Bæjarráð Fjallabyggðar

206. fundur 15. mars 2011 kl. 17:00 - 19:00 í ráðhúsinu á Siglufirði
Nefndarmenn
  • Ólafur Helgi Marteinsson formaður
  • Ingvar Erlingsson varaformaður
  • Helga Helgadóttir aðalmaður
  • Bjarkey Gunnarsdóttir áheyrnarfulltrúi
  • Sigurður V Ásbjarnarson bæjarstjóri
  • Ólafur Þór Ólafsson skrifstofu- og fjármálastjóri
Fundargerð ritaði: Ólafur Þór Ólafsson skrifstofu- og fjármálastjóri

1.Staðan og horfur í rekstri sparisjóða í Fjallabyggð

Málsnúmer 1103045Vakta málsnúmer

Á fund bæjarráðs mættu Ólafur Jónsson sparisjóðsstjóri Afls sparisjóðs og Helgi Jóhannsson sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Ólafsfjarðar, til að ræða stöðu og horfur í rekstri sparisjóða.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að óska eftir viðræðum við aðaleigenda sjóðanna um framtíð sparisjóðanna í Fjallabyggð, í ljósi mikilvægis þeirra fyrir samfélagið.

2.50 ára afmæli Siglfirðingafélagsins

Málsnúmer 1103033Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf frá stjórn Siglfirðingafélagsins en félagið var stofnað 14. október 1961 og er því 50 ára á árinu.

Félagið hefur ákveðið að fagna þessum merku tímamótum með útgáfu á afmælisblaði og er áætlaður kostnaður um 1 m.kr.

 

Bæjarráð samþykkir að styrkja útgáfuna um kr. 50.000.- sem komi af fjárhagslið 21-81

3.Fjárrétt vestan við bæinn Kálfsá og aðhaldsrétt vestan við Ós

Málsnúmer 1103043Vakta málsnúmer

Jakob Agnarsson ritar bæjarstjórn bréf dags. 9 mars f.h. hobbýbænda og fjárbýla um að byggja nýja fjárrétt við bæinn Kálfsá og aðhaldsrétt vestan við ós í stað þeirrar sem var urðuð við framkvæmdir vegagerðarinnar við Héðinsfjarðargöng.

Bæjarstjóri lagði fram tilvísanir í lög nr. 6 frá 21. mars 1986, en þar kemur fram m.a.:
49. gr. Sveitarstjórn eða fjallskilastjórn ber að sjá um, að til sé á hverjum réttarstað hæfilega stór fjárrétt og nægilegt dilkrými við hverja rétt, svo og að réttinni sé vel við haldið.
50. gr. Þegar byggja þarf rétt, er landeiganda skylt að leggja til land undir hana, þó ekki tún eða engi. Metnar skulu landeiganda bætur fyrir jarðrask í sambandi við nýbyggingu réttar eða endurbætur, og rétt á ábúandi á árlegu ruslagjaldi fyrir átroðning vegna réttarhalds.
51. gr. Nú er ákveðið að reisa eða endurbyggja almenningsrétt, og skal þá, ef ekki er öðruvísi ákveðið með samkomulagi aðila, kostnaður við bygginguna greiddur úr fjallskilasjóði viðkomandi fjallskiladeildar eða deilda. Heimilt er sveitarstjórn að jafna sérstaklega niður á fjallskilaskylda aðila gjaldi í fjallskilasjóð vegna réttarbyggingar, sbr. 42. gr. og 46. gr. Viðhald réttar greiðist með sama hætti. Nánari ákvæði má setja í fjallskilasamþykkt.

Bæjarráð telur rétt að vísa málinu til umræðu og afgreiðslu við gerð fjárhagsáætlunar 2012. Jafnframt er bæjarstjóra falið að kanna aðkomu Vegagerðar að fjárrétt vestan óss í Ólafsfirði, í tengslum við jarðgangagerð.

4.Lagning á ljósleiðara til Siglufjarðar

Málsnúmer 1103031Vakta málsnúmer

Gunnar Björn Þórhallsson fyrir hönd fyrirtækisins Tengis hf. óskar eftir viðræðum við bæjarfélagið um lagningu á ljósleiðara til Siglufjarðar.

Bæjarráð telur verkið áhugavert, en ekki er gert ráð fyrir fjármagni í fjárhagsáætlun til slíkra verka á þessu ári.
Bæjarráð telur rétt að skoða málið við gerð fjárhagsáætlunar 2012.

5.Sala á bifreiðum

Málsnúmer 1103035Vakta málsnúmer

Tilboð bárust í tvær Toyota Hilux bifreiðar frá Víkurfiski, Birni R. Arasyni og Gunnlaugi I. Haraldssyni.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að hæstu tilboðum verði tekið, sem var frá Víkurfiski samtals að upphæð 320 þúsund.

6.Reglur um starfs- og endurmenntun fyrir starfsmenn Fjallabyggðar

Málsnúmer 1103057Vakta málsnúmer

Lagðar fram tillögur fræðslunefndar að reglum um starfs- og endurmenntun fyrir starfsmenn Fjallabyggðar.
Í fylgiskjali frá fræðslu- og menningarfulltrúa koma fram áherslupunktar varðandi kynningu og fjármagn.

 

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að umræddar reglur verði samþykktar með lítilsháttar orðalags breytingum og að unnið verði eftir þeim að lokinni staðfestingu bæjarstjórnar í fullu samræmi við fjárhagsáætlun ársins.

Framlög til verkefnisins verða til skoðunar við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2012 og taka að fullu gildi frá og með næstu áramótum. 

7.Hús í Skarðsdal

Málsnúmer 1103037Vakta málsnúmer

Tilboð hefur borist frá Dúa J. Landmark í lítið hús sem staðsett er neðan skíðasvæðisins í Skarðsdal. Húseignin var auglýst á vef Fjallabyggðar 22. febrúar sl.
Tilboðshafi hefur ekki kannað hvort flutningur á umræddri eign á lóð í umsjá tilboðshafa sé í samræmi við skipulag eða skipulagsskilmála.

Bæjarráð frestar afgreiðslu málsins þar til afgreiðsla fagnefndar liggur fyrir, enda er í tilboðinu fyrirvari um kaupin sem byggir á þeirri forsendu.

8.Styrktarumsókn - Sérfræðingarnir ses

Málsnúmer 1103050Vakta málsnúmer

Sjálfseignarstofnunin Sérfræðingarnir er félag stofnað í ársbyrjun 2010 af einstaklingum og Umsjónarfélagi einhverfa á Íslandi. Það er von bréfritara að Fjallabyggð vilji gerast stofnfjáraðili að Specialisterna á Íslandi með framlagi sem nemur 50 krónum á hvern íbúa.

 

Bæjarráð hafnar erindinu.

9.Verkefniskynning AFE um þjónustuhöfn á Siglufirði

Málsnúmer 1103058Vakta málsnúmer

Málinu frestað til næsta fundar.

10.Kynning á GRÆNUM APRÍL

Málsnúmer 1103047Vakta málsnúmer

Lögð fram kynning á átaksverkefni sem miðar að því að fá ríkisstjórnina, sveitarstjórnir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga til að kynna vöru, þekkingu og þjónustu sem er græn og vistvæn og leiðir til aukinnar sjálfbærni á Íslandi. Óskað er eftir þátttöku Fjallabyggðar.

Bæjarráð samþykkir að vísa kynningunni til umfjöllunar í atvinnu- og ferðamálanefnd og skipulags- og umhverfisnefnd.

 

11.Minnisblað fyrir Almannavarnarnefnd Fjallabyggðar

Málsnúmer 1103049Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar, minnisblað um búnað og eftirlit með snjóvörnum á skíðasvæðum.

12.Skipurit Fjallabyggðar - breyting

Málsnúmer 1103059Vakta málsnúmer

Drög að breytingum á skipuriti lögð fram til kynningar.

13.Úthlutun á styrk til húsakönnunar í Fjallabyggð

Málsnúmer 1103060Vakta málsnúmer

Á heimasíðu Húsafriðunarnefndar kemur fram að Siglufjörður fær 1.500.000.- styrk og Ólafsfjörður 1.000.000.- styrk til að hefja vinnu við byggða- og húsakönnun í Fjallabyggð.
Ætlunin er að skoða 300 hús á Siglufirði og eru 54 þeirra eldri en frá 1918. Endanlegur fjöldi á Ólafsfirði liggur ekki fyrir.
Bæjarráð fagnar umræddri styrkveitingu.

Fundi slitið - kl. 19:00.