Ofanflóðavarnir - Stóri Boli, fyrirspurn frá íbúum

Málsnúmer 2109057

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Fjallabyggðar - 710. fundur - 23.09.2021

Lögð eru fyrir fundin gögn er varða fyrirspurn frá íbúum við Norðurtún á Siglufirði vegna öryggis ofanflóðavarna. Fyrirspurnin snýr m.a. að öryggi þeirra sem búa undir svonefndum Stóra Bola sem er varnargarður syðst í byggðarkjarnanum og er sett fram í ljósi rýminga sem áttu sér stað síðasta vetur. Bæjarstjóri fór einnig yfir óformleg samskipti sem hann hefur átt við starfsmann ofanflóðanefndar og veðurstofuna vegna málsins, samskipti sem ekki hafa skilað skýrum svörum um öryggi íbúa eða hugsanlegar úrbætur á varnarvirkjum.
Samþykkt
Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að senda formlegt erindi á ofanflóðanefnd og óska svara um stöðu mála er varða breytt hættumat í kjölfar snjóflóða á Flateyri og hugsanlegar úrbætur á varnarvirkjum. Einnig er bæjarstjóra falið að senda erindi til Veðurstofu Íslands og óska upplýsinga um hvort stofnunin hafi uppi áætlanir um aukið eftirlit með snjóalögum á komandi vetri.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 714. fundur - 14.10.2021

Lögð fram svör ofanflóðanefndar dags. 23. september 2021 og svar Veðurstofu Íslands dags. 5. september við erindum Fjallabyggðar dags. 23. september, erindi Fjallabyggðar var sent í framhaldi afgreiðslu bæjarráðs á 710. fundi ráðsins.
Staðfest
Um leið og bæjarráð þakkar svör ofanflóðanefndar og Veðurstofu þá vill ráðið beina því til ofanflóðanefndar að hraðað verði endurskoðun hættumats og af því leiðandi hugsanlegum framkvæmdum. Sveitarfélagið telur ekki ásættanlegt að áætlun Veðurstofu Íslands geri ráð fyrir því að endurskoðað hættumat verði lagt fram 2022 enda má af því draga þá ályktun að ekki verði farið í framkvæmdir fyrr en eftir nokkur ár.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 736. fundur - 31.03.2022

Lagt fram bréf Umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytisins dags, 21. mars 2022 ásamt fylgjandi minnisblaði Veðurstofu Íslands (VÍ) er varðar endurskoðun hættumats undir leiðigörðum. Einnig eru lögð fram fyrri samskipti Fjallabyggðar, ráðuneytis og VÍ vegna málsins.

Í minnisblaði VÍ er farið yfir stöðu mála er varða endurskoðun hættumats undir leiðigörðum en ákveðið var að endurmeta snjóflóðahættu neðan varnargarða sem reistir hafa verið hér á landi eftir snjóflóðin á Flateyri í janúar 2020. Í minnisblaðinu kemur fram að vinna þurfi töluverða greiningarvinnu m.a. í svokölluðum snjóflóðahermi til þess að meta þörf á hugsanlegum breytingum á varnarmannvirkjum. Einnig kemur fram í minnisblaðinu að einhverju leyti verði greiningarvinnan unnin samhliða fyrir alla staði en að í fyrstu verði lögð áhersla á Strengsgil og Seljalandshlíð. Að síðust kemur fram í minnisblaðinu að stefnt sé á að niðurstöður fyrir framangreinda staði liggi fyrir í haust.
Samþykkt
Bæjarráð þakkar framlagt minnisblað og upplýsingar sem í því eru, að því sögðu þá ítrekar bæjarráð bókun ráðsins frá 714. fundi þess og leggur áherslu á að greiningarvinnu vegna endurmats á snjóflóðahættu verði hraðað.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 755. fundur - 22.08.2022

Lag er fram erindi frá Birni Jónssyni, dags. 15.08.2022 varðandi ofanflóðavarnir við Stóra Bola.
Visað til afgreiðslu starfsmanns
Bæjarráð þakkar Birni fyrir erindið og þær ábendingar og hugmyndir sem þar koma fram. Bæjarráð vill vekja athygli á fundargerð frá 30.03.2022, málsnúmer 2109057, og því sem kemur fram þar. Bæjarstjóra falið að setja sig í samband við Veðurstofuna og kanna framgang málsins, ásamt því að koma hugmyndum Björns á framfæri við Veðurstofuna.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 761. fundur - 04.10.2022

Lagt fram svar frá Hafsteini Pálssyni, starfsmanns Ofanflóðasjóðs, í tengslum við fyrirspurn deildarstjóra tæknideildar um endurskoðun á hættumati við Stóra Bola á Siglufirði.
Visað til afgreiðslu starfsmanns
Bæjarráð harmar að vinna við hættumatið muni dragast fram á næsta ár og felur bæjarstjóra að rita Veðurstofunni bréf þar sem mikilvægi málsins fyrir Fjallabyggð og íbúa er áréttað.