undir leiðigörðum. Einnig eru lögð fram fyrri samskipti Fjallabyggðar, ráðuneytis og VÍ vegna málsins.

Í minnisblaði VÍ er farið yfir stöðu mála er varða endurskoðun hættumats undir leiðigörðum en ákveðið var að endurmeta snjóflóðahættu neðan varnargarða sem reistir hafa verið hér á landi eftir snjóflóðin á Flateyri í janúar 2020. Í minnisblaðinu kemur fram að vinna þurfi töluverða greiningarvinnu m.a. í svokölluðum snjóflóðahermi til þess að meta þörf á hugsanlegum breytingum á varnarmannvirkjum. Einnig kemur fram í minnisblaðinu að einhverju leyti verði greiningarvinnan unnin samhliða fyrir alla staði en að í fyrstu verði lögð áhersla á Strengsgil og Seljalandshlíð. Að síðust kemur fram í minnisblaðinu að stefnt sé á að niðurstöður fyrir framangreinda staði liggi fyrir í haust.
Samþykkt
Bæjarráð þakkar framlagt minnisblað og upplýsingar sem í því eru, að því sögðu þá ítrekar bæjarráð bókun ráðsins frá 714. fundi þess og leggur áherslu á að greiningarvinnu vegna endurmats á snjóflóðahættu verði hraðað.

3.Skálarhlíð - utanhúsviðhald

Málsnúmer 2203083Vakta málsnúmer

Formaður bæjarráðs leggur til að unnin verði alhliða úttekt á viðhaldsþörf á ytra byrði Skálarhlíðar, úttektin skal innihalda sundurliðað mat á kostnaði við úrbætur og vera lögð fyrir bæjarráð eigi síðar en 14. apríl n.k
Vísað til umsagnar og afgreiðslu bæjarráðs
Bæjarráð samþykkir framlagða tillögu formanns og felur deildarstjóra tæknideildar að vinna úttektina í samræmi við ofangreint.

4.Útilýsing við stofnanir Fjallabyggðar

Málsnúmer 2203018Vakta málsnúmer

Lagt fram minnisblað deildarstjóra dags. 21. mars 2022 er varðar útilýsingu við stofnanir Fjallabyggðar en bæjarráð óskaði eftir minnisblaðinu á 733. fundi ráðsins. Í framlögðu minnisblaði kemur fram að þörf sé úrbóta við nokkrar stofnanir og er áætlaður kostnaður vegna þeirra nemi 4 millj.kr.
Vísað til afgreiðslu bæjarstjórnar
Bæjarráð samþykkir fyrir sitt leiti að ráðist verði í þær úrbætur á lýsingu við stofnanir Fjallabyggðar sem reifaðar eru í framlögðu minnisblaði og vísar málinu til umfjöllunar í bæjarstjórn.

5.Staða framkvæmda - yfirlit 2022

Málsnúmer 2203076Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar yfirlit deildarstjóra tæknideildar yfir stöðu framkvæmda á framkvæmdaáætlun.
Lagt fram til kynningar

6.Sundlaug Ólafsfirði, flísalögn á útisvæði

Málsnúmer 2201057Vakta málsnúmer

Lagt fram minnisblað deildarstjóra tæknideildar dags. 24. mars 2022 er varðar flísalögn á útisvæði íþróttamiðstöðvar Ólafsfjarðar. Í minnisblaðinu, sem unnið er að ósk bæjarráðs, er lagt til að farið verði í lagfæringar á flísalögn samhliða framkvæmdum í búningsklefum íþróttamiðstöðvarinnar. Áætlaður kostnaður við lagfæringar er um 10 millj.kr., framkvæmdin er ekki á fjárhagsáætlun 2022.
Vísað til Bæjarstjórnar
Bæjarráð samþykkir fyrir sitt leiti að ráðist verði í lagfæringar á flísalögn á sundlaugasvæði byggt á framlögðu minnisblaði og vísar málinu til umfjöllunar í bæjarstjórn.

7.Ræsting í ráðhúsi - framlenging á verksamning

Málsnúmer 2203073Vakta málsnúmer

Lagt er fram vinnuskjal deildarstjóra stjórnsýslu- og fjármála dags. 28. mars 2022 hvar lagt er til við bæjarráð að heimildarákvæði um framlengingu verði nýtt og samningurinn þannig framlengdur til 14. maí 2023.
Samþykkt
Bæjarráð samþykkir að nýta heimildarákvæði verksamnings um framlengingu og felur deildarstjóra stjórnsýslu- og fjármála að ljúka málinu.

8.GKS - Ósk um afnot af neðra fótboltasvæði á Hóli

Málsnúmer 2203068Vakta málsnúmer

Lagður er fram tölvupóstur Jóhanns Más Sigurbjörnssonar f.h. Golfklúbbs Siglufjarðar (GKS) dags, 22. mars 2022 er varðar ósk GKS um framhald afnota GKS af svæði suður af Hóli líkt og síðastliðið sumar. Einnig eru lögð fram drög að samkomulagi vegna afnota af umræddu svæði, framlag Fjallabyggðar er sláttur á svæðinu þrisvar sinnum í sumar.
Visað til afgreiðslu starfsmanns
Bæjarráð samþykkir framlögð drög að samningi og felur deildarstjóra fræðslu-, frístunda- og menningarmála að undirrita samkomulagið fyrir hönd sveitarfélagsins.

9.Íslandsdeild Transparency International - Ósk um styrk

Málsnúmer 2203062Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar erindi Íslandsdeildar Transparency International dags. 22. mars 2022 er varðar styrkbeiðni til að fjárhæð 50 til 250 þúsund.
Erindi synjað
Bæjarráð sér sér ekki fært að verða við beiðni samtakanna um styrk.

10.Styrktarsjóður EBÍ - Umsóknir um styrki

Málsnúmer 2203064Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Eignarhaldsfélags Brunabótafélags Íslands (EBÍ), dags. 24. mars 2022 þar sem fram kemur að opnað hefur verið fyrir umsóknir í styrktarsjóð félagsins. Sveitarfélög geta sótt um styrk úr sjóðnum til athugana eða rannsókna á ýmsum þróunarþáttum í atvinnulífi, samgöngum, fræðslu og menningarmálum, samkvæmt úthlutunarreglum. Umsóknarfrestur er til aprílloka.
Vísað til umsagnar og afgreiðslu bæjarráðs
Bæjarráð samþykkir að óska eftir umsögn bæjarstjóra og deildarstjóra sveitarfélagsins varðandi hugsanleg verkefni sem hægt er að sækja um styrk til.

11.Beiðni um afnot af íþróttasal fyrir Northern light bridge festival.

Málsnúmer 2203075Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Karólínu Sigurjónsdóttur f.h. Bridgefélags Siglufjarðar dags. 25. mars 2022 er varðar beiðni um ókeypis afnot af íþróttasal íþróttamiðstöðvarinnar á Siglufirði dagana 2. til 4. september nk. Einnig er lagt fram vinnuskjal deildarstjóra fræðslu-, frístunda- og menningarmála dags 28. mars hvar fram kemur að félaginu hafi áður verið veittur sambærilegur styrkur. Einnig kemur fram að gjald fyrir leigu salarins í 3 sólarhringa nemi 388.500 og að sú fjárhæð, komi til þess að bæjarráð ákveði að styrkja félagið, rúmist innan fjárheimilda yfirstandandi árs.
Samþykkt
Bæjarráð samþykkir að styrkja Bridgefélag Siglufjarðar með afnotum af íþróttasal íþróttamiðstöðvar Siglufjarðar í 3 sólarhringa, styrkfjárhæð er 388.500. Deildarstjóra fræðslu-, frístunda- og menningarmála falið að ljúka málinu.

12.Þormóðsgata - Úrskurður umhverfis- og auðlindamála

Málsnúmer 2109089Vakta málsnúmer

Lagður er fram til kynningar úrskurður Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 25. mars 2022 vegna máls nr. 164/2021 er varðar kæru vegna ákvörðunar bæjarstjórnar Fjallabyggðar frá 13. október 2021 um að synja beiðni um niðurfellingu sorphirðugjalds vegna Þormóðsgötu 34, Fjallabyggð. Í úrskurðinum er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Fjallabyggðar frá 13. október 2021 um að synja beiðni hans um niðurfellingu sorphirðugjalds vegna Þormóðsgötu 34, Fjallabyggð hafnað.
Lagt fram til kynningar

13.Endurskipulagning sýslumannsembætta

Málsnúmer 2203056Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra dags. 21. mars 2022 er varðar fyrirhugaða endurskipulagningu sýslumannsembætta. Í bréfinu er reifuð sjónarmið ráðherra er snúa að fyrrgreindri endurskipulagningu og þær miklu breytingar og tækifæri sem miklar framfarir í stafrænni þjónustu hafa í för með sér. Einnig er í bréfinu skýrt tekið fram að markmið þeirra aðgerða sem boðaðar eru sé ekki að færa núverandi starfsemi undir eitt þak á höfuðborgarsvæðinu, markmiðið sé þvert á móti að efla núverandi starfsemi og styrkja starfstöðvar sem eru að þjónusta almenning um land allt.
Visað til afgreiðslu starfsmanns
Bæjarráð þakkar greinargott bréf ráðherra og fagnar þeim áherslum sem fram koma í bréfinu og varða þau fjölmörgu tækifæri sem felast í stafrænni þróun og miklum framförum í tækni sem auðveldar staðsetningu starfa óháð staðsetningu höfuðstöðva stofnunar eða ráðuneytis. Bæjarráð hvetur ráðherra eindregið til að halda áfram á þeirri braut að nýta þau tækifæri bæði til að bæta þjónustu við almenning og eflingar starfstöðva á landsbyggðinni, og þar með skjóta styrkari stoðum undir blómlega byggð í landinu öllu. Að því sögðu vill bæjarráð koma á framfæri efasemdum um fækkun sýslumannsembætta úr níu í eitt og beina því til ráðherra að skoða hvort ekki væri ráð að hafa að lágmarki eitt embætti í hverjum landsfjórðungi.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að koma bókun bæjarráðs á framfæri við ráðherra.

14.Nefndasvið Alþingis - Mál til umsagnar 2022

Málsnúmer 2201041Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar erindi velferðarnefndar Alþingis dags. 24. mars er varðar umsögn um tillögu til þingsályktunar um mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaráætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030, 418. mál.

Lagt fram til kynningar erindi velferðarnefndar Alþingis dags. 24. mars er varðar umsögn um frumvarp til laga um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur (nikótínvörur), mál 450.
Lagt fram til kynningar

15.Fundargerðir nefnda og stjórna Fjallabyggðar - 2022

Málsnúmer 2201001Vakta málsnúmer

Lögð er fram til kynningar fundargerð 136. fundar félagsmálanefndar Fjallabyggðar.
Lagt fram til kynningar

Fundi slitið - kl. 08:45.