Bæjarstjórn Fjallabyggðar

122. fundur 09. nóvember 2015 kl. 12:30 í Ráðhúsi Fjallabyggðar, Gránugötu 24, Siglufirði
Nefndarmenn
  • Ríkharður Hólm Sigurðsson forseti bæjarstjórnar, F-lista
  • Steinunn María Sveinsdóttir 1. varaforseti bæjarstjórnar, S-lista
  • Sólrún Júlíusdóttir bæjarfulltrúi, B lista
  • Helga Helgadóttir bæjarfulltrúi, D lista
  • Kristinn Kristjánsson bæjarfulltrúi, F lista
  • Hilmar Þór Elefsen bæjarfulltrúi, S lista
  • Brynja Ingunn Hafsteinsdóttir varabæjarfulltrúi, D lista
  • Gunnar Ingi Birgisson bæjarstjóri
  • Ólafur Þór Ólafsson deildarstjóri stjórnsýslu- og fjármála
Fundargerð ritaði: Ólafur Þór Ólafsson deildarstjóri stjórnsýslu og fjármála
Forseti setti þennan aukafund og bauð fundarmenn velkomna.
Allir aðalfulltrúar voru mættir nema S. Guðrún Hauksdóttir, D-lista.
Í hennar stað mætti varabæjarfulltrúinn Brynja Hafsteinsdóttir.

1.Auglýsing umsóknar um byggðakvóta fiskveiðiársins 2015/2016

Málsnúmer 1509024Vakta málsnúmer

Atvinnumálanefnd tók til umfjöllunar á fundi sínum 4. nóvember 2015, úthlutun byggðakvóta í bæjarfélaginu og gerði tillögu til bæjarráðs.

Samkvæmt reglum þarf bæjarstjórn að óska eftir því við Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið að sett séu sérstök skilyrði varðandi úthlutun byggðakvóta sveitarfélagsins fyrir 10. nóvember 2015. Samkvæmt niðurstöðum ráðuneytisins varðandi úthlutun byggðakvóta til sveitarfélagins fyrir fiskveiðiárið 2015/2016 koma 209 þorskígildistonn til ráðstöfunar í Ólafsfirði og 102 þorskígildistonn til Siglufjarðar, sem er skerðing um 91 þorskígildistonn frá síðustu úthlutun.

Bæjarráð tók fyrir tillögu Atvinnumálanefndar og samþykkir eftirfarandi:

a) Ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar breytist og verður:

Skipting þess aflamarks, sem nú kemur í hlut byggðarlags, auk þess aflamarks byggðarlagsins sem kann að vera eftir af úthlutun fyrra fiskveiðiárs, skal að öðru leyti fara fram til einstakra fiskiskipa sem uppfylla skilyrði 1. gr., sbr. og reglur um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í einstökum sveitarfélögum sem ráðuneytið staðfestir samkvæmt 2.-3. gr., eftir því sem við á, og skulu öll skip og bátar sem uppfylla ákvæði 1. gr. reglugerðarinnar eiga rétt á 2.000 þorskígildiskílóa úthlutun óháð afla þeirra á fiskveiðiárinu 2014/2015. Auk þess skal því aflamarki sem eftir stendur skipt hlutfallslega milli sömu skipa og báta miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið, innan sveitarfélagsins á tímabilinu 1. september 2015 til 31. ágúst 2016, þó ekki hærra en 20% af því sem eftir stendur, en að hámarki 30 þorskígildistonn.

b) Ákvæði 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar breytist og verður áfram:

Afli af fiskiskipum sem landað er í sveitarfélagi af bátum sem ekki eru skráðir innan viðkomandi sveitarfélags á sama tíma, telst ekki til landaðs afla samkvæmt 1. mgr.

c) Ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar breytist og verður áfram:

"Fiskiskipum er skylt að landa þeim afla sem telja á til byggðakvóta til vinnslu innan sveitarfélagsins á tímabilinu frá 1. september 2015 til 31. ágúst 2016. Aflinn skal nema í þorskígildum talið jöfnu magni þess aflamarks sem þau fá úthlutað samkvæmt reglugerð þessari, auk jafnmikils magns til vinnslu eða á fiskmarkað í sveitarfélaginu."

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða með 6 atkvæðum, tillögu bæjarráðs. Ríkharður Hólm Sigurðsson sat hjá.

Fundi slitið.