Slysavarnadeild kvenna á Ólafsfirði færði í dag Slökkviliði Fjallabyggðar tvö hjartastuðtæki að gjöf. Tækin eru kærkomin enda krafa um að slíkur búnaður sé til staðar í slökkvibílum. Slökkviliðsmenn veittu tækjunum viðtöku á slökkvistöðinni á Ólafsfirði.
Hjartastuðtækin verða staðsett í slökkvibílum og með tilkomu þeirra eykst öryggi slökkviliðsmanna sem og annarra í vettvangsvinnu sem og viðbragð verður mun styttra komi til þess að þurfi að nota þau.
Jóhann K. Jóhannsson, slökkviliðsstjóri sagði við afhendingu tækjanna að enn og aftur sýni slysavarnadeild hversu mikilvæg hún er í hverju samfélagi.
„Slysavarnadeild kvenna á Ólafsfirði hefur sýnt það oft áður. Síðast í flóðum á Ólafsfirði fyrir tæpum tveimur vikum. Björgunaraðilar gátu þá komið í faðm slysavarnadeildarinnar í skjól fyrir veðri og vindum og fengið mat og aukna orku til þess að fara aftur út og sinna björgunarstarfi. Aftur sýnir Slysavarnadeildin hversu mikilvæg hún er með þessari rausnarlegu gjöf til slökkviliðsins. Svona gjöf verður seint full þökkuð.“