Starfsemi fræðslustofnana í Fjallabyggð m.t.t. Fræðslustefnu Fjallabyggðar

Málsnúmer 2104020

Vakta málsnúmer

Fræðslu- og frístundanefnd Fjallabyggðar - 98. fundur - 12.04.2021

Fræðslu- og frístundanefnd samþykkir að kalla eftir greinargerðum frá fræðslustofnunum í Fjallabyggð um hvernig gangi að vinna eftir Fræðslustefnu Fjallabyggðar sem samþykkt var af bæjarstjórn 18. maí 2017. Horft verði til atriða eins og hvernig fræðslustefnan birtist í daglegu skólastarfi stofnana, samstarf milli fræðslustofnana, hvernig gildi fræðslustefnunnar endurspeglast í starfinu og hvernig gangi að vinna að markmiðum fræðslustefnunnar. Óskað eftir að greinargerðir berist deildarstjóra fræðslu-, frístunda- og menningarmála í síðasta lagi 1. júní 2021.

Fræðslu- og frístundanefnd Fjallabyggðar - 100. fundur - 10.06.2021

Á 98. fundi Fræðslu- og frístundanefndar Fjallabyggðar samþykkti nefndin að kalla eftir greinargerðum frá fræðslustofnunum í Fjallabyggð um hvernig gangi að vinna eftir Fræðslustefnu Fjallabyggðar sem samþykkt var af bæjarstjórn 18. maí 2017. Óskaði nefndin eftir að horft yrði til atriða eins og hvernig fræðslustefnan birtist í daglegu skólastarfi stofnana, samstarfi milli fræðslustofnana, hvernig gildi fræðslustefnunnar endurspeglast í starfinu og hvernig gangi að vinna að markmiðum fræðslustefnunnar. Allar fræðslustofnanir hafa skilað greinargerðum sínum. Ánægjulegt er að sjá hvernig markvisst samstarf og gildi fræðslustefnunnar endurspeglast í daglegu starfi innan fræðslustofnana eins og lýst er í greinargerðunum.
Í greinagerð skólastjóra grunnskólans kemur fram að starf á miðstigi yrði faglega og félagslega öflugra með hagsmuni nemenda að leiðarljósi ef miðstigið yrði sameinað á sömu starfsstöð. Fræðslu- og frístundanefnd óskar eftir að farið verði í greiningarvinnu á húsnæðisþörf og hvaða leiðir væri hægt að fara til að svo megi verða. Horfa þarf til húsnæðis, skólaaksturs og fleiri þátta.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 730. fundur - 17.02.2022

Lagt fram minnisblað bæjarstjóra, deildarstjóra fræðslu- frístunda- og menningarmála dags. 11. febrúar 2022 er varðar greiningu á kostum sem gerðu mögulegt að flytja kennslu 5. bekkjar í starfstöð grunnskólans á Ólafsfirði. Bæjarstjórn óskaði eftir minnisblaðinu á 203. fundi sínum í kjölfar bókunar fræðslu og frístundanefndar á 98. fundi nefndarinnar.
Vísað til nefndar
Bæjarráð þakkar framlagt minnisblað og fylgiskjöl og vísar því til umfjöllunar í fræðslu- og frístundanefnd.

Fræðslu- og frístundanefnd Fjallabyggðar - 109. fundur - 07.03.2022

Á 730. fundi sínum, 17.2.2022 vísaði bæjarráð málinu til umfjöllunar í fræðslu- og frístundanefnd með ósk um umsögn nefndarinnar.
Fræðslu- og frístundanefnd leggur til að bæjarráð horfi til hugmyndar 1 í framlögðu minnisblaði sem snýr að flutningi skólastarfs 5. bekkjar grunnskólans yfir í starfsstöðina við Tjarnarstíg Ólafsfirði. Hugmynd 1 gerir ráð fyrir viðbyggingu við núverandi skólahús og er að mati nefndarinnar besta leiðin þegar til framtíðar er litið.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 733. fundur - 10.03.2022

Lögð fram umbeðin umsögn fræðslu- og frístundanefndar sem samþykkt var á 109. fundi nefndarinnar.
Afgreiðslu frestað
Bæjarráð samþykkir að fresta afgreiðslu málsins og felur bæjarstjóra að taka saman upplýsingar í samræmi við umræður á fundinum og leggja fyrir næsta reglulega fund ráðsins.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 735. fundur - 24.03.2022

Lagt fram vinnuskjal bæjarstjóra, deildarstjóra fræðslu-, frístunda- og menningarmála og deildarstjóra tæknideildar dags. 15. mars 2022 er varðar greiningu á möguleikum til að flytja 5. bekk grunnskólans yfir í starfstöð skólans í Ólafsfirði. Einnig lögð fram bókun fræðslu- og frístundanefndar frá 109. fundi nefndarinnar hvar hún að beiðni bæjarráðs veitir umsögn um málið eins og það þá lá fyrir. Umsögn nefndarinnar var á þá leið að besta leiðin til framtíðar væri að byggja við núverandi húsnæði grunnskólans í Ólafsfirði.

Í framlögðu vinnuskjali kemur fram að höfundar hafi velt upp þremur möguleikum sem hafa að markmiði að auka húsrými starfstöðvarinnar þannig að flytja megi 5. bekk þangað. Þrjár hugmyndir voru reifaðar, í fyrsta lagi að byggja við núverandi skólahús, í öðru lagi að reisa frístandandi kennslustofu við skólann með tengibyggingu og í þriðja lagi að nýta hluta húsnæðis Menntaskólans á Tröllaskaga (MTR). Ekki er gerð ákveðin tillaga í vinnuskjalinu heldur er leitast við að draga fram upplýsingar og helstu kosti hverrar leiðar fyrir sig. Í vinnuskjalinu er einnig leitast við að grófáætla kostnað vegna hverrar hugmyndar, áætlað er að viðbygging við skólann kosti á bilinu 100 til 140 millj.kr, laus kennslustofa kosti nálægt 50 millj.kr og aðlögun á húsnæði MTR innan við 10 millj.kr.
Visað til afgreiðslu starfsmanns
Bæjarráð þakkar framlagt vinnuskjal og felur bæjarstjóra að hafa forgöngu um forhönnun viðbyggingar við starfsstöð grunnskólans í Ólafsfirði, áætla kostnað og leggja fyrir bæjarráð svo fljótt sem verða má.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 738. fundur - 22.04.2022

Lögð fram frumdrög að hönnun og frumkostnaðaráætlun dags. 12. apríl 2022, vegna viðbyggingar við grunnskólann í Ólafsfirði. Drögin eru unnin í framhaldi af því að bæjarráð fól bæjarstjóra á 735. fundi ráðsins, að hafa forgöngu um nánari útfærslu og kostnaðarmat í tengslum við greiningu á möguleikum til að flytja 5. bekk grunnskólans yfir í starfsstöð skólans í Ólafsfirði. Fram kemur í frumkostnaðarmati að áætlaður byggingakostnaður viðbyggingar sé á bilinu 154 til 176 millj.kr.
Vísað til Bæjarstjórnar
Bæjarráð þakkar framlögð frumdrög að hönnun og kostnaðarmati vegna viðbyggingar og samþykkir að beina því til bæjarstjórnar að nú þegar verði hafist handa við að hanna viðbygginguna að fullu og bjóða verkið út m.v. að skólahald geti hafist í húsnæðinu haustið 2023.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 776. fundur - 24.01.2023

Fyrir liggur greinargerð frá deildarstjóra fræðslu-, frístunda- og menningarmála um með hvaða hætti framkvæmanlegt er að færa skólastarf nemenda í 5. bekk í starfsstöð grunnskólans í Ólafsfirði frá og með næsta skólaári.
Vísað til afgreiðslu starfsmanns
Bæjarráð þakkar deildarstjóra fræðslu-, frístunda- og menningarmála fyrir greinargerðina. Bæjarráð felur deildarstjóra að vinna málið áfram og þegar endanleg útfærsla á sameiningu miðstigsins í Ólafsfirði liggur fyrir að halda bæði kynningarfund með starfsfólki og foreldrum þeirra barna sem um ræðir.

Fræðslu- og frístundanefnd Fjallabyggðar - 121. fundur - 13.02.2023

Stefnt er að sameiningu 5.-7.bekkja í starfsstöð grunnskólans í Ólafsfirði frá og með næsta skólaári. Síðustu ár hefur skólastarf nemenda í 5. bekk verið í starfsstöðinni á Siglufirði og skólastarf 6. og 7. bekkja í starfsstöðinni í Ólafsfirði. Lengi hefur verið rætt um faglegan ávinning af sameiningu miðstigs í sömu starfsstöð.
Lagt fram til kynningar
Undir þessum lið sat Erla Gunnlaugsdóttir skólastjóri Grunnskóla Fjallabyggðar og Björk Óladóttir fulltrúi foreldra.
Deildarstjóri fræðslu-, frístunda- og menningarmála fór yfir fyrirkomulag og framkvæmd sameiningu miðstigsbekkja í starfsstöðina í Ólafsfirði með tilfærslu 5. bekkjar frá og með næsta skólaári. Fræðslu- og frístundanefnd barst tölvupóstur frá kennurum við starfsstöðina í Ólafsfirði sem lýsa yfir áhyggjum af þrengslum í starfsstöðinni, verði af flutningi 5. bekkjar næsta haust, áður en nýbygging er tilbúin. Fræðslu- og frístundanefnd þakkar kennurum fyrir erindið og tók það til umfjöllunar á fundinum. Nefndin óskar eftir að ábendingum kennara verði komið á framfæri við bæjarráð.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 779. fundur - 21.02.2023

Á 121. fundi fræðslu- og frístundanefndar þann 13. febrúar síðastliðinn óskaði nefndin eftir að athugasemdir og áhyggjur sem henni hafði borist í tölvupósti frá kennurum Grunnskóla Fjallabyggðar, við Tjarnarstíg Ólafsfirði, varðandi flutning skólastarfs 5. bekkjar yfir í starfsstöðina í Ólafsfirði áður en viðbygging væri tilbúin, yrði komið á framfæri við bæjarráð.
Ríkey Sigurbjörnsdóttir, deildarstjóri fræðslu-, frístunda og menningarmála mætti á fund bæjarráðs ásamt Erlu Gunnlaugsdóttur, skólastjóra Grunnskóla Fjallabyggðar.
Vísað til afgreiðslu bæjarstjórnar
Bæjarráð þakkar deildarstjóra fræðslu-, frístunda- og menningarmála og skólastjóra grunnskólans fyrir góðar umræður á fundinum. Málinu er vísað til afgreiðslu í bæjarstjórn.

Bæjarstjórn Fjallabyggðar - 227. fundur - 08.03.2023

Vísað frá 779. fundi bæjarráðs frá 21. febrúar sl. til afgreiðslu bæjarstjórnar.

Á 121. fundi fræðslu- og frístundanefndar þann 13. febrúar síðastliðinn óskaði nefndin eftir að athugasemdir og áhyggjur sem henni hafði borist í tölvupósti frá kennurum Grunnskóla Fjallabyggðar, við Tjarnarstíg Ólafsfirði, varðandi flutning skólastarfs 5. bekkjar yfir í starfsstöðina í Ólafsfirði áður en viðbygging væri tilbúin, yrði komið á framfæri við bæjarráð.

Lögð fram minnisblöð deildarstjóra fræðslu-, frístunda og menningarmála, dags. 13.01.2023 og 23.02.2023. Athugasemdir kennara við Grunnskóla Fjallabyggðar við Norðurgötu einnig lagðar fram.

Tómas Atli Einarsson, Guðjón M. Ólafsson, S. Guðrún Hauksdóttir, Helgi Jóhannsson, Sigríður Ingvarsdóttir og Arnar Þór Stefánsson tóku til máls.
Samþykkt
Bæjarstjórn Fjallabyggðar þakkar starfsfólki við Tjarnarstíg og Norðurgötu fyrir ábendingar þeirra. Því er beint til bæjarstjóra að hér eftir verði tryggt að fullt samráð verði haft við starfsfólk, foreldra og nemendur við sameiningu miðstigs grunnskólans. Bæjarstjórn samþykkir með 6 atkvæðum að kennslufyrirkomulag miðstigs grunnskólans verði óbreytt næsta skólaár.
Tómas Atli Einarsson yfirgaf fundinn að erindi sínu loknu, áður en greidd voru atkvæði.