Aðgerðaráætlun vegna óveðurs í Fjallabyggð

Málsnúmer 1912027

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Fjallabyggðar - 632. fundur - 13.12.2019

Bæjarráð Fjallabyggðar vill þakka viðbragðsaðilum, fyrirtækjum og einstaklingum sem stóðu vaktina á meðan óveðrið gekk yfir dagana 10. til 12. desember fyrir mikið og óeigingjarnt starf við björgunaraðgerðir.

Bæjarráð óskar eftir að fá greinargerð frá viðbragðsaðilum, björgunarsveitum, slökkviliði, lögreglu, Rauða krossinum, HSN, þjónustumiðstöð og öðrum stofnunum Fjallabyggðar.

Von er á fréttatilkynningu frá bæjarstjórn Fjallabyggðar síðar í dag.


Bæjarstjórn Fjallabyggðar - 179. fundur - 13.12.2019

Bæjarstjórn Fjallabyggðar lýsir þungum áhyggjum yfir þeim aðstæðum sem sköpuðust í Fjallabyggð og víðar á landinu þegar óveður gekk yfir fyrr í vikunni, þar sem rafmagns-, heitavatns-, útvarps- og fjarskiptakerfi virkuðu ekki sem skildi og olli mikilli óvissu og óöryggi. Þetta eru algjörlega óboðlegar aðstæður í nútímasamfélagi þar sem allt byggir á tækni. Allir viðbragðsaðilar reiða sig á gsm kerfið þegar kemur að boðunum og þykir mildi að ekkert hafi komið uppá í þeim efnum. Í þeim aðstæðum sem upp komu var Fjallabyggð algjörlega einangruð og ekki hægt að sækja hjálp til nærliggjandi sveitarfélaga þar sem bæði Siglufjarðar- og Ólafsfjarðarvegur voru lokaðir vegna snjóflóðahættu. Þurftu því viðbragðsaðilar alfarið sjálfir að leysa öll þau verkefni sem þessar aðstæður sköpuðu. Strax í upphafi rafmagnsleysisins gekk erfiðlega að nálgast eldsneyti vegna rafmagnstruflana og vegna tæknilegra vandamála í kerfi Olís beggja vegna gangnana sem olli erfiðleikum þegar leið á björgunarstörf. Enn á eftir að meta það tjón sem varð af völdum langvarandi rafmagnsleysis og aftaka veðurs. Ofan á þá eyðileggingu sem óveðrið orsakaði var heilsu og eignum einstaklinga sem og verðmætum fyrirtækja stefnt í hættu. Viðbragðsaðilum, fyrirtækjum og einstaklingum sem sinnt hafa björgunarstörfum undanfarna daga verður seint fullþakkað. Þessir aðilar hafa komið fólki til aðstoðar, komið á rafmagni og hita í Fjallabyggð ásamt því að tryggja fjarskiptasamband og unnið þrekvirki fyrir íbúa Fjallabyggðar og færir sveitarfélagið þeim bestu þakkir.
Mikinn lærdóm má draga af þessari stöðu. Díselstöðvar sem voru varaafl fyrir Siglufjörð og Ólafsfjörð hafa verið aflagðar, en þær voru teknar niður vegna afhendingaröryggis sem koma átti með hringtengingu raforku, sem augljóslega brást í þessu veðri. Auk þess er óeðlilegt að varaaflstöðvar fyrir fjarskiptakerfi viðbragðsaðila séu ekki fyrir hendi.
Það er skýlaus krafa Fjallabyggðar að til úrbóta verði gripið því ekki er hægt að una við óbreytt ástand.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 633. fundur - 20.12.2019

Á 632. fundi bæjarráðs óskaði ráðið eftir að fá greinargerð frá viðbragðsaðilum, björgunarsveitum, slökkviliði, lögreglu, Rauða krossinum, HSN, þjónustumiðstöð og öðrum stofnunum bæjarfélagsins.

Bæjarráð samþykkir að fresta málinu til næsta fundar þar sem greinargerðir hafa ekki borist frá öllum aðilum.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 634. fundur - 07.01.2020

Á 632. fundi bæjarráðs óskaði ráðið eftir greinargerðum frá viðbragðsaðilum, björgunarsveitum, slökkviliði, lögreglu, Rauða krossinum, HSN, þjónustumiðstöð og öðrum stofnunum Fjallabyggðar.

Lagðar voru fram greinargerðir frá eftirtöldum aðilum:
Þjónustumiðstöð Fjallabyggðar, höfnum Fjallabyggðar, slökkviliðsstjóra Fjallabyggðar, Íþróttamiðstöð Fjallabyggðar, Skálarhlíð, íbúðakjarna við Lindargötu 2, Hornbrekku, björgunarsveitinni Strákum, björgunarsveitinni Tindi, Grunn- og leikskóla Fjallabyggðar, lögreglu og aðgerðarstjórn Almannavarnarnefndar á Akureyri.

Í greinagerðum er farið yfir stöðuna sem upp kom, verkefni, skemmdir og nauðsynlegar úrbætur varðandi skipulag, samhæfingu, starfshætti og tækjabúnað.

Einnig lagt fram vinnuskjal bæjarstjóra, dags. 03.01.2020 með samantekt og tillögum að úrbótum er snúa að sveitarfélaginu.

Bæjarráð þakkar greinargóðar upplýsingar og yfirferð. Aðilar eru sammála um að aðgerðir hafi tekist vel en ljóst er að mikilvægt er að yfirfara skipulag, starfshætti og samhæfingu þjónustustofnana, viðbragðsaðila og annarra sem gegna veigamiklu hlutverki þegar almannavarnarástand skapast í sveitarfélaginu.

Bæjarráð samþykkir að skipa nýjar vettvangsstjórnir í Ólafsfirði og Siglufirði. Fela bæjarstjóra að senda bréf á Rarik, Mílu og Orkusöluna vegna Skeiðsfossvirkjunar og fara fram á útskýringar og viðeigandi úrbætur.

Bæjarráð samþykkir að fela deildarstjóra tæknideildar að yfirfara og meta þörf fyrir varaafl í stofnarnir sveitarfélagsins og leggja fyrir bæjarráð.

Bæjarráð samþykkir að fela deildarstjóra tæknideildar að óska eftir upplýsingum frá einstaklingum, fyrirtækjum og öðrum lögaðilum um tjón sem varð í óveðrinu sem lið í greinargerð sveitarfélagsins til átakshóps fimm ráðuneyta sem stofnaður var í kjölfar óveðurs um miðjan desember sl.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 635. fundur - 15.01.2020

Lögð fram greinargerð frá Rauða Krossinum í Eyjafirði dags. 10. janúar 2020. Einnig drög að bréfum bæjarstjóra til Mílu, Orkusölunnar og Rarik dags. 10.01.2020.

Bæjarráð þakkar Rauða Krossinum í Eyjafirði greinargóð svör.

Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi drög að bréfum og felur bæjarstjóra að senda á Mílu, Orkusölunnar og Rarik.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 636. fundur - 21.01.2020

Lögð fram greinagerð HSN vegna óveðurs dagana 10.-12. desember sl., dags. 15.01.2020

Bæjarráð þakkar HSN greinagóða yfirferð.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 637. fundur - 28.01.2020

Lagt fram svar Orkusölunnar, dags. 17.01.2019 við fyrirspurn sveitarfélagsins vegna óveðurs á Norðurlandi 10. - 12. desember sl.

Bæjarráð þakkar svarið.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 638. fundur - 04.02.2020

Lögð fram svarbréf Rarik og Mílu dags. 28.01.2020 við erindi Fjallabyggðar dags. 10.01.2020 vegna óveðurs þann 10.- 12. desember sl.

Bæjarráð þakkar Rarik og Mílu svörin.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 640. fundur - 18.02.2020

Lögð fram drög af bréfi við svari frá Rarik frá 28. janúar sl.

Bæjarráð samþykkir drögin og felur bæjarstjóra að senda bréfið.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 642. fundur - 03.03.2020

Lagt fram vinnuskjal deildarstjóra tæknideildar dags. 09.01.2020 varðandi varaafl í stofnunum sveitarfélagsins.

Bæjarráð samþykkir kostnað kr. 600.000 vegna varaafls í íþróttamiðstöð í Ólafsfirði og í búsetukjarna að Lindargötu 2, Siglufirði og vísar í viðauka nr. 5/2020 við deild 31250, lykill 4965 og deild 31530, lykil 4965, kr. 300.000 á hvorn lykil, sem mætt er með lækkun á handbæru fé.

Bæjarráð felur bæjarstjóra, deildarstjóra tæknideildar og deildarstjóra félagsmála að hefja viðræður við forstjóra HSN vegna þátttöku og útfærslu á varaafli í Hornbrekku Ólafsfirði.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 733. fundur - 10.03.2022

Bæjarstjóri lagði fram og fór yfir svör RARIK, Orkusölunnar og MÍLU við spurningum bæjarstjóra um framgang verkefna sem fram komu að ráðast ætti í eftir óveður í lok árs 2019.
Lagt fram til kynningar
Bæjarráð þakkar framlögð svör sem og þær aðgerðir sem RARIK, Orkusalan og MÍLA hafa ráðist í frá byrjun árs 2020.