Bæjarráð Fjallabyggðar

364. fundur 12. nóvember 2014 kl. 16:00 í Ráðhúsi Fjallabyggðar, Gránugötu 24, Siglufirði
Nefndarmenn
  • Steinunn María Sveinsdóttir formaður, S lista
  • Kristinn Kristjánsson varaformaður, F lista
  • S. Guðrún Hauksdóttir aðalmaður, D lista
  • Sólrún Júlíusdóttir áheyrnarfulltrúi, B lista
  • Sigurður V Ásbjarnarson bæjarstjóri
Fundargerð ritaði: Sigurður Valur Ásbjarnarson bæjarstjóri

1.Fjárhagsáætlun 2015 og 2016 - 2018

Málsnúmer 1406040Vakta málsnúmer

Steinunn Sveinsdóttir vék af fundi vegna tengsla sinna við Síldarminjasafnið og tók Kristjana Sveinsdóttir sæti á fundinum. Kristinn Kristjánsson stjórnaði fundi.
Samningar við Síldarminjasafnið voru samþykktir óbreyttir frá frá árinu 2014 og er samningstíminn í samræmi við innkaupareglur bæjarfélagsins.

Steinunn tók við stjórn fundarins.

1. Lagðar fram upplýsingar um allar umsóknir um styrki fyrir árið 2015.
Um er að ræða styrki sem fagnefndir bæjarfélagsins gera tillögur um sem og styrki og samninga sem bæjarráð samþykkir f.h. bæjarstjórnar.

2. Lagðar fram upplýsingar um helstu viðhaldsverkefni á árinu 2015.
Áætlaður heildar kostnaður vegna viðhaldsverkefna er um 250 m.kr.
Í ramma fyrir árið 2015 er gert ráð fyrir um 30 m.kr.
Verkefnum verði forgangsraðað af deildarstjóra tæknideildar og verði þeim upplýsingum komið inn á fund bæjarráðs 25. nóvember.

3. Lagðar fram upplýsingar og áherslur um framkvæmdir á árinu 2015 - 2018.
Áætlaðar heildarframkvæmdir eru metnar af tæknideild um 250 m.kr.
Inni í þeirri tölu er ekki kostnaður við holræsaframkvæmdir.
Í ramma fyrir árið 2015 er gert ráð fyrir um 140 m.kr.

2.Úttekt á eignum bæjarfélagsins

Málsnúmer 1406057Vakta málsnúmer

Deildarstjóri tæknideildar leggur fram upplýsingar um áætlaðan kostnað við ástandsskoðun mannvirkja í eigu Fjallabyggðar.

Bæjarráð leggur til að ráðist verði í umrædda skoðun á næsta fjárhagsári og að gert verði ráð fyrir kaupum á þeirri vinnu í áætlun 2015.

3.Auglýsing umsóknar um byggðakvóta fiskveiðiársins 2014/2015

Málsnúmer 1409031Vakta málsnúmer

Í upphafi fundar var farið yfir fundargerð frá fundi með hagsmunaaðilum, um byggðakvóta, sem haldinn var mánudaginn 10. nóvember 2014.
Lagðar fram skriflegar ábendingar frá Sverri Sveinssyni frá 10. nóvember 2014 sem og svör við spurningum sem komu m.a. fram frá hagsmunaaðilum þann 10.11.2014 og frá ráðuneytinu þann 11.11.2014.
Einnig var lögð fram fundargerð atvinnumálanefndar frá 11.11.2014, en þar koma fram hugmyndir að tillögum að sérstökum skilyrðum sveitarfélagsins gagnvart úthlutun byggðakvóta samkv. 2. og 3. gr. reglugerðar nr. 652/2014.

Þar var bókað m.a. neðanritað.
Byggðakvóti fiskveiðiársins 2014/2015.
Bæjarstjóra verður falið að rita ráðuneytinu bréf með rökstuðningi þar sem lögð er áhersla á að veiðireynsla í Fjallabyggð sé óháð hvar landað er, innan marka sveitarfélagsins.

Atvinnumálanefnd hefur farið yfir tillögur sem fram komu m.a. á fundi með útgerðaraðilum og fiskverkendum Fjallabyggðar og er lögð áhersla á neðanritað.

Með vísan í reglugerð nr. 652/2014 er óskað eftir neðanrituðum breytingum vegna úthlutunar byggðakvóta fiskveiðiárið 2014/2015.

Óbreytt frá fyrra ári:
Lögð er áhersla á breytingu á orðalagi þannig að í stað orðsins byggðarlags í 1. mgr. 4. gr. komi orðið sveitarfélags sem og í 2. mgr. 4. gr. (Afli af fiskiskipum sem landað er í (byggðarlagi) verður: Afli af fiskiskipum sem landað er í sveitarfélaginu og svo frv.

Síðan breytist byggðarlag í sveitarfélag síðar í málsgreininni. Þannig að eftir breytingu hljóðar málsgreinin svo;
Afli af fiskiskipum sem landað er í sveitarfélaginu af bátum sem ekki eru skráðir innan sveitarfélagsins á sama tíma, telst ekki til landaðs afla samkvæmt 1. mgr.
Viðbót frá fyrra ári.
Auk þeirra breytinga sem að framan er getið í 4. gr. hér að ofan breytist reglugerðin þannig:

Lögð er áhersla á að byggðakvóti miðist að lágmarki við 1.5 tonn á bát.
Heimilt er að sama magni og lágmarksúthlutun, þ.e. 1.5 tonn, verði landað á fiskmarkað í Fjallabyggð eða til vinnslu í Fjallabyggð.

Af því sem eftir stendur að þeirri úthlutun lokinni verður síðan úthlutað á báta miðað við landaðan afla í sveitarfélaginu, þó ekki hærra en 20% af kvótaúthlutun miðað við landaðan afla hvers báts, en að hámarki 60 tonn.

Ef einhver óskar eftir tilteknu magni, sem er minna en hann á rétt á samkvæmt ákvæði þessu, þá skiptast eftirstöðvar þess hluta byggðakvótans jafnt á milli hinna umsækjendanna.

Jöfn skipti verði heimil.

Ákvæði um skriflegan samning við fiskkaupendur um magn sem landað verður hjá viðkomandi vinnsluaðila, þar sem fram komi að vinnsluaðili skuldbindi sig til að vinna aflann, með áritun bæjar- og sveitarstjórnar, breytist þannig að eftir þá setningu komi ný setning svohljóðandi:
Þó er vinnsluaðila heimil jöfn skipti á tegundum við annan vinnsluaðila og komi slík fyrirætlan fram í samningi sem eigandi fiskiskipa gerir við fiskkaupenda.

Ef úthlutaður kvóti (afli) er ekki veiddur fær viðkomandi aðili ekki úthlutað kvóta á næsta fiskveiðiári (2015/2016) nema til komi viðhlítandi skýringar (s.s. vegna vélarbilunar, veikinda o.þ.h.).

Fulltrúi D-lista, Þorsteinn Þorvaldsson leggur til að hámarks kvóti á hvern bát verði 50 tonn. Einnig leggur hann áherslu á að komið verði upp virku eftirliti með því að athuga hvort aðilar gerist brotlegir við nýtingu byggðakvótans.

Atvinnumálanefnd vísar framkomnum hugmyndum til endanlegrar afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar.

Meirihluti bæjarráðs samþykkir tillögur atvinnumálanefndar með fyrirvara um staðfestingu ráðuneytis á framkomnum tillögum, að undanskilinni tillögu um að jöfn skipti séu heimil og er vísað þar til laga nr. 665 frá 10. júlí 2013, sjá 9.gr.

S. Guðrún Hauksdóttir lagði fram eftirfarandi tillögu:

a) Ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar breytist og verður: Skipting þess aflamarks, sem nú kemur í hlut byggðarlags, auk þess aflamarks byggðarlagsins sem kann að vera eftir af úthlutun fyrra fiskveiðiárs, skal að öðru leyti fara fram til einstakra fiskiskipa sem uppfylla skilyrði 1. gr., sbr. og reglur um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í einstökum sveitarfélögum sem ráðuneytið staðfestir samkvæmt 2.-3. gr., eftir því sem við á, og skal skipt hlutfallslega, af því aflamarki sem fallið hefur til viðkomandi byggðarlags, miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið, innan sveitarfélagsins á tímabilinu 1. september 2013 til 31. ágúst 2014.
Öll skip og bátar sem uppfylla ákvæði 1. gr. skulu eiga rétt á 2.500 þorskígilda lágmarks úthlutun óháð afla þeirra á fiskveiðiárinu 2013/2014.


b) Ákvæði 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar breytist og verður: Afli af fiskiskipum sem landað er í sveitarfélagi af bátum sem ekki eru skráðir innan viðkomandi sveitarfélags á sama tíma, telst ekki til landaðs afla samkvæmt 1. mgr.


c) Ný málsgrein, sem verður 5. mgr. 4. gr.: Hámarksúthlutun byggðakvóta á skip skal vera 50 þorskígildistonn.

d) Ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar breytist og verður: Fiskiskipum er skylt að landa þeim afla sem telja á til byggðakvóta til vinnslu innan sveitarfélagsins á tímabilinu frá 1. september 2014 til 31. ágúst 2015.

Tillaga S.Guðrúnar var borin upp og felld með tveimur atkvæðum gegn einu.

4.Bylgjubyggð 63 Ólafsfirði - kauptilboð

Málsnúmer 1411018Vakta málsnúmer

Bæjarstjóri bar upp þá ósk að umrætt erindi yrði tekið á dagskrá þar sem bindandi kauptilboð renna út þann 14.11.2014.
Um er að ræða kauptilboð frá tveimur aðilum í sömu eign bæjarfélagsins.
Ásett verð er 11.9 m.kr.
Bæjarráð telur rétt að gera hæstbjóðanda gagntilboð að upphæð 11.5 m.kr.

5.Erindi Gunnars Júlíusar Jónssonar

Málsnúmer 1410081Vakta málsnúmer

Lagðar fram upplýsingar frá Gunnari J. Jónssyni er varðar hugsanlegar bætur frá Vegagerð og/eða Fjallabyggð.
Bæjarstjóri lagði fram minnisblað lögmanns bæjarfélagsins Valtýs Sigurðssonar hrl. er varðar hugsanlega skaðabótakröfu í máli þessu.
Það er niðurstaða lögmanns að ekki verði séð að Gunnar eigi fjárkröfu á hendur Fjallabyggð.

Lagt fram til kynningar.

6.Rekstur upplýsingamiðstöðva sumarið 2014

Málsnúmer 1409106Vakta málsnúmer

Lagðar fram skýrslur um rekstur upplýsingamiðstöðva og er vísað í afgreiðslu markaðs- og menningarnefndar frá 23.10.2014.
Einnig lagður fram tölvupóstur frá eigendum Bolla og bedda ehf. frá 24. október 2014 sem og bréf bæjarstjóra til fyrirtækisins frá 5. apríl 2013 og undirritaður samningur frá 8. apríl 2013.
Aðilum málsins er boðið að funda með bæjarstjóra og deildarstjóra stjórnsýslu og fjármála.

7.Samningur Fjallabyggðar um rekstur skólamötuneyta veturinn 2014 - 2016

Málsnúmer 1411008Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf frá Matvís, Matvæla- og veitingafélagi Íslands dags. 30. október 2014.

8.Umsóknir í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða

Málsnúmer 1410034Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar umsókn um styrk til deiliskipulagsvinnu í Fjallabyggð.

9.Nýsköpunarverðlaun í opinberri þjónustu og stjórnsýslu 2015

Málsnúmer 1411012Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar umsókn til tilnefningar til nýsköpunarverðlauna í opinberri þjónustu og stjórnsýslu 2015.

10.Til umsagnar - Tillaga til þingsályktunar um stofnun Hofsjökulsþjóðgarðs

Málsnúmer 1411005Vakta málsnúmer

Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis sendir tillögu til þingsályktunar um stofnun Hofsjökulsþjóðgarðs, sjá þingskal 26 - 26.mál.
http:www.altingi.is/altext/144/s/0026.htmi

11.Flugvöllur Siglufirði

Málsnúmer 1402062Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar, hugleiðingar Valtýs Sigurðssonar eftir fund með Isavia 7. nóvember 2014.

12.Átak í afþreyingar- og umhverfismálum í Siglufirði

Málsnúmer 1106092Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf frá Róberti Guðfinnssyni dags. 8. nóvember 2014, þar sem hann óskar eftir fundi með fulltrúum Fjallabyggðar.
Róbert var boðaður á fundinn og fór hann yfir sín mál og samstarf við Fjallabyggð.
Leggur hann áherslu á að bæjarfélagið móti stefnu til framtíðar er varðar aðkomu bæjarfélagsins að þeim verkefnum sem eftir á að vinna.
Leggur hann áherslu á Leirutangann og lóð undir tjaldsvæði við hús Egilssíldar við Gránugötu.

13.Áskorun - Samtök tónlistarskólastjóra

Málsnúmer 1411021Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar, áskorun frá stjórn samtaka tónlistarskólastjóra um að Samtök ísl. sveitarfélaga semji við félag tónlistarskólakennara hið fyrsta.

Bæjarráð hvetur aðila til að ganga til samninga og ljúka erfiðu verkfalli sem bitnar á nemendum tónskóla.

14.Fundagerðir Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga 2014

Málsnúmer 1410046Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar, fundargerð 15. fundar, 16. fundar og aðalfundar samtaka sjávarútvegssveitarfélaga frá 8. október sl.

15.Fundargerðir Heilbrigðisnefndar Norðurlands vestra 2014

Málsnúmer 1401030Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar, fundargerðir frá 07.10.2014 og 30.10.2014.

16.Fundargerðir stjórnar Hornbrekku 2014

Málsnúmer 1401021Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar, fundargerð stjórnar Hornbrekku frá 14. október 2014.

17.Fundargerðir stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga 2014

Málsnúmer 1401020Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar, 821. fundargerð stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga frá 31. október 2014.

Fundi slitið.