Tillaga - Byggðarkvóti

Málsnúmer 1809050

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Fjallabyggðar - 572. fundur - 18.09.2018

Lögð fram tillaga, dags. 17.09.2018 frá Jóni Valgeir Baldurssyni fyrir hönd H- listans þar sem lagt er til að skipaður verði vinnuhópur sem hafi það að markmiði að koma með tillögur til bæjaryfirvalda er varða byggðakvóta í Fjallabyggð. Í vinnuhópnum sitji þrír fulltrúar smábátasjómanna, tveir- þrír fulltrúar fiskvinnslunnar og þrír fulltrúar sveitarfélagsins. Ástæða þess að tillagan er lögð fram er að undanfarin ár hefur ekki náðst að úthluta þeim byggðarkvóta sem fallið hefur í hlut Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Markmiðið er að finna ástæður þess.

Tillagan felld með tveimur atkvæðum Helgu Helgadóttir og Nönnu Árnadóttur gegn einu atkvæði Jóns Valgeirs Baldurssonar.

Meirihluti bæjarráðs bendir á að byggðakvóta er úthlutað á grundvelli 10 gr. laga um stjórn fiskveiða nr. 116/2006, með síðari breytingum. Fiskistofa annast úthlutun aflaheimilda sem koma í hlut einstakra byggðarlaga, til fiskiskipa í samræmi við reglugerð um úthlutun byggðarkvóta til byggðarlaga og fiskiskipa á hverju fiskveiðiári. Þá er fiskvinnslum og eigendum útgerða skylt að undirrita samning um vinnslu afla þar sem aðilar staðfesta að afli sem tiltekið skip landar vegna byggðarkvóta hjá nafngreindri fiskvinnslu, verði unninn þar sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 604/2017. Eftirlit er á höndum Fiskistofu.

Tillaga meirihluta bæjarráðs er að fela hagsmunaaðilum þ.e. vinnslum og útgerðum, að koma sér saman um tillögur til úrbóta, þ.e. raunhæfar tillögur sem tryggja að úthlutaður byggðakvóti sé veiddur og verðmæti nýtt, og leggja fyrir bæjarráð. Undanfarin ár hefur úthlutaður byggðarkvóti ekki verið veiddur nema að hluta og verðmæti glatast.

Tillagan samþykkt með tveimur atkvæðum Helgu Helgadóttir og Nönnu Árnadóttur gegn einu atkvæði Jóns Valgeirs Baldurssonar.