Bæjarráð Fjallabyggðar

430. fundur 02. febrúar 2016 kl. 16:00 í Ráðhúsi Fjallabyggðar, Gránugötu 24, Siglufirði
Nefndarmenn
  • Steinunn María Sveinsdóttir formaður, S lista
  • Kristinn Kristjánsson varaformaður, F lista
  • Helga Helgadóttir aðalmaður, D lista
  • Sólrún Júlíusdóttir áheyrnarfulltrúi, B lista
  • Gunnar Ingi Birgisson bæjarstjóri
  • Ólafur Þór Ólafsson deildarstjóri stjórnsýslu og fjármála
Fundargerð ritaði: Ólafur Þór Ólafsson deildarstjóri stjórnsýslu og fjármála

1.Áskorun til bæjarstjórnar vegna inntöku barna í leikskóla

Málsnúmer 1512012Vakta málsnúmer

Á 23. fundi fræðslu- og frístundarnefndar, 25. janúar 2016, var tekin fyrir áskorun á bæjaryfirvöld í Fjallabyggð frá foreldum, sem eru með börn á biðlista, um að þau fái úthlutað plássi við leikskólann Leikskála Siglufirði í byrjun maí en þá eru börnin að ná 12 mánaða aldri. Um er að ræða fjögur börn. Fyrir liggur að leikskólinn er fullsetinn og útilokað að taka inn fleiri börn á þessum tíma einnig í ljósi þess að þrengt verður að starfsemi skólans þegar framkvæmdir við stækkun hans fara í gang með vorinu.

Fræðslu- og frístundanefnd lagði til við bæjarráð að foreldrum yrði boðið tímabundið pláss á leikskólanum Leikhólum Ólafsfirði.

Lagt fram minnisblað deildarstjóra fræðslu- frístunda-og menningarmála.

Bæjarráð samþykkir tillögu fræðslu- og frístundanefndar.

2.Deiliskipulag Leirutanga

Málsnúmer 1501084Vakta málsnúmer

Á 425. fundi bæjarráðs, 22. desember 2015, var fjallað um athugasemd Báss ehf við auglýsta tillögu að deiliskipulagi Leirutanga.
Bæjarráð samþykkti að fela bæjarstjóra að kalla eftir lögfræðiáliti varðandi málið.

Bæjarstjóri kynnti bæjarráði fyrirliggjandi lögfræðiálit.

Bæjarráð samþykkir að vísa málinu til skipulags- og umhverfisnefndar.

3.Fasteignagjöld 2015 - athugasemdir

Málsnúmer 1502054Vakta málsnúmer

Á 428. fundi bæjarráðs, 19. janúar 2016, var tekið fyrir erindi Þóris Kr. Þórissonar dagsett 4. janúar 2016, þar sem komið var á framfæri athugasemdum við hækkun álagningar fasteignagjalda á fasteignina að Hlíðarvegi 1 Siglufirði.
Fært var til bókar að bæjarráð sá sér ekki fært að taka upp tímabilsálagningu fasteignagjalda vegna gististarfsemi á þessu ári.

Í bréfi Þóris Kr. Þórissonar, dagsett 28. janúar 2016, er sett fram ósk um rökstuðning fyrir ákvörðun bæjarráðs.

Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að svara erindinu.

4.Húsaleigusamningur, sambýlið Lindargötu

Málsnúmer 1601086Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar undirritaður húsaleigusamningur við Fasteignasjóð Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um húsnæðið að Lindargötu 2, Siglufirði, fyrir 2016.

Bæjarráð samþykkir samninginn fyrir sitt leyti.

5.Leikskálar - viðbygging

Málsnúmer 1503043Vakta málsnúmer

Á fund bæjarráðs mætti deildarstjóri tæknideildar, Ármann Valur Sigurðsson.

Lagt fram minnisblað deildarstjóra tæknideildar.

Tilboð voru opnuð í viðbyggingu og endurbætur á leikskólanum við Brekkugötu 2, Siglufirði þann 1. febrúar kl 14:00 í Ráðhúsi Fjallabyggðar.

Tvö tilboð bárust.
Berg ehf 145.357.000 - 118,6% af kostn.áætlun.
Tréverk ehf 166.136.077 - 135,6% af kostn.áætlun.
Kostnaðaráætlun 122.519.995.

Báðir aðilar skiluðu inn frávikstilboði m.v. lengdan verktíma:
Berg ehf 127.551.000 miðað við skil á verki 10.10.2016 - 104,1% af kostn.áætlun.
Tréverk ehf 137.513.531 miðað við skil á verki 15.11.2016 - 112,2% af kostn.áætlun.

Í útboðsgögnum er gert ráð fyrir verklokum 15.08.2016.

Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra og deildarstjóra tæknideildar að ganga til samninga við lægstbjóðanda um frávikstilboð.

6.Málefni Menntaskólans á Tröllaskaga

Málsnúmer 1407047Vakta málsnúmer

Lögð fram drög að samkomulagi við Akureyrarbæ um eingreiðslu vegna eldri og framtíðar leigugreiðslna húsnæðis Menntaskólans á Tröllaskaga.

Bæjarráð samþykkir drög að samkomulagi við Akureyrarbæ og vísar til afgreiðslu bæjarstjórnar.

7.Nýting hafnarmannvirkja í Fjallabyggð

Málsnúmer 1601064Vakta málsnúmer

Á 13. fundi atvinnumálanefndar, 20. janúar 2016, var lagt til við hafnarstjórn og bæjarráð að farið yrði af stað með vinnu þar sem kannaðir yrðu möguleikar á aukinni nýtingu hafnarmannvirkja í Fjallabyggð. Haldinn yrði opinn fundur um nýtingu hafnarmannvirkjanna þar sem málefnið yrði rætt og í kjölfarið skipaður vinnuhópur sem tæki saman og ynni úr tillögunum.

Bæjarráð samþykkir að fela atvinnumálanefnd að vinna málið markvisst og ýtarlegar áður en bæjarráð tekur málið til umfjöllunar.

8.Stefnumótun ferðaþjónustu í Fjallabyggð

Málsnúmer 1601065Vakta málsnúmer

Á 13. fundi atvinnumálanefndar, 20. janúar 2016, var lagt til við bæjarráð og jafnframt óskað eftir umsögn skipulags- og umhverfisnefndar á því að fram fari fagleg umræða um stefnumótun í ferðaþjónustu í Fjallabyggð og hvort ekki sé rétt að tengja þá vinnu við endurskoðun eða breytingar á aðalskipulagi sveitarfélagsins. Lagði nefndin jafnframt til að á næsta atvinnumálaþingi yrði ferðaþjónusta til umræðu.

Bæjarráð vísar í bókun skipulags- og umhverfisnefndar frá 27. janúar 2016, þar sem segir að nefndin muni hafa ferðamál í öndvegi við endurskoðun aðalskipulags.

9.Styrkumsóknir 2016 - Menningarmál

Málsnúmer 1510019Vakta málsnúmer

Í erindi Norrænafélagsins á Siglufirði, dagsett 25. janúar 2016, er óskað skýringar á höfnun við styrkbeiðni.

Styrkumsóknir vegna menningarmála 2016 voru 31 að upphæð um 14 milljónir.
Áætluð upphæð til styrkveitinga var um 9 milljónir.
Niðurstaða umfjöllunar í bæjarráði varð sú að 24 umsækjendur voru styrktir.

Því miður hlaut Norrænafélagið Siglufirði ekki styrk að þessu sinni samkvæmt forgangsröðun bæjarráðs sem m.a. er grunduð á starfsemi umsækjenda.

Bæjarráð hvetur félagið til að sækja um styrk við gerð næstu fjárhagsáætlunar.

10.Mannskaps og tækjabíll T5 - Siglufirði

Málsnúmer 1601113Vakta málsnúmer

Lögð fram drög að samningi við Ósland ehf. um kaup á mannskaps- og tækjabíl fyrir Slökkvilið Fjallabyggðar.

Bæjarráð samþykkir að óska eftir umsögn bæjarstjóra og slökkviliðsstjóra.

11.Útboð á vátryggingum Fjallabyggðar

Málsnúmer 1408008Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar undirritaður samningur um vátryggingar Fjallabyggðar við Sjóvá-Almennar tryggingar hf, dagsettur 28. janúar 2016.

12.Lífeyrisskuldbindingar 2015

Málsnúmer 1601115Vakta málsnúmer

Lagðar fram til kynningar upplýsingar deildarstjóra fjármála og stjórnsýslu um breytingu á vísitölu lífeyrisskuldbindinga 2015.
Vísitala hefur hækkað um tæp 12% á síðasta ári.

Árlegur útreikningur tryggingarsérfræðings á lífeyrisskuldbindingum Fjallabyggðar mun liggja fyrir í febrúar.

Bæjarráð samþykkir að óska eftir að fá kynningu tryggingarsérfræðings þegar útreikningur liggur fyrir.

13.Krafa um bætur vegna skemmda á fasteigninni Hólavegi 7, Siglufirði

Málsnúmer 1208011Vakta málsnúmer

Lögð fram sáttartillaga eigenda fasteignarinnar Hólavegi 7, Siglufirði.

Bæjarráð samþykkir fyrir sitt leyti tillöguna.
Stjórn Ofanfljóðasjóðs hefur samþykkt tillöguna.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ganga frá samkomulagi við eigendur samkvæmt fyrirliggjandi sáttartillögu.

14.Starf skjalavarðar við Héraðsskjalasafn Fjallabyggðar

Málsnúmer 1602004Vakta málsnúmer

Lögð fram beiðni forstöðumanns bóka- og héraðsskjalasafns Fjallabyggðar um ráðningu í starf skjalavarðar, þar sem núverandi skjalavörður hefur sagt upp starfinu.

Bæjarráð samþykkir beiðni forstöðumanns bókasafnsins og þakkar Brynju Hafsteinsdóttur góð störf og óskar henni velfarnaðar á nýjum vettvangi.

15.Beiðni um umsögn um umsóknar um endurnýjun á rekstrarleyfi - Þjónustustöð Olís Ólafsfirði

Málsnúmer 1601097Vakta málsnúmer

Lögð fram beiðni frá Sýslumanninum á Norðurlandi eystra dagsett 25. janúar 2016, er varðar umsögn um endurnýjun rekstrarleyfis til sölu veitinga í þjónustustöð Olís, í Ólafsfirði.

Bæjarráð gerir ekki athugasemd við umsóknina.

16.Framlenging ákvæðis um B-gatnagerðargjald

Málsnúmer 1601014Vakta málsnúmer

Á 427. fundi bæjarráðs, 12. janúar 2016, var til umræðu frumvarp um framlengingu B-gatnagerðargjalds, sem Alþingi hefur samþykkt. Bráðabirgðaákvæði við lög um gatnagerðargjald hefði að óbreyttu runnið út um áramót, en það hefur nú verið framlengt til ársloka 2017.
Bæjarráð óskaði eftir umsögn bæjarstjóra.

Bæjarstjóri flutti munnlega umsögn.

Bæjarráð fagnar því að ákvæði hafi verið framlengt.

Bæjarráð felur bæjarstjóra og deildarstjóra tæknideildar að lista upp þær götur sem gætu fallið undir ákvæðið.

17.Fyrirspurn varðandi niðurgreiðslur frístunda

Málsnúmer 1601103Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar svar við fyrirspurn Velferðarráðuneytis um kostnað vegna niðurgreiðslu frístunda hjá sveitarfélögum sem eru með 1.000 íbúa eða fleiri.

Í Fjallabyggð fá rúmlega 300 einstaklingar útgefin frístundakort.

Í svari íþrótta- og tómstundafulltrúa kemur m.a. fram að hlutfall barna sem nýtir sér frístundakort er um 72%. Frístundakort í Fjallabyggð eru gefin út fyrir aldurinn 4 - 18 ára. Upphæðin er 9.000 á hvern einstakling og er leyfilegt að færa styrkinn á milli systkina.

18.Gísli arkitekt ehf - arkitektaþjónusta

Málsnúmer 1601108Vakta málsnúmer

Lögð fram þjónustukynning frá Gísla arkitekt ehf. á Akureyri um m.a. öll almenn arkitektastörf á sviði skipulags og byggingarmála.

19.Til umsagnar 404. mál frá nefndasviði Alþingis

Málsnúmer 1601107Vakta málsnúmer

Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis sendir til umsagnar frumvarp til laga um um uppbyggingu og rekstur fráveitna (gjaldtökuheimildir, réttindi og skyldur fráveitna), 404. mál.

Bæjarráð óskar eftir umsögn bæjarstjóra.

20.Til umsagnar, 400. mál frá nefndasviði Alþingis

Málsnúmer 1601106Vakta málsnúmer

Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis sendir til umsagnar frumvarp til laga um um vatnsveitur sveitarfélaga (skilgreining og álagning vatnsgjalds), 400. mál.

Bæjarráð óskar eftir umsögn bæjarstjóra.


21.Til umsagnar 457. mál frá nefndasviði Alþingis

Málsnúmer 1601114Vakta málsnúmer

Atvinnuveganefnd Alþingis sendir til umsagnar frumvarp til laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald (heimagisting, veitingastaðir án áfengisveitinga, ótímabundin rekstrarleyfi), 457. mál.

Lagt fram til kynningar.

22.Fréttaskot Markaðsstofu Norðurlands 28/1 2016

Málsnúmer 1601110Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar fréttaskot Markaðsstofu Norðurlands.

http://www.nordurland.is/is/bladamenn/frettir/frettaskot-markadsstofu-nordurlands-28-1-2016

23.Rætur bs - aðalfundur 2015

Málsnúmer 1511062Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar fundarboð aðalfundar Róta bs.
Stjórn Róta bs. hefur ákveðið nýja dagsetningu aðalfundar, en honum var frestað í desember vegna veðurs.

Fundurinn verður haldinn í Menningarhúsinu Tjarnarborg, Ólafsfirði, föstudaginn 19. febrúar kl. 14:00.

Fulltrúar Fjallabyggðar á aðalfund Róta bs eru:

Steinunn María Sveinsdóttir
Kristinn Kristjánsson
S. Guðrún Hauksdóttir
Sólrún Júlíusdóttir
Helga Helgadóttir
Hilmar Elefsen
Ríkharður Hólm Sigurðsson

Til vara:
Nanna Árnadóttir
Guðný Kristinsdóttir
Ásgeir Logi Ásgeirsson
Jón Valgeir Baldursson
Brynja Ingunn Hafsteinsdóttir
Ægir Bergsson
Aðalsteinn Arnarsson

24.Skerðing þjónustu Isavia á Akureyrarflugvelli, úr ATC í AFIS

Málsnúmer 1601111Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar bréf flugrekstrarstjóra og flugstjóra Norlandair og þjálfunarflugstjóra Mýflugs, dagsett 28. janúar 2016, til Innanríkisráðherra, forsvarsmanna Isavia, fulltrúa bæjar-og sveitarstjórna við Eyjafjörð, þingmenn norðausturkjördæmis og samgöngunefndar Alþingis.

25.Fundargerðir Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga - 2016

Málsnúmer 1601006Vakta málsnúmer

Fundargerð 25. fundar Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga, frá 15. janúar 2016, lögð fram til kynningar.

Bæjarráð tekur undir bókun stjórnar er varðar viðskiptabann Rússa á íslenskar sjávarafurðir.

Gífurlegir hagsmunir eru í húfi fyrir fyrirtæki og launþega.

Í bókun stjórnar Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga er lýst yfir þungum áhyggjum vegna viðskiptabanns Rússlands á íslenskar sjávarafurðir. Fram kemur að bannið mun koma niður á sveitar- og hafnarsjóðum landsins og metur Byggðastofnun það tap um 400 milljónir króna.
Stjórn sjávarútvegssveitarfélaga telur að samráð af hendi ríkisstjórnar Íslands hefði átt að vera við sjávarútvegssveitarfélög við undirbúning aðgerða um viðskiptaþvinganir á Rússland og skilgreina fyrirfram með hvaða hætti það tjón yrði bætt sem þau yrðu fyrir, myndu Rússnesk stjórnvöld beita íslenska þjóð viðskiptaþvingunum á móti. Því sé ljóst að verði sömu stefnu fylgt af hendi Íslands hvað þetta viðskiptabann varðar, þurfi að leita leiða til að bæta íslenskum sjávarútvegssveitarfélögum það tjón sem af áframhaldandi viðskiptabanni mun hljótast. Rétt eins og við önnur áföll sem dynja á. Er þess krafist að nú þegar verði sest niður með fulltrúum samtakanna til að fara yfir þau mál og finna leiðir í því hvernig tjónið verði bætt. Þá er ónefnt það framtíðartap sem mun skapast með tapaðri markaðshlutdeild, sem mun þá hafa meiri áhrif til framtíðar fyrir sjávarútvegssveitarfélög.

26.Fundargerðir nefnda og stjórna Fjallabyggðar - 2016

Málsnúmer 1601013Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 196. fundar skipulags- og umhverfisnefndar frá 27. janúar 2016.

Fundi slitið.