Fjárhagsáætlun 2026 og þriggja ára áætlun 2027-2029

Málsnúmer 2509018

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Fjallabyggðar - 892. fundur - 01.10.2025

Bæjarstjóri lagði fram drög að forsendum og greinargerð vegna fjárhagsáætlunar fyrir árið 2026. Lögð er fram tillaga að almennum forsendum fjárhagsáætlunar þar sem gert er ráð fyrir óbreyttu álagningarhlutfalli útsvars og almennum verðlagsbreytingum um 4% frá fyrra ári sem og 4% almennri hækkun rekstrargjalda í fjárhagsáætlunarramma ársins 2026.
Samþykkt
Bæjarráð samþykkir tillögu að almennum forsendum fjárhagsáætlunar þar sem gert er ráð fyrir óbreyttu álagningarhlutfalli útsvars og almennum verðlagsbreytingum um 4% í gjaldskrám sem og 4% hækkun rekstrargjalda í fjárhagsáætlunarramma ársins 2026. Verðlagsbreytingar ná ekki til álagningu fasteignagjalda sem verða skoðuð sérstaklega m.t.t. verulegrar hækkunar fasteignamats í Fjallabyggð á undanförnum árum með það fyrir augum að draga eins og kostur er úr áhrifum hækkaðs fasteignamats.

Framkvæmda-, hafna og veitunefnd Fjallabyggðar - 3. fundur - 21.10.2025

Bæjarstjóri greindi frá vinnu við fjárhagsáætlun og framkvæmdaáætlun fyrir árið 2026 og verða drög að áætlun tekin fyrir á næsta fundi nefndarinnar.
Lagt fram til kynningar
Lagt fram til kynningar

Bæjarráð Fjallabyggðar - 896. fundur - 30.10.2025

Með fundarboði fylgdu drög að fjárhagsáætlun Fjallabyggðar fyrir árið 2026.
Vísað til afgreiðslu bæjarstjórnar
Bæjarráð samþykkir að vísa fyrirliggjandi drögum að fjárhagsáætlun fyrir árið 2026 og þriggja ára áætlun 2027 - 2029 til fyrri umræðu í bæjarstjórn og leggur áherslu á að drögin fari til umfjöllunar hjá forstöðumönnum stofnanna og viðkomandi nefnda sem allra fyrst.

Bæjarstjórn Fjallabyggðar - 263. fundur - 05.11.2025

Fjárhagsáætlun Fjallabyggðar fyrir árið 2026 og þriggja ára áætlun fyrir árin 2027 - 2029 er lögð fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn. Meðfylgjandi er rammaáætlun á allar deildir.
Samþykkt
Þórir Hákonarson bæjarstjóri tók til máls og kynnti fjárhagsáætlun Fjallabyggðar fyrir árið 2026.

Fjárhagsáætlun Fjallabyggðar fyrir árið 2026 er lögð fram til fyrri umræðu ásamt þriggja ára áætlun fyrir árin 2027-2029. Fjárhagsáætlunin er sett fram í samræmi við 62. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, fyrir A-hluta og samantekinn reikning fyrir A- og B-hluta. Í A-hluta er Aðalsjóður auk Þjónustumiðstöðvar og Eignasjóðs. Í B-hluta eru Veitustofnun, Hafnarsjóður, Íbúðasjóður og Hornbrekka, auk hlutdeildarfélaga sem koma inn í reikningsskil sveitarfélagsins eftir hlutfallslegri ábyrgð bæjarfélagsins.

Áætlunin sýnir rekstraráætlun, áætlaðan efnahagsreikning og sjóðsstreymi fyrir sveitarfélagið og stofnanir þess.

Helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar fyrir árið 2026 gera ráð fyrir að rekstrartekjur Fjallabyggðar nemi 4.518.743 m.kr. hjá samstæðunni í heild, A- og B-hluta, þar af eru rekstrartekjur A-hluta áætlaðar 3.933 m.kr. Rekstrargjöld án fjármagnsliða og afskrifta eru áætluð 4.267 m.kr., þar af A-hluti 3.764 m.kr.

Framlögð áætlun byggir á eftirfarandi meginforsendum:
- Útsvarsprósenta er óbreytt milli ára þ.e. 14,70%.

- Hækkun útsvarstekna er áætluð 5,8% frá áætlun 2025.

- Álagningarhlutföll fasteignaskatta, lóðarleigu, vatns- og fráveitugjalda breytast nokkuð og vegna verulegrar hækkunar á fasteignamati íbúðarhúsnæðis er gert ráð fyrir að álagningarhlutföll lækki og gjöld í heild lækki á íbúðarhúsnæði. Gert er ráð fyrir því í áætlun að álagningarhlutfall fasteignaskatta lækki úr 0,460% í 0,44%, að lóðarleiga lækki úr 1,8% í 1,2% og álagningarhlutfall vatnsgjalds og fráveitugjalds lækki úr 0,27% í 0,24%.

- Sorphirðugjöld lækka í kr. 85.000 úr kr. 95.000 kr

- Gjaldskrár og þjónustugjöld hækka að jafnaði um 4% frá 1. janúar.

- Varðandi launakostnað liggja forsendur nokkuð vel fyrir þar sem kjarasamningar gilda almennt út árið 2026 en rétt er að vekja athygli á því að veruleg hækkun er á milli áætlana 2025 og 2026 þar sem áætlun líðandi árs tók ekki breytingum í samræmi við launahækkun sem varð á miðju árinu.

- Afsláttur af fasteignaskatti hjá tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum verður að hámarki kr. 105.000 og fylgir almennri verðlagsþróun.

- Tekjumörk fyrir afslætti hækka í samræmi við launavísitölu.

- Frístundastyrkur fyrir börn á aldrinum 4 - 18 ára hækkar í kr. 52.000 úr kr. 50.000 miðað við áætlaða verðlagsþróun sem er 4%.

Rekstrarhagnaður A- og B-hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði er áætlaður 252 m.kr. Afskriftir nema 257 m.kr. og fjármagnstekjur umfram fjármunagjöld 5,3 m.kr. Rekstrarhalli samstæðunnar í heild A- og B-hluta er áætlaður samtals um 1 milljón króna.

Rekstrarhagnaður A-hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði er áætlaður 169 m.kr. Afskriftir nema 196 m.kr. Fjármagnstekjur umfram fjármagnsgjöld nema 32 m.kr. Rekstrarniðurstaða A-hluta sveitarsjóðs er því áætluð jákvæð um 4,7 milljónir króna.


Eignir Fjallabyggðar eru áætlaðar í árslok 2026, 6.700 m.kr., þar af eru eignir A-hluta 5.400 m.kr. Skuldir og skuldbindingar eru áætlaðar í árslok 2.852 m.kr, hefðbundnar langtímaskuldir eru aðeins 113 milljónir sem eru afar litlar skuldir í öllum samanburði en lífeyrisskuldbindingar eru hins vegar um 2 milljarðar.
Eigið fé er áætlað 4.953 í árslok m.kr hjá samstæðunni og eiginfjárhlutfall 63,5%. Eigið fé A-hluta er áætlað 4.242 m.kr. Áætlunin gerir ráð fyrir að veltufé frá rekstri A-hluta verði 393m.kr. og að veltufé frá rekstri samstæðunnar A- og B-hluta verði samtals 459 m.kr.

Skuldaviðmið Fjallabyggðar samkvæmt reglugerð 502/2012 verður samkvæmt áætlun 37,2% en hámarks skuldaviðmið er 150%.

Fyrir árin á eftir er rekstrarniðurstaða samstæðunnar áætluð jákvæð fyrir árið 2027 um 67 m.kr., fyrir árið 2028 um 96 m.kr. og fyrir árið 2029 um 131 m.kr.

Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri fyrir árið 2027 verði 485 m.kr., fyrir árið 2028 verði það 514 m.kr. og fyrir árið 2029 verði það 544 m.kr.

Gera má ráð fyrir breytingum á milli umræðna þegar betur liggja fyrir tillögur í fjárfestingar og hugsanlega lántöku vegna knatthúss. Ítarleg greinargerð með fjárhagsáætlun verður lögð fram tímanlega fyrir síðari umræðu í bæjarstjórn sem áætluð er 27. nóvember 2025.

Til máls tóku Guðjón M. Ólafsson, Helgi Jóhannsson og S.Guðrún Hauksdóttir.

Bæjarstjórn samþykkir með 7 atkvæðum að vísa fyrirliggjandi tillögu að fjárhagsáætlun til síðari umræðu í bæjarstjórn og til úrvinnslu og undirbúnings á milli umræðna í nefndum og ráðum sem ber að skila tillögum í síðasta lagi 21. nóvember n.k.



Bæjarráð Fjallabyggðar - 897. fundur - 06.11.2025

Fyrir liggur vinnuskjal bæjarstjóra vegna vinnufunda forstöðumanna og nefnda á milli umræðna um fjárhagsáætlun í bæjarstjórn. Bæjarstjóri leggur jafnframt til að þegar síðari umræðu um fjárhags - og framkvæmdaáætlun er lokið í bæjarstjórn að haldinn verði opinn íbúafundur til kynningar á áætlunum ársins 2026 og að sá fundur verði í desember í Tjarnarborg.
Vísað til gerðar fjárhagsáætlunar
Bæjarráð leggur áherslu á að fjárhagsáætlun eins og hún liggur fyrir í fyrri umræðu í bæjarstjórn fari til umræðu í nefndum og á meðal forstöðumanna stofnanna sem fyrst. Jafnframt er bæjarstjóra falið að skipuleggja íbúafund til að kynna endanlega fjárhagsáætlun og framkvæmdaáætlun fyrir árið 2026 og að sá fundur verði haldinn í Tjarnarborg eigi síðar en 10.desember n.k.

Fræðslu- og frístundanefnd Fjallabyggðar - 156. fundur - 10.11.2025

Fyrir liggur tillaga að rammaáætlun fjárhagsáætlunar Fjallabyggðar, mfl. 04 og 06 fyrir árið 2026.
Vísað til afgreiðslu bæjarstjórnar
Fyrir liggur tillaga að rammaáætlun fjárhagsáætlunar Fjallabyggðar fyrir þá málaflokka er undir nefndina heyra.

Skarphéðinn Þórsson forstöðumaður íþróttamiðstöðvar, Ása Björk Stefánsdóttir skólastjóri grunnskóla og Kristín María Hlökk Karlsdóttir skólastjóri leikskóla sátu undir þessum dagskrárlið. Þau fóru yfir helstu tölur í fjárhagsáætlun stofnana sinna og fyrirhugað viðhald og framkvæmdir.

Einnig fóru þau yfir það viðhald og þær framkvæmdir sem búið er að fara í á yfirstandandi ári.

Fræðslu- og frístundanefnd samþykkir fyrirliggjandi tillögu að rammaáætlun fjárhagsáætlunar Fjallabyggðar fyrir árið 2026 fyrir sitt leyti en bendir á eftirfarandi þætti:


Nefndaramenn ítreka það að leysa þarf úr húsnæðismálum Leikhóla sem allra fyrst enda ljóst að húsnæðið annar ekki þeim fjölda sem nú þegar er til staðar og von er á fjölgun umsókna um leikskólavist á nýju ári.

Einnig hvetja nefndarmenn bæjarstjórn að skoða af alvöru gjaldfrjálsan leikskóla í Fjallabyggð.

Ekki hefur enn orðið af fyrirhuguðum flutningi 5. bekkjar Grunnskóla Fjallabyggðar yfir í Ólafsfjörð. Nefndarmenn hvetja til þess að unnið verði með opnum huga að lausn fyrir næsta skólaár þannig að hægt verði að klára sameiningu miðstigsins.

Nefndarmenn brýna bæjarstjórn til góðra verka þegar kemur að viðhaldi stofnana bæjarins og búnaðarkaupum og hvetja til að 3 ára áætlun verði nýtt til þess.

Eins og á yfirstandandi ári leggja nefndarmenn til að sett verði fjármagn í pop-up frístundastyrki ætlað til styrktar námskeiðum fyrir börn, aðallega yfir sumartímann, 1.500.000 kr. Það er mikil vöntun á afþreyingu fyrir börn yfir sumartímann og pop-up styrkir gætu virkað hvetjandi fyrir félög og einstaklinga að halda námskeið.

Nefndarmenn telja skynsamlegt að setja inn hvata til sameiningar allra íþróttafélaga undir eitt merki, með það fyrir augum að allir séu í eins búningum og utan yfir fatnaði, til hagræðingar fyrir fjölskyldufólk.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 898. fundur - 13.11.2025

Bæjarstjóri greindi frá vinnu við fjárhagsáætlun með forstöðumönnum stofnanna og nefndum Fjallabyggðar.
Lagt fram til kynningar
Bæjarráð þakkar yfirferð á vinnu við gerð fjárhagsáætlunar og óskar eftir sundurliðun á rammaáætlun eins og hún lítur út fyrir á næsta fundi bæjarráðs.

Markaðs- og menningarnefnd Fjallabyggðar - 121. fundur - 13.11.2025

Fyrir liggur rammaáætlun fyrir rekstraráætlun markaðs - og menningarmála eins og áætlunin var samþykkt í fyrri umræðu í bæjarstjórn Fjallabyggðar.
Samþykkt
Nefndin gerir ekki athugasemdir við áætlunina eins og hún liggur fyrir.

Velferðarnefnd Fjallabyggðar - 4. fundur - 13.11.2025

Fyrir nefndinni liggur tillaga að fjárhagsáætlun 2026 ásamt þriggja ára áætlun.
Vísað til bæjarráðs
Lögð fram tillaga að fjárhagsáætlun Félagsþjónustu Fjallabyggðar fyrir árið 2026. Velferðarnefnd samþykkir fyrir sitt leyti framlagða tillögu.

Framkvæmda-, hafna og veitunefnd Fjallabyggðar - 4. fundur - 18.11.2025

Fyrir liggur tillaga að rammaáætlun eins og tillagan fór fyrir fyrri umræðu í bæjarstjórn Fjallabyggðar
Samþykkt
Nefndin gerir ekki athugasemdir og samþykkir fyrirliggjandi tillögu að fjárhagsáætlun fyrir árið 2026 fyrir sitt leyti.

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar - 328. fundur - 19.11.2025

Drög að fjárhagsáætlun 2026 til kynningar.
Samþykkt
Nefndin samþykkir drög að fjárhagsáætlun 2026 fyrir sitt leyti.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 899. fundur - 20.11.2025

Fyrir liggja vinnuskjöl og rammaáætlun fyrir árið 2026 með tillögum um breytingar á milli umræðna í bæjarstjórn.
Samþykkt
Bæjarráð felur bæjarstjóra að uppfæra rammaáætlun í samræmi við þær breytingatillögur sem fram hafa komið og skila endanlegri tillögu til umræðu á næsta bæjarráðsfundi áður en fjárhagsáætlun 2026 fer til síðari umræðu í bæjarstjórn.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 900. fundur - 25.11.2025

Á 897.fundi bæjarráðs var fjárhagsáætlun vísað til umræðu í nefndum og á meðal forstöðumanna stofnanna Fjallabyggðar. Með fundarboði fylgir tillaga að fjárhagsáætlun og fjárfestingaáætlun fyrir árið 2026 og þriggja ára áætlun 2027-2029.
Vísað til afgreiðslu bæjarstjórnar
Bæjarráð samþykkir að vísa fjárhagsáætlun 2026 og þriggja ára áætlun 2027-2029 ásamt fjárfestingaáætlun til síðari umræðu í bæjarstjórn Fjallabyggðar.

Bæjarstjórn Fjallabyggðar - 264. fundur - 27.11.2025

Á 900.fundi bæjarráðs var fyrirliggjandi tillögu að fjárhagsáætlun fyrir árið 2026, þriggja ára áætlun 2027-2029 og fjárfestingaáætlun, vísað til síðari umræðu í bæjarstjórn með áorðnum breytingum frá fyrri umræðu.

Fjárhagsáætlun Fjallabyggðar fyrir árið 2026 er lögð fram til seinni umræðu ásamt þriggja ára áætlun fyrir árin 2027-2029 og framkvæmda- og fjárfestingaáætlun.

Fjárhagsáætlunin er sett fram í samræmi við 62. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, fyrir A-hluta og samantekinn reikning fyrir A- og B-hluta. Í A-hluta er Aðalsjóður auk Þjónustumiðstöðvar og Eignasjóðs. Í B-hluta eru Veitustofnun, Hafnarsjóður, Íbúðasjóður og Hornbrekka, auk hlutdeildarfélaga sem koma inn í reikningsskil sveitarfélagsins eftir hlutfallslegri ábyrgð bæjarfélagsins. Áætlunin sýnir rekstraráætlun, áætlaðan efnahagsreikning og sjóðsstreymi fyrir sveitarfélagið og stofnanir þess.


Helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar fyrir árið 2026 gera ráð fyrir að rekstrartekjur Fjallabyggðar nemi 4.642 m.kr. hjá samstæðunni í heild, A- og B-hluta, þar af eru rekstrartekjur A hluta áætlaðar 4.052 m.kr. Rekstrargjöld án fjármagnsliða og afskrifta eru áætluð 4.318 m.kr., þar af A-hluti 3.812 m.kr.

Rekstrarhagnaður A- og B-hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði er áætlaður 324 m.kr. Afskriftir nema 263 m.kr. og fjármagnsgjöld umfram fjármagnstekjur 8,5 m.kr.
Rekstrarafgangur samstæðunnar í heild A- og B-hluta er áætlaður samtals 51,6 m.kr. Rekstrarhagnaður A-hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði er áætlaður 239 m.kr. Afskriftir nema 201 m.kr. Fjármagnstekjur umfram fjármagnsgjöld nema 30 m.kr. Rekstrarniðurstaða A-hluta sveitarsjóðs er því áætluð jákvæð um 58 m.kr.

Eignir Fjallabyggðar eru áætlaðar í árslok 2026, 8.263 m.kr., þar af eru eignir A-hluta 7.688 m.kr. Skuldir og skuldbindingar eru áætlaðar í árslok 3.258 m.kr.

Eigið fé er áætlað 5.006 m.kr hjá samstæðunni og eiginfjárhlutfall 60,6%. Veltufé frá rekstri samstæðunnar A- og B-hluta verði samtals 522 m.kr.
Skuldaviðmið Fjallabyggðar samkvæmt reglugerð 502/2012 verður samkvæmt áætlun 42,2%% árið 2026.

Helstu niðurstöður áætlunar fyrir árin 2027-2029 hvað samstæðuna varðar eru að áætlaðar tekjur 2027 eru 4.816 m.kr., fyrir árið 2028 4.996 m.kr. og fyrir árið 2029 5.182 m.kr.
Rekstrarniðurstaða samstæðunnar er áætluð jákvæð fyrir árið 2027 um 101 m.kr., fyrir árið 2028 um 131 m.kr. og fyrir árið 2029 um 164 m.kr.
Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri fyrir árið 2027 verði 544 m.kr., fyrir árið 2028 verði það 578 m.kr. og fyrir árið 2029 verði það 614 m.kr.
Samþykkt
Á fundi bæjarráðs þann 25. nóvember síðastliðinn var fjárhagsáætlun fyrir 2026 auk þriggja ára áætlunar 2027-2029 ásamt fjárfestingaáætlun vísað til síðari umræðu í bæjarstjórn með áorðnum breytingum frá fyrri umræðu í bæjarstjórn.

Framlögð áætlun byggir á eftirfarandi meginforsendum:
- Útsvarsprósenta er óbreytt milli ára þ.e. 14,93%.
- Álagningarhlutföll fasteignaskatts
*Álagningarhlutfall fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði lækkar og verður 0,44 af heildarfasteignamati
*B-flokkur helst óbreyttur eða 1,32% af heildar fasteignamati
*C-flokkur helst óbreyttur eða 1,57% af heildar fasteignamati
- Lóðarleiga
*Lóðarleiga íbúðarhúsa, bifreiðageymslna og félagsheimila lækkar og verður 1,2% af lóðarhlutamati
*Lóðarleiga af öðrum lóðum verður óbreytt eða 3,33% af lóðarhlutamati

- Sorphirðugjald
*Sorphirðugjald íbúðarhúsnæðis lækkar í 85.000 kr. á hverja íbúð

- Fráveitugjald og vatnsgjald
*Fráveitugjald lækkar og verður 0,24% af heilar fasteignamati
*Vatnsgjald lækkar og verður 0,24% af heildar fasteignamati

- Hækkun útsvarstekna er áætluð í samræmi við áætlun Sambands íslenskra sveitarfélaga og hækkar um 5,3% frá útkomuspá
- Gjaldskrár hækka almennt um 4%
- Afsláttur af fasteignaskatti hjá tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum hækkar, og verður að hámarki kr. 110.000, ásamt því að tekjumörk fyrir afslætti hækka í samræmi við launavísitölu
- Frístundastyrkur fyrir börn á aldrinum 4 - 18 ára hækkar í kr. 52.000 úr kr. 50.000
- Laun hækka í samræmi við gildandi kjarasamninga

Hvað varðar framkvæmdir og viðhald eigna á komandi ári, er gert ráð fyrir að fjárfestingageta sveitarfélagsins nemi um 522 milljónum króna auk þess sem gert er ráð fyrir lántöku allt að 400 milljónum sem að hluta er gert ráð fyrir að færist á árið 2027 til fjárfestinga. Gert er ráð fyrir því að ríflega 20 milljónum meira verði varið í viðhald á árinu 2026 en áætlað var á árinu 2025 og er sérstök áhersla á skólahúsnæði bæði grunnskóla og leikskóla.

Þrátt fyrir lækkun fasteignagjalda á íbúðarhúsnæði stendur bæjarsjóður sterkt og rekstrarafkoma vel ásættanleg en bæjarfulltrúar hafa verið sammála um að koma til móts við bæjarbúa með lækkun álagningarhlutfalls á íbúðarhúsnæði í ljósi umtalsverðar hækkunar fasteignamats á árinu.

Bæjarstjórn samþykkir að farið verði í eftirfarandi stærri framkvæmdir á árinu 2026:

- Uppbygging þjóðvegar í gegnum Ólafsfjörð ásamt gangstéttarframkvæmdum
- Endurbætur á lagna- og tæknirými í sundlauginni á Siglufirði
- Uppbygging knatthúss á æfingasvæði KF í Ólafsfirði
- Viðbygging við leikskólann í Ólafsfirði
- Endurbætur á skólahúsnæði við Norðurgötu á Siglufirði
- Malbikun á Ránargötu og við kirkjugarð við Saurbæjarás
- Framkvæmdir við nýjan kirkjugarð í Ólafsfirði
- Framkvæmdir við Skálarhlíð, múrviðgerðir, endurnýjun eldhúss og fleira
- Framkvæmdir við vatnsveitu í Ólafsfirði og eftirlitskerfi vatns- og fráveitu í báðum byggðarkjörnum
- Gangstéttarframkvæmdir í báðum byggðarkjörnum
- Frágangur á tjaldsvæðinu í Ólafsfirði
- Hönnun á göngustígum í Ólafsfirði og malbikun og lýsing á göngustíg við ósinn í Ólafsfirði
- Auk þessa ýmis smærri verkefni
Að lokum vill forseti, fyrir hönd bæjarstjórnar, koma á framfæri þökkum til bæjarstjóra, nefndarmanna og starfsmanna sveitarfélagsins fyrir þeirra aðkomu að gerð fjárhagsáætlunar og ánægjulegs samstarfs og óskar íbúum Fjallabyggðar ánægjulegrar hátíðar sem senn gengur í garð.

Til máls tóku S.Guðrún Hauksdóttir, Helgi Jóhannsson, Guðjón M. Ólafsson og Tómas Atli Einarsson.

Fjárhagsáætlun 2026 og þriggja ára áætlun 2027-2029 ásamt fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun ársins 2026 samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.


Helgi Jóhannsson og Þorgeir Bjarnason, fulltrúar H-lista óskuðu eftir eftirfarandi bókun:

Hér liggur fyrir bæjarstjórn fjárhagsáætlun fyrir árið 2026 og þriggja ára áætlun.
H-listinn kom að gerð áætlunarinnar á vinnufundum bæjarstjórnar og í nefndum og ráðum. Stærsta einstaka framkvæmd næsta árs er bygging knatthúss á æfingasvæðinu við Ólafsfjarðarvöll. H- listinn er þess fullviss að þessi bætta aðstaða fyrir knattspyrnuiðkun muni verða gríðarleg lyftistöng fyrir íþróttina í Fjallabyggð og mun einnig nýtast fyrir aðrar íþróttagreinar og viðburði. Þrátt fyrir að fara þurfi í lántöku vegna þessa verkefnis þá er sveitarfélagið vel í stakk búið að takast á við það og með því skerðist ekki heldur það fé sem þarf til framkvæmda og viðhalds. Það er engin launung að viðhaldsskuld hefur safnast víða upp í gegnum árin sem taka þarf á.

Eitt að því sem H- listinn vill að tekið verði fastari tökum á næsta ári er flutningur á 5. bekk. Því miður hefur þetta mál ekki verið leitt í jörð og er komin tími til að teknar verði ákvarðanir sem uppfylla þá faglegu ákvörðun sem tekin var á sínum tíma að stefna að þessu.
Eins og gengur þá er ýmislegt sem við í H- listanum höfum viljað sjá komast til framkvæmda en ekki náðist í gegn. Við teljum niðurstöðuna vera ásættanlega en höfum gert fyrirvara um nokkur atriði sem gæti þurft að endurskoða á komandi ári.
Við viljum að lokum þakka samstarfsfólki okkar í bæjarstjórn, bæjarstjóra, nefndarfólki og öllum öðrum starfsmönnum sem komu að gerð þessarar fjárhagsáætlunar fyrir samstarfið.