Fræðslu- og frístundanefnd Fjallabyggðar

30. fundur 23. ágúst 2016 kl. 17:00 í Ráðhúsi Fjallabyggðar, Gránugötu 24, Siglufirði
Nefndarmenn
  • Sæbjörg Ágústsdóttir formaður, S lista
  • Hilmar Þór Hreiðarsson aðalmaður, F lista
  • Hjördís Hanna Hjörleifsdóttir aðalmaður, D lista
  • Sóley Anna Pálsdóttir áheyrnarfulltrúi, B lista
  • Brynja Ingunn Hafsteinsdóttir varamaður, D lista
  • Árni Sæmundsson varamaður, F lista
  • Kristinn J. Reimarsson deildarstjóri fræðslu- frístunda- og menningarmála
Fundargerð ritaði: Kristinn J. Reimarsson deildarstjóri fræðslu- frístunda- og menningarmála
Steingrímur Óli Hákonarson aðalmaður D-lista boðaði forföll. Brynja I. Hafsteinsdóttir mætti í hans stað.
Guðný Kristinsdóttir aðalmaður F-lista boðaði forföll. Árni Sæmundsson mætti í hennar stað. Katrín Sif Andesen fulltrúi leikskólaforeldra, Hugborg Inga Harðardóttir fulltrúi grunnskólaforeldra og Sigurlaug Guðjónsdóttir fulltrúi grunnskólakennara boðuðu forföll.

1.Erindi frá Blakfélagi Fjallabyggðar

Málsnúmer 1605045Vakta málsnúmer

Erindi svarað
Á fundi bæjarráðs þann 21. júní var til umfjöllunar erindi frá Blakfélagi Fjallabyggðar þar sem félagið óskar eftir viðræðum við sveitarfélagið um samstarfssamning sem tekur til þriggja atriða ásamt umsögn deildarstjóra fræðslu-, frístunda- og menningarmála um málið. Bæjarráð vísar málinu til umfjöllunar í fræðslu- og frístundanefnd og gerðar fjárhagsáætlunar 2017.
Fræðslu- og frístundanefnd hafnar því að gerður verði samstarfssamningur en hvetur félagið til að sækja um styrk vegna þessara verkefna nú í haust þegar vinna við fjárhagsáætlun 2017 fer í gang.

2.Samstarf með Dalvíkurbyggð - tónskóli

Málsnúmer 1410044Vakta málsnúmer

Lagt fram
Á fundinn mætti Magnús G. Ólafsson skólastjóri Tónskóla Fjallabyggðar. Farið var yfir samning Dalvíkurbyggðar og Fjallabyggðar um sameiningu Tónskóla Fjallabyggðar og Tónlistarskóla Dalvíkurbyggðar í Tónlistarskólann á Tröllaskaga. Skólinn mun hefja starfsemi í upphafi skólaárs haustið 2016. Markmið skólans er að efla tónlistarþekkingu og iðkun tónlistar, auk þess að stuðla að eflingu tónlistarlífs í aðildarsveitarfélögunum. Gjaldskrár skólanna verða samræmdar nú í upphafi skólaárs 2016 - 2017. Samningurinn er til þriggja ára.
Magnús vék af fundi kl. 17:37

3.Fyrirspurnir frá Félagi stjórnenda leikskóla um sérfræðiþjónustu ofl.

Málsnúmer 1608017Vakta málsnúmer

Erindi svarað
Á fundinn mættu Olga Gísladóttir leikskólastjóri, Jónína Magnúsdóttir skólastjóri Grunnskóla Fjallabyggðar og Berglind Hrönn Hlynsdóttir fulltrúi starfsmanna leikskóla.
Félag stjórnenda leikskóla sendir Fjallabyggð tvö erindi. Í öðru erindinu er hvatning til rekstraraðila leikskóla um að uppfylla þá kröfu að aðstoðarleikskólastjóri sé til staðar í leikskólum með 33 börn eða fleiri sbr. 6 grein laga um leikskóla. Í hinu erindinu er vakinn athygli á því að svo virðist sem margir leikskólastjórnendur hafi ekki aðgang að sérfræðiþjónustu til ráðgjafar og stuðnings við starfsmenn leikskóla. Vísað er í 21., 22. og 23. grein í lögum um leikskóla, nr. 90/2008, þar sem kveðið er á um skipulag og framkvæmd sérfræðiþjónustu.
Fjallabyggð uppfyllir þessi atriði. Aðstoðarleikskólastjóri er til staðar og sömuleiðis er sveitarfélagið með samning við sálfræðinga og talmeinafræðinga sem annars vegar veita stuðning við leikskólabörn og fjölskyldur þeirra og hins vegar stuðning við starfsemi leikskóla og starfsfólk.
Fræðslu- og frístundanefnd felur deildarstjóra að svara Félagi stjórnenda leikskóla. Jafnframt felur nefndin deildarstjóra að kanna með samstarf á milli skólaskrifstofu Dalvíkurbyggðar og Fjallabyggðar.

4.Hvatning Velferðarvaktarinnar vegna kostnaðarþátttöku foreldra í ritfangakaupum skólabarna

Málsnúmer 1608021Vakta málsnúmer

Vísað til nefndar
Á fundi fræðslu- og frístundanefndar þann 6. júní sl. var til umfjöllunar erindi frá Sambandi ísl. sveitarfélaga þar sem skólanefndir voru hvattar til að kanna hvernig kostnaðarþátttöku foreldra vegna ritfanga og annarra gagna vegna skólagöngu barna væri háttað. Hér er svo kominn hvatning frá Velferðarvaktinni um sama málefni og vísar bæjarráð erindinu til umfjöllunar í nefndinni.
Miðað við innkaupalista sem Grunnskóli Fjallabyggðar gefur út og verð á ritföngum sem Heimkaup birtir á sinni heimasíðu og að því gefnu að allir nemendur kaupi allt sem er á innkaupalistanum yrði kostnaður sveitarfélagsins rúmar 1.7 milljónir króna.
Fræðslu- og frístundanefnd hvetur bæjaryfirvöld til að skoða vel við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2017 að sett verði fjármagn í þennan lið svo hægt sé að takmarka kostnað foreldra við innkaup á ritföngum og öðrum gögnum.

5.Skólamáltíðir

Málsnúmer 1604082Vakta málsnúmer

Lagt fram
Samningur um skólamáltíðir lagður fram til kynningar.

6.Læsisstefna leik- og grunnskóla Fjallabyggðar

Málsnúmer 1608033Vakta málsnúmer

Samþykkt
Samkvæmt undirrituðum Þjóðarsáttmála um læsi skuldbatt Fjallabyggð sig til að gera læsisstefnu fyrir leik- og grunnskóla. Læsisráðgjafar frá Menntamálastofnun hafa nú verið með námskeið fyrir grunnskólakennara og verður sambærilegt námskeið fyrir leikskólakennara haldið í september. Að loknu því námskeiði verður farið af stað með gerð læsisstefnu sem unnin verður af læsisteymum skólanna með aðstoð og stuðningi frá læsisráðgjöfum Menntamálastofnunar.
Fræðslu- og frístundanefnd fagnar þessu og óskar eftir að læsistefnan verði tilbúinn 1. desember nk.

7.Ársskýrsla Grunnskóla Fjallabyggðar fyrir skólaveturinn 2015 - 2016

Málsnúmer 1608034Vakta málsnúmer

Lagt fram
Ársskýrsla Grunnskóla Fjallabyggðar fyrir skólaveturinn 2015 - 2016 lögð fram til kynningar. Jónína Magnúsdóttir skólastjóri fór yfir helstu atriði skýrslunnar. Nefndin þakkar Jónínu fyrir greinargóða skýrslu.

8.Ársskýrsla Leikskóla Fjallabyggðar fyrir skólaárið 2015 - 2016

Málsnúmer 1608035Vakta málsnúmer

Lagt fram
Ársskýrsla Leikskóla Fjallabyggðar fyrir skólaárið 2015 - 2016 lögð fram til kynningar. Olga Gísladóttir leiksskólastjóri fór yfir helstu atriði skýrslunnar. Nefndin þakkar Olgu fyrir greinargóða skýrslu.

9.Rekstraryfirlit júní 2016

Málsnúmer 1608013Vakta málsnúmer

Lagt fram
Lagt fram rekstraryfirlit fyrir tímabilið janúar - júní 2016. Fræðslu- og uppeldismál: Rauntölur, 358.677.607 kr. Áætlun, 357.498.498 kr. Mismunur; -1.179.109 kr. Æskulýðs- og íþróttamál: Rauntölur, 132.413.104 kr. Áætlun 131.380.472 kr. Mismunur; -1.032.632 kr.

Fundi slitið.