Bæjarráð Fjallabyggðar

648. fundur 21. apríl 2020 kl. 08:15 - 09:10 í fjarfundi
Nefndarmenn
  • Helga Helgadóttir formaður, D lista
  • Ingibjörg Guðlaug Jónsdóttir varamaður, I lista
  • Jón Valgeir Baldursson aðalmaður, H lista
Starfsmenn
  • Guðrún Sif Guðbrandsdóttir deildarstjóri stjórnsýslu- og fjármála
  • Elías Pétursson bæjarstjóri
Fundargerð ritaði: Guðrún Sif Guðbrandsdóttir deildarstjóri stjórnsýslu og fjármála
Nanna Árnadóttir boðaði forföll.

1.Vatnsveita í sumarhús, Hólkoti

Málsnúmer 2004018Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Halldóru Konráðsdóttur fh. hluta sumarbústaðaeigenda í Hólkoti Ólafsfirði, dags. 06.04.2020 þar sem óskað er eftir því að þeir sumarhúsaeigendur sem fengu heitt vatn á sínum tíma fái tengt kalt vatn sem fyrst.

Lagt fram vinnuskjal deildarstjóra tæknideildar, dags. 06.04.2020 þar sem fram kemur að heitt vatn var lagt að öllum sumarhúsum í Hólkoti árið 2018 ásamt lögnum fyrir kalt vatn sem sumarhúsaeigendur geta tengst inn á.

Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra og deildarstjóra tæknideildar að vinna málið áfram og leggja fyrir bæjarráð.

2.Umsókn um endurgreiðslu í Skipulagssjóð vegna vinnu við aðalskipulag

Málsnúmer 2004017Vakta málsnúmer

Lagður fram verksamningur um endurskoðun aðalskipulags Fjallabyggðar við Teiknistofu arkitekta Gylfa Guðjónssonar og félaga ehf. ásamt uppfærðri verk- og kostnaðaráætlun.

Bæjarráð samþykkir að fela deildarstjóra tæknideildar að sækja um endurgreiðslu í skipulagssjóð vegna vinnu við aðalskipulag Fjallabyggðar.

3.Útboð á vátryggingum Fjallabyggðar

Málsnúmer 2003046Vakta málsnúmer

Lagt fram tilboð og verklýsing Consello tryggingaráðgjafar vegna útboðs í vátryggingar hjá sveitarfélaginu dags. 24.03.2020. Áætlaður kostnaður Consello er kr. 1.100.000.

Lagt fram vinnuskjal deildarstjóra stjórnsýslu- og fjármáladeildar dags. 07.04.2020 þar sem fram kemur að vátryggingar sveitarfélagsins þarf að bjóða út á EES svæðinu. Lagt er til að gengið verði til samninga við Consello ehf. sem hefur mikla reynslu af að bjóða út tryggingar fyrir sveitarfélög samkvæmt upptalningu í verklýsingu.

Bæjarráð samþykkir að ganga til samning við Consello ehf. vegna útboðs á vátryggingum sveitarfélagsins og að kostnaður kr. 1.100.000 verði settur í viðauka nr. 8/2020 og bókist á málaflokk 21810, lykil 4391 og verði mætt með lækkun á handbæru fé og vísar honum til umfjöllunar og afgreiðslu bæjarstjórnar.

4.Launayfirlit tímabils - 2020

Málsnúmer 2002025Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar yfirlit launa fyrir tímabilið janúar til mars 2020.

5.Lóð Leikskóla Fjallabyggðar Leikhólar

Málsnúmer 2001100Vakta málsnúmer

Jón Valgeir Baldursson vék af fundi undir þessum lið .

Lagt fram vinnuskjal deildarstjóra tæknideildar, dags. 14.04.2020, þar sem fram kemur að tilboð voru opnuð í verkið „Endurgerð leikskólalóðar“ í Ólafsfirði þriðjudaginn 14. apríl sl.. Eftirfarandi tilboð bárust:
Sölvi Sölvason 43.984.200
Smári ehf. 47.744.467
Kostnaðaráætlun var 38.965.803

Deildarstjóri tæknideildar leggur til við bæjarráð að tilboði lægstbjóðanda verði tekið.

Bæjarráð samþykkir að taka tilboði lægstbjóðanda, Sölva Sölvasonar.

6.Líkamsræktarstöð - Leigja tæki og tól

Málsnúmer 2003079Vakta málsnúmer

Á 184. fundi bæjarstjórnar samþykkti bæjarstjórn tillögu meirihluta þess efnis að vísa afgreiðslu 647. fundar bæjarráðs á málinu Líkamsræktarstöð - Leigja tæki og tól til endurskoðunar í bæjarráði í ljósi þess að líkamsræktarstöðvar verða líklega ekki opnaðar í bráð.

Bæjarráð samþykkir að fela deildarstjóra fræðslu,- frístunda- og menningarmála og forstöðumanni íþróttamannvirkja að vinna málið áfram í samræmi við umræður á fundinum.

7.Gervigrasvöllur Fjallabyggð

Málsnúmer 2004001Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Vals Þórs Hilmarssonar, dags. 31.03.2020 er varðar framkvæmdaáætlun Fjallabyggðar fyrir árið 2020, einkum og sér í lagi áætlun um uppbyggingu keppnisvallar með gervigrasi.

Í lok erindis varpar bréfritari fram eftirfarandi spurningum:

-
Liggur fyrir greining á þörf fyrir keppnisvöll með gervigrasi?
-
Var ákvörðunin um uppbyggingu gervigrasvallar tekin út frá kynjaðri fjárhagsáætlun?
-
Liggur fyrir fullnægjandi kostnaðaráætlun vegna heildar framkvæmdarinnar?
-
Hver er áætlaður árlegur rekstrarkostnaður eftir framkvæmdina?
-
Hefur verið skoðað hvaða aðrir kostir eru í stöðunni og hver sá kostnaður mögulega væri þ.m.t. rekstrarkostnaður?

Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að vinna drög að svari og leggja fyrir bæjarráð.

8.Áætlun hafnaryfirvalda um móttöku úrgangs-og farmleifa frá skipum

Málsnúmer 1904048Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar erindi Umhverfisstofnunar, dags. 26.03.2020 þar sem fram kemur að stofnunin hefur staðfest áætlun Fjallabyggðar um móttöku og meðhöndlun úrgangs og farmleifa frá skipum, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 1200/2014.

9.Staðfesting á útsvarshlutfalli við álagningu 2020 vegna tekna á árinu 2019

Málsnúmer 2004020Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi frá Ríkisskattstjóra, dags. 02.04.2020 vegna útsvarshlutfalls við álagningu 2020, vegna tekna á árinu 2019. Óskað er eftir upplýsingum um endanlegt útsvarshlutfall en sveitarfélögum er heimilt að breyta áður ákvörðuðu útsvarshlutfalli.

Bæjarráð staðfestir að endanlegt útsvarshlutfall verði 14,48% líkt og samþykkt var í bæjarstjórn við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2020 og felur deildarstjóra stjórnsýslu- og fjármála að svara erindinu.

10.Frestun aðalfundar Lánasjóðsins 2020

Málsnúmer 2004022Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Lánasjóðs sveitarfélaga, dags. 07.04.2020 þar sem fram kemur að Aðalfundi Lánasjóðs sveitarfélaga ohf. sem boðað var til fimmtudaginn 26. mars 2020 kl. 15:45 á Grand Hótel Reykjavík, var frestað um óákveðinn tíma með tölvupósti þann 16. mars 2020. Samkvæmt samþykktum Lánasjóðsins ber að halda aðalfund fyrir lok apríl ár hvert. Í ljósi aðstæðna á landinu öllu og ákvörðun Almannavarna um að framlengja samkomubanni til 4. maí, þá muni ekki nást að halda fund á þeim tíma sem segir í samþykktum. Samkvæmt 84. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög skal halda aðalfund eigi síðar en innan átta mánaða frá lokun hvers reikningsár eða fyrir lok ágúst. Nýr fundardagur verður tilkynntur til allra sveitarstjórna þegar samkomubanni hefur verið aflétt.

Þá hefur Stjórn Lánasjóðsins ákvað á fundi sínum 9. mars 2020 að leggja til við aðalfund að ekki verði greiddur út arður til hluthafa vegna afkomu 2019. Þessi ákvörðun var tekin til að styrkja stöðu sjóðsins og tryggja vöxt eigin fjárs. Stjórnin sér fram á að lækkun á eigin fjárstöðu sjóðsins geti orðið takmarkandi þáttur við að þjónusta stærstu hluthafa sína á næstu árum.
Lánasjóður sveitarfélaga er nú sem áður, til staðar fyrir sveitarfélög landsins og stofnanir þeirra við að tryggja þeim lánsfé á hagstæðum kjörum til verkefna sem hafa almenna efnahagslega þýðingu. Fjárhagsstaða sjóðsins er sterk og geta hans til að afla lánsfjár á markaði er góð. Sjóðurinn hefur þegar hækkað áætlun sína um skuldabréfaútgáfu fyrir árið 2020 vegna væntinga um aukna eftirspurn eftir lánum. Fyrir utan hefðbundið lánsframboð þá getur Lánasjóðurinn veitt lán til að fjármagna afborganir ársins af skuldabréfaflokkum sínum ásamt því að veita skammtímalán eða lán af eigin fé sem bjóða uppá aukinn sveigjanleika.

11.Átak í merkingu gönguleiða á Norðurlandi

Málsnúmer 2004028Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Markaðsstofu Norðurlands dags. 15.04.2020 þar sem Markaðsstofa Norðurlands vill koma á framfæri hugmynd um átak í merkingu gönguleiða á Norðurlandi. Átakið hefur tvíþættan tilgang - annars vegar að styrkja innviði ferðaþjónustunnar á Norðurlandi og hins vegar til að vekja athygli á þeim fjölda gönguleiða sem eru í boði á Norðurlandi. Markaðsstofan hefur nú þegar frétt af áformum nokkurra sveitarfélaga um að gera eitthvað í þessa veru. Með því að sameina kraftana undir einum hatti er hægt að auka slagkraft verkefnisins út á við og nýta í markaðssetningu. Hugmynd að útfærslu verkefnisins er að sveitarfélög noti næstu vikur til þess að undirbúa átakið, þannig að í byrjun maí væri hægt að tilkynna um þetta sameiginlega átak í fréttum og á samfélagsmiðlum. Framkvæmdin færi svo að mestu fram í júní og meðan á henni stæði, væri hægt að birta myndir af starfinu frá mismunandi stöðum þar sem verið væri að vinna - halda þannig kynningunni lifandi á meðan á verkefninu stendur. Í lok júní yrði svo ákveðinn dagur sem markar enda átaksins, með n.k. uppgjöri á afrakstrinum - hversu margar nýjar gönguleiðir voru merktar o.s.frv. Jafnframt yrði vísað á gagnagrunninn þar sem hægt verður að finna upplýsingar um allar þessar leiðir á aðgengilegan hátt. Auðvitað er hægt að vinna áfram að uppbyggingu og merkingu leiða eftir þessa lokadagsetningu, en átakinu sem slíku væri formlega lokið. Sveitarfélög eru hvött til þess að staðfesta þátttöku í verkefninu fyrir 30. apríl nk.

Bæjarráð samþykkir að vísa erindinu til umfjöllunar vinnuhóps um viðspyrnu sveitarfélagins vegna Covid - 19.

12.Jöfnunarsjóður sveitarfélaga - óvissa um tekjur á árinu 2020.

Málsnúmer 2004030Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar erindi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga dags. 07.04.2020, þar sem fram kemur að vegna mikillar óvissa um áætlaðar tekjur í Jöfnunarsjóð á árinu 2020 verður að framkvæma nýja greiðsluáætlun vegna framlaga ársins 2020. Ljóst er að tekjur sjóðsins muni lækka nokkuð í ár miðað við fyrri spár. Þar sem erfitt er að spá fyrir um þróun skatttekna ríkissjóðs og útsvarstekna sveitarfélaga verður ekki unnt að gefa út nýja greiðsluáætlun fyrir sjóðinn vegna ársins 2020 fyrr en að nokkrum vikum liðnum. Í kjölfarið verða framlög ársins 2020 enduráætluð.

13.Aukinn kostnaður vegna endurvinnsluhráefna í Covid-19 faraldri

Málsnúmer 2004046Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Íslenska gámafélagsins (ÍGF), dags 17.04.2020, þar sem fram kemur að Umhverfisstofnun hefur gert áætlun vegna meðhöndlunar úrgangs og smithættu af úrgangi í heimsfaraldri eins og nú geisar og gert verklagsreglur vegna smithættu af sorpi og meðhöndlun úrgangs í heimsfaraldri. Þar kemur fram að flokkaður úrgangur sem berst á móttökustöðvar skuli geymdur í tvær vikur áður en hann er flokkaður.
Til að viðhalda góðri flokkun á meðan neyðarstig almannavarna varir og tryggja að endurvinnsluhráefnin komist til endurvinnslu leggur ÍGF til að kostnaði við geymslu hráefnisins verði skipt jafnt á milli sveitarfélagsins og ÍGF. Kostnaður sveitarfélagsins vegna þessa yrði því 8,46 kr/kg.

Bæjarráð samþykkir að verða við erindi Íslenska gámafélagsins. Aukin kostnaður, ef til kemur, rúmast að svo stöddu innan fjárhagsáætlunar 2020.

14.Minnkandi starfshlutfall - Atvinnuleysi

Málsnúmer 2004032Vakta málsnúmer

Lagt fram yfirlit og áætlun Sambands íslenskra sveitarfélaga yfir minnkað starfshlutfall og atvinnuleysi fyrir landið allt frá 20. janúar 2020 til 20. maí 2020. Í Fjallabyggð var hlutfall skráðra í minnkað starfshlutfall 7% í mars en verður samkvæmt áætlun 15.9% í apríl og 13.5% í maí.

Fundi slitið - kl. 09:10.