Bæjarráð Fjallabyggðar

572. fundur 18. september 2018 kl. 16:30 - 17:45 í Ráðhúsi Fjallabyggðar, Gránugötu 24, Siglufirði
Nefndarmenn
  • Helga Helgadóttir formaður, D lista
  • Nanna Árnadóttir aðalmaður, I lista
  • Jón Valgeir Baldursson aðalmaður, H lista
Starfsmenn
  • Gunnar Ingi Birgisson bæjarstjóri
  • Guðrún Sif Guðbrandsdóttir deildarstjóri stjórnsýslu- og fjármála
Fundargerð ritaði: Guðrún Sif Guðbrandsdóttir deildarstjóri stjórnsýslu og fjármála

1.Eyþing - Tillaga GIB

Málsnúmer 1808080Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi dags. 31.08.2018 frá Pétri Þór Jónssyni framkvæmdastjóra Eyþings til aðildarsveitarfélaga varðandi tillögu Gunnars I. Birgissonar til aðalfundar Eyþings sem haldinn verður 21. - 22. september nk. um að fjölga fulltrúum í stjórn Eyþings úr sjö í níu. Með því móti eiga fjölmennustu sveitarfélögin stjórnarmenn í stjórn Eyþings að staðaldri en þegar fulltrúar sveitarfélaga sitja ekki í stjórn koma þeir takmarkað að umræðu og ákvörðunartöku innan Eyþings og ábyrgð stjórnar er óljós. Fundir í fulltrúaráði Eyþings eru sjaldgæfir og samskipti við þau sveitarfélög sem ekki eiga fulltrúa í stjórn eru af skornum skammti.

Bæjarráð samþykkir tillögu Gunnars I Birgissonar fyrir sitt leyti.
Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð hafa hingað til skipst á að skipa fulltrúa í stjórn Eyþings í tvö ár í senn.
Verði tillagan samþykkt á aðalfundi Eyþings skipa sveitarfélögin sinn fulltrúann hvort.

2.Trúnaðarmál - starfsmannamál

Málsnúmer 1709048Vakta málsnúmer

Niðurstaða færð í trúnaðarbók.

3.Samningur um æfingaraðstöðu í líkamsrækt Ólafsfirði

Málsnúmer 1806076Vakta málsnúmer

Bæjarráð samþykkti á 564. fundi sínum, 6. júlí sl. samning um afnot Kraftlyftingafélags Ólafsfjarðar Fjallabyggð af líkamsræktarsal íþróttamiðstöðvar Fjallabyggðar í Ólafsfirði. Í 8. gr. samnings segir að bókfærður kostnaður vegna leigu á líkamsræktarsalnum skuli millifærður sem styrkur til Kraftlyftingafélags Ólafsfjarðar Fjallabyggð.

Bæjarráð samþykkir að vísa styrk að upphæð kr. 554.664 í viðauka nr.13/2018 samkvæmt 8. gr. samningsins við deild 06810 og lykill 9291 og bókast sem tekjur við deild 06510 og lykill 0258.

4.Viðauki við fjárhagsáætlun 2018

Málsnúmer 1802048Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar vinnuskjal vegna viðauka 4-13 við fjárhagsáætlun fyrir árið 2018.

5.Vátryggingar Fjallabyggðar

Málsnúmer 1809037Vakta málsnúmer

Lagt fram minnisblað deildarstjóra stjórnsýslu- og fjármáladeildar, dags. 17.09.2018 þar sem óskað er eftir samþykki til að framlengja samningi um vátryggingaviðskipti Fjallabyggðar við Sjóvá, um eitt ár í samræmi við 7. gr. samningsins.

Bæjarráð samþykkir að framlengja samninginn um eitt ár, eða til 31. desember 2019 og felur deildarstjóra stjórnsýslu- og fjármáladeildar að fylgja málinu eftir.

6.Leiguhúsnæði fyrir NEON félagsmiðstöð

Málsnúmer 1506047Vakta málsnúmer

Lögð fram drög að samningi milli Siglunes Guesthouse ehf og Fjallabyggðar um leigu húsnæðis að Lækjargötu 8, Siglufirði fyrir félagsmiðstöðina Neon.
Leigutímabil er frá 1. september 2018 til 31. ágúst 2019.

Bæjarráð samþykkir drögin fyrir sitt leyti og felur deildarstjóra fræðslu-, frístunda- og menningarmála að undirrita samninginn.

7.Erindi frá UÍF. Frístundaakstur milli bæjarkjarnanna

Málsnúmer 1808042Vakta málsnúmer

Á 571. fundi bæjarráðs dags. 11. september 2018 samþykkti ráðið að ganga til samninga við lægstbjóðanda HBA í ferðir vegna aukins frístundaaksturs á árinu 2018 og fól deildarstjóra fræðslu,- frístunda- og menningarmála að ganga frá samningi við HBA og leggja fyrir bæjarráð.

Lögð fram drög að viðauka með samningi um skóla- og frístundaakstur í Fjallabyggð 2017-2020 vegna viðbótaferða vegna frístunda, september - desember 2018.

Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi drög og felur deildarstjóra fræðslu,- frístunda- og menningarmála að undirrita samkomulagið.

8.Tillaga - Byggðarkvóti

Málsnúmer 1809050Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga, dags. 17.09.2018 frá Jóni Valgeir Baldurssyni fyrir hönd H- listans þar sem lagt er til að skipaður verði vinnuhópur sem hafi það að markmiði að koma með tillögur til bæjaryfirvalda er varða byggðakvóta í Fjallabyggð. Í vinnuhópnum sitji þrír fulltrúar smábátasjómanna, tveir- þrír fulltrúar fiskvinnslunnar og þrír fulltrúar sveitarfélagsins. Ástæða þess að tillagan er lögð fram er að undanfarin ár hefur ekki náðst að úthluta þeim byggðarkvóta sem fallið hefur í hlut Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Markmiðið er að finna ástæður þess.

Tillagan felld með tveimur atkvæðum Helgu Helgadóttir og Nönnu Árnadóttur gegn einu atkvæði Jóns Valgeirs Baldurssonar.

Meirihluti bæjarráðs bendir á að byggðakvóta er úthlutað á grundvelli 10 gr. laga um stjórn fiskveiða nr. 116/2006, með síðari breytingum. Fiskistofa annast úthlutun aflaheimilda sem koma í hlut einstakra byggðarlaga, til fiskiskipa í samræmi við reglugerð um úthlutun byggðarkvóta til byggðarlaga og fiskiskipa á hverju fiskveiðiári. Þá er fiskvinnslum og eigendum útgerða skylt að undirrita samning um vinnslu afla þar sem aðilar staðfesta að afli sem tiltekið skip landar vegna byggðarkvóta hjá nafngreindri fiskvinnslu, verði unninn þar sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 604/2017. Eftirlit er á höndum Fiskistofu.

Tillaga meirihluta bæjarráðs er að fela hagsmunaaðilum þ.e. vinnslum og útgerðum, að koma sér saman um tillögur til úrbóta, þ.e. raunhæfar tillögur sem tryggja að úthlutaður byggðakvóti sé veiddur og verðmæti nýtt, og leggja fyrir bæjarráð. Undanfarin ár hefur úthlutaður byggðarkvóti ekki verið veiddur nema að hluta og verðmæti glatast.

Tillagan samþykkt með tveimur atkvæðum Helgu Helgadóttir og Nönnu Árnadóttur gegn einu atkvæði Jóns Valgeirs Baldurssonar.

9.Umsögn vegna umsóknar um rekstrarleyfi - Hávegur 14, Siglufirði

Málsnúmer 1809032Vakta málsnúmer

Lögð fram beiðni frá Sýslumanninum á Norðurlandi eystra er varðar umsögn um nýtt rekstrarleyfi fyrir Daniel Stähelin kt.030371-2599, til sölu gistingar í flokki II að Hávegi 14, Siglufirði.

Bæjarráð samþykkir umsóknina fyrir sitt leyti.

10.Landsbyggðin og leikhús - umssókn um styrk

Málsnúmer 1809025Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi, dags. 07.09.2018 frá Jóel Inga Sæmundssyni er varðar styrk frá sveitarfélögum að upphæð 150.000 til 225.000 og afnot af sýningaraðstöðu vegna verkefnisins, Landsbyggðarleikhús sem fer af stað 2019 og felst í því að koma leiklistinni til landsbyggðarinnar. Markmiðið er að fara með þrjú verk á næsta ári, barn,- drama- og gaman leikrit, á landsbyggðina. Með styrk tryggja sveitarfélög sér sýningarnar. Sjái sveitafélög sér ekki fært að verða við styrk eru þau beðin um að koma á framfæri upplýsingum um fyrirtæki sem vildu styðja verkefnið.

Bæjarráð samþykkir að senda erindið til umsagnar í markaðs- og menningarnefnd.

11.Spurningalisti vegna álagningar fjallskila

Málsnúmer 1809026Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi, dags. 10.09.2018 frá Ragnheiði Evu Jónsdóttur meistaranema við lagadeild Háskólans í Reykjavík er varðar spurningalista vegna álagningar fjallskila sem sveitarfélagið er beðið um að svara og verður nýtt í vinnslu á meistaraverkefni Ragnheiðar Evu.

Bæjarráð samþykkir að fela deildarstjóra tæknideildar að svara erindinu.

12.Aðstoð Sensa við sveitarfélög við að nýta sér styrk ESB á opnu þráðlausu neti

Málsnúmer 1809038Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar erindi Sensa, dags. 11.09.2018 er varðar aðstoð fyrirtækisins við sveitarfélög innan Evrópska efnahagssvæðisins sem vilja sækja um styrk til uppsetningar á opnu þráðlausu neti í almenningsrýmum sínum.

13.Fyrirtækjasýning Færeyinga í Hofi 19.september 2018

Málsnúmer 1809039Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi dags. 05.09.2018 er varðar boð á fyrirtækjasýningu í Hofi Akureyri sem þrettán færeysk fyrirtæki standa að þann 19. september nk. kl. 13.

14.Umsögn um frumvarp um Þjóðgarðastofnun

Málsnúmer 1809031Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar, umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um frumvarp til laga um Þjóðgarðastofnun.
Umsagnir sveitarfélaga eru einnig aðgengilega á vef Sambandsins.

15.Lög um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga

Málsnúmer 1807014Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi, dags. 07.09.2018 frá Félagsráðgjafafélagi Íslands varðandi breytingu á lögum um félagsþjónustu sem tekur gildi 1. október 2018. Vakin er athygli á ríkari skyldu sveitarfélaga til að hafa á að skipa félagsráðgjöfum til að starfa að verkefnum samkvæmt lögunum.

16.Landsfundur sveitarfélaga um jafnréttismál

Málsnúmer 1809007Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar, Landsfundur sveitarfélaga um jafnréttismál verður haldinn í Hlégarði fimmtudaginn 20. september nk. Málþing sveitarfélaga um jafnréttismál sem og jafnréttisdagur Mosfellsbæjar verða daginn eftir eða föstudaginn 21. september nk.
Hrafnhildur Ýr Denke Vilbertsdóttir, formaður félagsmálanefndar Fjallabyggðar mun sækja viðburðina fyrir hönd Fjallabyggðar.

Fundi slitið - kl. 17:45.