Úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga og sérreglur sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta 2020/2021

Málsnúmer 2009034

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Fjallabyggðar - 667. fundur - 15.09.2020

Lagt fram erindi Jóns Þrándar Stefánssonar fh. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, dags. 11.09.2020 er varðar úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga og sérreglur sveitarfélags um úthlutun byggðakvóta 2020/2021.

Samkvæmt reglugerð nr. 731/2020, um úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2020/2021, skal sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra úthluta aflamarki sem nemur allt að 4.617 þorskígildistonnum af botnfiski til að ráðstafa til byggðarlaga sem falla undir skilyrði a. og b. liðar í 1. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar. Að svo stöddu er ekki ljóst hvernig skipting byggðakvóta til byggðarlaga verður en útreikningur á aflaheimildum til byggðarlaga mun grundvallast á 4. gr. áðurnefndrar reglugerðar. Bent skal á að breytingar verða á úthlutun aflaheimilda til byggðarlaga frá því sem var á fiskveiðiárinu 2019/2020 þar sem heildarráðstöfun skerðist sem nemur 757 þorskígildistonnum og því mega byggðarlög búast við því að byggðakvóti byggðarlaga skerðist frá því sem var á fiskveiðiárinu 2019/2020 eða falli jafnvel niður.
Sú breyting er gerð á umsóknarferli frá fyrra ári að ekki er þörf á að sveitarstjórnir sæki sérstaklega um byggðakvóta heldur mun ráðuneytið tilkynna sveitarstjórnum hversu miklar aflaheimildir koma í hlut hvers byggðarlags sem undir þær falla þegar sú skipting liggur fyrir. Reiknað er með tilkynning úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2020/2021 verði send til sveitarstjórna fyrir lok októbermánaðar.

Reglugerð nr. 728/2020, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2020/2021, gildir um úthlutun byggðakvóta til einstakra fiskiskipa. Megintilgangur þeirra reglna sem fram koma í nefndri reglugerð er að tryggja að fiskiskip sem gerð eru út frá tilteknum byggðarlögum, og landað hafa afla þar, fái hlut í byggðakvóta sem landað er til vinnslu í viðkomandi byggðarlagi.
Ráðherra getur heimilað á grundvelli rökstuddra tillagna sveitarstjórna að vikið sé frá almennum reglum samkvæmt tillögum hlutaðeigandi sveitarstjórna enda rökstyðji sveitarstjórnir tillögur sínar og sýni fram á að skilyrði lögð er séu byggð á málefnalegum og staðbundnum ástæðum.
Ráðuneytið beinir þeim tilmælum til bæjar- og sveitarstjórna að horfa til þeirrar mögulegu verðmætaaukningar og atvinnusköpunar sem hafa má af byggðakvóta, ef reglur um ráðstöfun byggðakvótans verða mótaðar og minnir á að megintilgangur byggðakvóta er að stuðla að aukinni atvinnusköpun í viðkomandi byggðarlagi.
Vilji sveitarstjórn leggja til við ráðuneytið að sett verði sérstök skilyrði varðandi úthlutun byggðakvóta sveitarfélagsins eða einstakra byggðarlaga skal hún skila rökstuddum tillögum sínum til ráðuneytisins eigi síðar en 15. október 2020. Tillögur sem berast eftir þann tíma verða ekki teknar til greina. Með vísan til þess að þar sem úthlutun liggur ekki fyrir mun ráðuneytið hafa samband við hluteigandi sveitarstjórnir í þeim tilvikum ef að mati ráðuneytisins þörf verður á verulegum breytingum á tillögum sveitarstjórna í kjölfar tillkynningar um úthlutun. Að óbreyttu er stefnt að því að málsmeðferð ráðuneytisins vegna tillagna sveitarstjórna verði lokið samhliða úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga.

Bæjarráð samþykkir að óska eftir sameiginlegri rökstuddri umsögn frá útgerðum og vinnslum í sveitarfélaginu sem hyggjast veiða og vinna byggðarkvóta, um sérstökum skilyrðum varðandi úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2020/2021. Bæjarráð beinir því til viðkomandi aðila að ábyrgð á að samtal fari fram er í þeirra höndum. Bæjarráð felur bæjarstjóra að senda bókun bæjarráðs til allra hagaðila. Umsögn þarf að berast til sveitarfélagsins fyrir 1. október nk. Umsögnin verður birt á vef sveitarfélagsins.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 671. fundur - 13.10.2020

Lagðar fram umsagnir frá fiskvinnslustöðvum og útgerðaraðilum varðandi umsókn um sérreglur sveitarfélagsins til ráðuneytisins vegna úthlutunar á byggðakvóta vegna fiskveiðiársins 2020/2021.

Bæjarráð samþykkir að vinna tillögu að útfærslu að sérreglum í samræmi við umræður fundarins og leggja fyrir næsta fund bæjarstjórnar þann 15. október nk.

Bæjarstjórn Fjallabyggðar - 192. fundur - 15.10.2020

Bæjarstjóri sótti um frest til að skila inn sérreglum þar sem ekki hefur verið úthlutað byggðakvóta til byggðalagsins. Frestur er veittur til 30. október 2020.

Forseti bar upp tillögu þess efnis að fresta málinu þar til úthlutun hefur farið fram.

Bæjarstjórn samþykkir tillöguna með 7 atkvæðum.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 673. fundur - 03.11.2020

Afgreiðslu frestað.

Veittur hefur verið frestur til að skila inn sérreglum sveitarfélags þar sem úthlutun byggðakvóta 2020/2021 liggur ekki fyrir.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 675. fundur - 17.11.2020

Bæjarráð frestar afgreiðslu málsins þar sem ekki liggur fyrir úthlutun frá ráðuneytinu vegna byggðakvóta fiskveiðiársins 2020/2021.

Bæjarstjórn Fjallabyggðar - 193. fundur - 18.11.2020

Lagt til að málinu verði frestað þar sem ekki liggur fyrir úthlutun á byggðakvóta.

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða með 7 atkvæðum.

Bæjarstjórn Fjallabyggðar - 194. fundur - 01.12.2020

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða með 7 atkvæðum að veita bæjarráði fullnaðarafgreiðslu málsins.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 677. fundur - 08.12.2020

Lagt fram erindi Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, dags. 30.11.2020 er varðar úthlutun byggðakvóta 2020/2021.

Til úthlutunar koma 46 tonn til Ólafsfjarðar og 140 tonn til Siglufjarðar.

Bæjarstjóri fór yfir ástæður minni úthlutunar byggðakvóta í Ólafsfjörð. Úthlutun þangað byggir á þeim reglum sem fram koma í reglugerð nr. 731/2020 um úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2020/2021. Þar segir í A-lið 4. gr. að reikna skuli punkta og aflaheimildir taki mið af þeim. Það sem nú gerir mál flóknari er samdráttur í heildaraflaheimildum sem til ráðstöfunar eru í almennum byggðakvóta. En umræddar heimildir fara úr 5.374 þorskígildistonnum í 4.810 þorskígildistonn. Þar sem reglur í E-lið 4. gr. setja hins vegar mörk til viðbótar við skilyrði A-liðar þannig að takmarkanir eru settar á annars vegar skerðingu til byggðarlaga með færri en 400 íbúa þannig að skerðing kemur fram að fullu hjá byggðarlögum yfir 400 íbúa. Reglur í B og C-liðum 4. gr. reglugerðarinnar snúa að samdrætti í vinnslu á rækju og skel og þá er ákveðnum heimildum ráðstafað á grundvelli þessa í 70, 140 eða 210 þorskígildistonna úthlutun ef réttur er til staðar. Þessi úthlutun hefur líka áhrif á það sem kemur til skiptanna skv. A-lið 4. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt reglum F-lið 4. gr. reglugerðarinnar þá er þau byggðarlög sem fá sértækan byggðakvóta ekki skert þannig að þau fá ekki skerðingu á úthlutun sem líka hefur áhrif á það sem kemur til úthlutunar á grundvelli A-liðar 4. gr. reglugerðarinnar.
Fyrrgreint ber með sér að skerðing er ekki hlutfallsleg milli byggðarlaga og niðurstaðan sú að sum byggðarlög fá töluverða skerðingu á grundvelli punkta útreiknings skv. A-lið 4. gr. öll með yfir 400 íbúa og Ólafsfjörður því ekki einsdæmi í þessu sambandi.
Breyting á milli ára (hlutfallsleg af heildarráðstöfun) hjá nokkrum byggðarlögum sem eru í svipaðri stöðu og Ólafsfjörður er:
Stokkseyri -64,2%
Þorlákshöfn -39,6%
Garður -46,2%
Vogar -61,8%
Ólafsvík -71,0%
Blönduós -49,0%
Ólafsfjörður -59,7%

Vert er að ítreka að samdráttur í tonnum er mismunandi hjá framangreindum byggðarlögum sem og þeir punktar sem hverju byggðarlagi eru reiknaðir sbr. A-lið 4. gr. reglugerðarinnar og úthlutun byggir á.

Bæjarráð samþykkir að fara þess á leit við Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið að eftirfarandi sérreglur verði settar í reglugerð 728/2020:

a)
Ákvæði 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar breytist og verður: Afli af fiskiskipum sem landað er í sveitarfélagi af bátum sem ekki eru skráðir innan viðkomandi sveitarfélags á sama tíma, telst ekki til landaðs afla samkvæmt 1. mgr.

b)
Ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 4. gr. breytist og verður: Skipting þess aflamarks, sem nú kemur í hlut byggðarlags, auk þess aflamarks byggðarlagsins sem kann að vera eftir af úthlutun fyrra fiskveiðiárs, skal að öðru leyti fara fram til einstakra fiskiskipa sem uppfylla skilyrði 1. gr., sbr. og reglur um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í einstökum sveitarfélögum sem ráðuneytið staðfestir samkvæmt 2.-3. gr., eftir því sem við á, og skal skipt hlutfallslega af því aflamarki sem fallið hefur til viðkomandi byggðarlags, miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið innan viðkomandi sveitarfélags á tímabilinu 1. september 2019 til 31. ágúst 2020, þó að hámarki 80.000 þorskígildiskíló á bát.

c)
Ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar breytist og verður: Fiskiskipum er skylt að landa þeim afla sem telja á til byggðakvóta til vinnslu innan sveitarfélagsins á tímabilinu frá 1. september 2020 til 31. ágúst 2021.