Fjárhagsáætlun 2021 - Seinni umræða

Málsnúmer 2007006

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Fjallabyggðar - 677. fundur - 08.12.2020

Farið yfir lykiltölur í fjárhagsáætlun 2021, ásamt framkvæmdaáætlun fyrir árið 2021.

Bæjarráð samþykkir að vísa fjárhagsáætlun 2021 til síðari umræðu í bæjarstjórn.

Bæjarstjórn Fjallabyggðar - 195. fundur - 15.12.2020

Síðari umræða um fjárhagsáætlun 2021.

Til máls tóku: Helga Helgadóttir, Elías Pétursson, Jón Valgeir Baldursson, Ingibjörg Guðlaug Jónsdóttir, S. Guðrún Hauksdóttir, Nanna Árnadóttir, Elías Pétursson, Tómas Atli Einarsson, Helga Helgadóttir og Særún Hlín Laufeyjardóttir.
Helga Helgadóttir formaður bæjarráðs lagði fram eftirfarandi bókun fyrir hönd bæjarstjórnar:

Áætlaður rekstrarhalli bæjarsjóðs fyrir árið 2021 er 40 mkr.
Útsvarsprósenta er 14.48% og álagningarprósenta fasteignagjalda er óbreytt á milli ára nema álagning íbúðarhúsnæðis lækkar í 0,48 úr 0,49.
Skatttekjur ársins 2021 eru áætlaðar 1.390 mkr., en útkomuspá ársins 2020 er 1.329 mkr.
Heildartekjur 2021 verða 3.071 mkr., en eru áætlaðar 2.918 mkr. í útgönguspá 2020.
Gjöld ársins 2021 eru áætluð 3.097 mkr., en eru 2.805 mkr. fyrir árið 2020.
Heildareignir sveitarfélagsins eru áætlaðar 5.927 mkr. og eigið fé er 3.874 mkr. eða 65% eiginfjárhlutfall.
Skuldaviðmið bæjarsjóðs er áætlað 27% fyrir 2021.
Vaxtaberandi skuldir eru 319 mkr., en voru 345 mkr. árið 2020.
Veltufé frá rekstri er áætlað 261 mkr., sem eru 8,5% af rekstrartekjum.

Fjárfestingar næsta árs eru áætlaðar 154 m.kr. þar sem aðaláherslur eru:
a) Endurnýjun gangstétta (40mkr.)
b) Gangstígar (10mkr.)
c) Íþróttamiðstöð Siglufirði, bætt búningsaðstaða fatlaðra (15mkr.)
d) Íþróttamiðstöð Ólafsfirði, endurnýjun búningsaðstöðu (19mkr.)

Á fjárhagsáætlun fyrir árið 2021 er hugað að barnafjölskyldum og starfsemi sem snýr að börnum og unglingum. Verð á máltíðum og hressingum í leik- og grunnskóla verða óbreytt frá líðandi ári. Frístundastyrkir til barna fædd 2003 - 2017 verða hækkaðir, sveitarfélagið bætir í styrk til UÍF vegna barna- og unglingastarfs og í leik- og grunnskóla verður fjármagn sett í þróunarstarf. Almennt munu gjaldskrár hækka um áætlaðar verðlagsbreytingar eða 2,8%.
Áfram verður unnið að Heilsueflandi samfélagi og í anda þess verður áfram gjaldfrjálst í sund og rækt fyrir eldri borgara og öryrkja.

Breytingar á gjaldaliðum fasteignagjalda verða með eftirfarandi hætti:
Fasteignaskattur fyrir íbúðarhúsnæði A-flokkur verður lækkaður í 0,48 úr 0,49.

Gjalddagar fasteignagjalda verða áfram tíu, febrúar til nóvember.

Afsláttur á fasteignaskatti fyrir eldri borgara og öryrkja verður óbreyttur 70.000 kr.

Einnig verða tekjuviðmið vegna afsláttar á fasteignaskatti fyrir eldri borgara og öryrkja hækkuð verulega og verða sem hér segir:

Tekjumörk eru sem hér segir:
Flokkur - Einstaklingar Afsláttur
1. 0 - 3.300.000 - 100%
2. 3.300.001 - 3.900.000 - 75%
3. 3.900.001 - 4.525.000 - 50%
4. 4.525.001 - 5.150.000 - 25%
5. 5.150.001 - - 0%

Flokkur - Hjón/Sambýlisfólk Afsláttur
1. 0 - 5.000.000 - 100%
2. 5.000.001 - 5.800.000 - 75%
3. 5.800.001 - 6.400.000 - 50%
4. 6.400.001 - 7.000.000 - 25%
5. 7.000.001 - - 0%

Fjallabyggð hefur ekki farið varhluta af áföllum tengdum heimsfaraldri Covid-19 líkt og önnur sveitarfélög í landinu en þrátt fyrir það nýtur sveitarfélagið þess að vera með lágar skuldir og er ekki gert ráð fyrir lántöku á árinu 2021.

Bæjarstjórn þakkar bæjarstjóra og starfsmönnum bæjarfélagsins fyrir þeirra aðkomu að gerð fjárhagsáætlunar og ánægjulegt samstarf í krefjandi árferði.

Við gerð fjárhagsáætlunar 2021 var samstarf milli allra flokka í Fjallabyggð og er vert að þakka fyrir það.

Bæjarstjóri tók til máls og fór yfir helstu stærðir í framlagðri fjárhagsáætlun. Að aflokinni yfirferð lagði bæjarstjóri fram eftirfarandi bókun:

Um leið og öllum má vera ljóst að faraldur sá er nú herjar á landið og efnahagsleg áhrif hans hafa áhrif á rekstur Fjallabyggðar rétt eins og annarra sveitarfélaga þá er einnig greinilegt hve miklu skiptir að staða sveitarfélagsins er sterk, skuldir litlar og innviðir góðir. Fjárhagsáætlun sú sem hér hefur verið samþykkt ber merki varkárni og yfirvegunar þeirra er að hafa komið, hið sama á við um þriggja ára áætlun sveitarfélagsins. Þó staða sveitarfélagsins sé sterk þá er ljóst að rekstur komandi árs og ára verður ögrandi verkefni og klárt að neikvæð rekstrarafkoma er ekki valkostur til lengri tíma. Við það verkefni að snúa neikvæðri rekstrarafkomu í jákvæða munum við byggja á sterkum innviðum, góðri stöðu sveitarfélagsins og öflugum mannauð.
En þó undanfarið ár hafi einkennst af ýmissi óáran og verið mörgum erfitt, þá er engin ástæða til annars en að líta björtum augum til framtíðar, ég er þess fullviss að nýtt ár verði sveitarfélaginu bæði farsælt og gott.

Að lokum þakka ég öllu starfsfólki Fjallabyggðar fyrir óeigingjarnt starf í þágu sveitarfélagsins og bæjarstjórn allri fyrir góða viðkynningu og samstarf á árinu sem nú fer að ljúka.

Bæjarstjórn samþykkir með 7 atkvæðum tillögu að fjárhagsáætlun 2021 og 2022-2024.