Fræðslu- og frístundanefnd Fjallabyggðar

49. fundur 08. janúar 2018 kl. 16:30 - 19:00 í Tjarnarborg Aðalgötu 13 Ólafsfirði
Nefndarmenn
  • S. Guðrún Hauksdóttir formaður, D lista
  • Hjördís Hanna Hjörleifsdóttir aðalmaður, D lista
  • Sæbjörg Ágústsdóttir varaformaður, S lista
  • Nanna Árnadóttir aðalmaður, S lista
  • Steinunn María Sveinsdóttir varamaður, S lista
  • Rósa Jónsdóttir áheyrnarfulltrúi, B lista
Starfsmenn
  • Ríkey Sigurbjörnsdóttir deildarstjóri fræðslu- frístunda- og menningarmála
Fundargerð ritaði: Ríkey Sigurbjörnsdóttir deildarstjóri fræðslu- frístunda og menningarmála
Helga Hermannsdóttir boðaði forföll og Steinunn María Sveinsdóttir mætti í hennar stað.

1.Starfsemi Neon 2017-2018

Málsnúmer 1708050Vakta málsnúmer

Deildarstjóri fræðslu-, frístunda- og menningarmála fór yfir starf vetrarins í félagsmiðstöðinni. Ágæt mæting hefur verið í vetur. Deildarstjóri kynnti hugmynd umsjónarmanns, Daníelu Jóhannsdóttur, um að fjáröflun fyrir Samfésferð í lok mars verði í formi góðgerðarviku, þar sem unglingar taka að sér ýmis góðverk fyrir einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir gegn styrk til ferðarinnar. Útfæra þarf góðgerðavikuna og auglýsa í samfélaginu.

2.Innsent erindi vegna starfsemis félagsmiðstöðvarinnar Neon

Málsnúmer 1711023Vakta málsnúmer

Erindi hefur borist frá foreldri þar sem bent er á að vegna þess að opnunartími félagsmiðstöðvar sé til kl. 22.00 séu unglingar á leið heim með rútu eftir að útivistartíma þeirra lýkur. Í erindinu er lagt til að flýta starfseminni um hálftíma eða stytta opnun þannig að henni ljúki kl. 21.30. Einnig komu fram athugasemdir varðandi staðsetningu félagsmiðstöðvarinnar. Fræðslu- og frístundanefnd þakkar fyrir erindið en telur ekki ástæðu til að breyta fyrirkomulagi og starfsemi félagsmiðstöðvarinnar að svo stöddu.

3.Samstarf Mundo-ferðaskrifstofu við Fjallabyggð

Málsnúmer 1712045Vakta málsnúmer

Undir þessum lið sat Haukur Sigurðsson forstöðumaður íþróttamiðstöðva.
Innsent erindi frá Mundo-ferðaskrifstofunni þar sem óskað er eftir samstarfi við Fjallabyggð. Um er að ræða móttöku á 10-15 spænskum ungmennum á aldrinum 13-16 ára sumarið 2018. Þau myndu dvelja í Fjallabyggð í mánuð, á jafnmörgum heimilum. Mundo sér um að finna fjölskyldur fyrir ungmennin og verður með manneskju sem sinnir þeim á meðan á dvöl stendur ef eitthvað kemur upp á. Með erindinu er óskað eftir því að Fjallabyggð lofi spænsku ungmennunum að taka þátt í unglingavinnunni eins og íslensku „systkinum“ þeirra.
Fræðslu- og frístundarnefnd samþykkir erindi ferðaskrifstofunnar og felur deildarstjóra fræðslu-, frístunda- og menningarmála að ræða við forsvarsmenn verkefnisins.

4.Heilsueflandi samfélag

Málsnúmer 1609008Vakta málsnúmer

Undir þessum lið sat Haukur Sigurðsson forstöðumaður íþróttamiðstöðva.
Framundan er stofnun stýrihóps fyrir verkefnið Heilsueflandi samfélag og formleg umsókn um þátttöku í verkefninu. Deildarstjóri fræðslu-, frístunda- og menningarmála leggur til að stofnaður verði 5 manna stýrihópur. Óskað verður eftir að heilsugæslan tilnefni fulltrúa í stýrihópinn, leik- og grunnskólinn sameiginlega einn fulltrúa. Þá verði einn fulltrúi eldri borgara í stýrihópnum og einn fulltrúi frá aðildafélögum UÍF. Þá mun deildarstjóri fræðslu-, frístunda- og menningarmála eiga sæti í stýrihópnum fyrir hönd sveitarfélagsins og stýra starfi hans. Stefnt er að fyrsta fundi stýrihóps í lok þessa mánaðar.

Á fundi fræðslu- og frístundanefndar 22. nóvember s.l. lagði nefndin til að í tengslum við innleiðingu á verkefninu Heilsueflandi samfélag verði, við gerð fjárhagsáætlunar, gert ráð fyrir afnotum af tækjasölum íþróttamiðstöðva þar sem boðið verði upp á leiðsögn á notkun heilsuræktartækja og áhalda á afmörkuðum auglýstum tímum.
Ákveðið að frítt verði í ræktina 3 daga í hvorri líkamsrækt. Dagarnir verða auglýstir. Einnig var ákveðið að bjóða upp á leiðsögn á líkamsræktartækin seinnipart þessara daga þar sem leiðbeinendur verða til staðar.

Fræðslu og frístundanefnd leggur til að farið verði í endurskipulagningu á tækjabúnaði líkamsræktarstöðvanna. Þeirri vinnu verði lokið sem fyrst. Þá felur nefndin deildarstjóra og forstöðumanni íþróttamiðstöðva að ræða við formann Kraftlyftingarfélags Ólafsfjarðar um æfingaraðstöðu félagsins.

5.Viðauki við gjaldskrá Íþróttamiðstöðva 2017

Málsnúmer 1703079Vakta málsnúmer

Viðauki við gjaldskrá íþróttamiðstöðva 2017. Á fundi nefndarinnar 5. desember s.l. var bókað að lagfæra þyrfti orðalag í texta gildandi viðauka með gjaldskrá íþróttamiðstöðva.

Fræðslu- og frístundanefnd samþykkti að taka 1. grein út úr viðauka við gjaldskrá og gera að sjálfstæðu skjali undir heitinu "Afsláttur til aðildarfélaga ÚÍF á líkamsræktarkortum". Textinn í hinu nýja skjali yrði svohljóðandi:

Aðildarfélög ÚÍF geta sótt um afslátt á líkamsræktarkortum vegna iðkenda sem sannarlega skara framúr og undirbúa sig fyrir Íslands- og bíkarmót sérsambanda ÍSÍ, undirbúning fyrir landsliðsverkefni eða landsliðsúrtak. Afsláttur til hvers iðkanda er 30% af gjaldskrá. Aðildarfélög sækja um afsláttinn á þar til gerðu eyðublaði á heimasíðu Fjallabyggðar þar sem umsókn er rökstudd. Kortið gildir hámark 6 mánuði í einu.
Afreksíþróttafólk samkvæmt skilgreiningu ÍSÍ (Flokkur 3: Afreksmaður á íslenskan mælikvarða, sá sem er í fremstu röð í sinni grein á Íslandi, á sæti í afreks- og landsliðshópum viðkomandi íþróttagreinar og keppir reglulega fyrir íslands hönd á erlendri grundu), skulu fá frítt í líkamsrækt. Börn yngri en 15 ára fá ekki aðgang að líkamsræktinni.

Nefndin samþykkir gerðar breytingar á viðauka.

6.Ytra mat á Leikskóla Fjallabyggðar

Málsnúmer 1610083Vakta málsnúmer

Undir þessum lið sátu Olga Gísladóttir leikskólastjóri og Kristín María Hlökk Karlsdóttir aðstoðarleikskólastjóri.
Niðurstöður úr ytra mati sem Menntamálastofnun framkvæmdi á Leikskóla Fjallabyggðar hafa borist. Farið yfir helstu niðurstöður. Sveitarfélagið stendur fyrir kynningarfundi á niðurstöðum ytra matsins fyrir starfsfólk leikskólans, foreldra, sveitarstjórn og fræðslu- og frístundanefnd. Fundurinn mun fara fram í Tjarnarborg, miðvikudaginn 17. janúar kl. 17.00. Matsaðilar munu kynna niðurstöður.

7.Samþætting á skóla og frístundastarfi

Málsnúmer 1708013Vakta málsnúmer

Undir þessum lið sátu Jónína Magnúsdóttir skólastjóri Grunnskóla Fjallabyggðar og Erla Gunnlaugsdóttir fulltrúi kennara.
Farið var yfir skipulag Frístundar, samþætt skóla og frístundastarf nemenda í 1.-4.bekk. Í desember skráðu foreldrar börn sín á ný í Frístund. Dæmi eru um ný viðfangsefni eins og leikræna tjáningu, skák, spil og borðspil og slagverkshóp. Flest eru 62 börn skráð í Frístund sem er 69% nemenda í 1.-4.bekk. Starfið fer vel af stað á nýju ári.

8.Málefni Grunnskóla Fjallabyggðar

Málsnúmer 1708017Vakta málsnúmer

Skólastjóri kynnti LIT - átaksverkefni í grunnskóla. LIT stendur fyrir listir - innblástur - tækni.
Tilgangur verkefnisins er að bæta námsárangur nemenda í unglingadeild, virkja nemendur á skapandi hátt til að leita leiða til að efla sig í námi og bæta árangur. Einnig er tilgangurinn að huga að umbótum á skólastarfi í Grunnskóla Fjallabyggðar með skapandi starf að leiðarljósi. Verkefnið felur í sér tengingu við samfélagið í Fjallabyggð og aðkomu aðila í samfélaginu sem vilja leggja verkefninu lið.
Fræðslu- og frístundanefnd fagnar framtakinu.

9.Tillögur Velferðarvaktarinnar um aðgerðir til að auka hlutfall nemenda sem ljúka framhaldsskólanámi

Málsnúmer 1712014Vakta málsnúmer

Bréf frá Velferðarvaktinni lagt fram til kynningar.
Velferðarvaktin var stofnuð að frumkvæði stjórnvalda snemma árs 2009 til að fylgjast með afleiðingum efnahagshrunsins á heimilin í landinu. Velferðarvaktin telur mikilvægt að sem flest ungmenni geti stundað nám við hæfi og þannig stuðlað að farsælu lífi til framtíðar. Velferðarvaktin setur fram lista yfir 14 aðgerðir sem stuðlað gætu að bættu hlutfalli nemenda sem ljúka framhaldsskólanámi.

10.Erindi frá nemendaráði vegna húsnæðis Neons

Málsnúmer 1801019Vakta málsnúmer

Erindi hefur borist frá nemendaráði vegna húsnæðis Neons.
Í bréfinu fer nemendaráð, fyrir hönd nemenda í 8.-10.bekk Grunnskóla Fjallabyggðar, yfir galla þess húsnæðis sem nú er nýtt undir félagsmiðstöð. Nemendaráð hvetur til þess að framtíðarhúsnæði í eigu Fjallabyggðar verði fundið undir starfsemina sem einnig mætti nýta undir tómstundastarfsemi annarra aldurshópa og að hugsað sé um aðgengi fyrir alla að því húsnæði.
Fræðslu- og frístundanefnd þakkar nemendaráði fyrir málefnalegt og gott bréf. Unnið er að úrlausn á framtíðarhúsnæði Neons.

Fundi slitið - kl. 19:00.