Markaðs- og menningarnefnd Fjallabyggðar

20. fundur 05. nóvember 2015 kl. 17:00 í Ráðhúsi Fjallabyggðar, Gránugötu 24, Siglufirði
Nefndarmenn
  • Arndís Erla Jónsdóttir formaður, F lista
  • Ægir Bergsson varaformaður, S lista
  • Hanna Sigríður Ásgeirsdóttir aðalmaður, D lista
  • Guðlaugur Magnús Ingason aðalmaður, F lista
  • Helga Jónsdóttir áheyrnarfulltrúi, B lista
  • Kristinn J. Reimarsson markaðs- og menningarfulltrúi
Fundargerð ritaði: Kristinn J. Reimarsson markaðs- og menningarfulltrúi
Í upphafi fundar óskaði formaður eftir að taka inn á dagskrá mál nr. 1507035 - Ásýnd sveitarfélagsins og markaðssetning Ólafsfjarðar.
Jafnframt vakti hann athygli á því að búið væri að aðgreina gjaldskrármál sem sér mál frá fjárhagsáætlun en í útsendri dagskrá var gert ráð fyrir að umræða um gjaldskrá félli undir umræðu um fjárhagsáætlun. Fundurinn samþykkti breytingu á dagskrá.

Sæbjörg Ágústsdóttir boðaði forföll og komst varamaður ekki á fundinn í hennar stað.

1.Fjárhagsáætlun 2016 og 2017-2019

Málsnúmer 1505055Vakta málsnúmer

Vísað til nefndar
Lögð fram drög að fjárhagsáætlun 2016.
Á fundinn mætti Hrönn Hafþórsdóttir og fór yfir áætlun bóka- og héraðsskjalasafns auk upplýsingamiðstöðva.

Nefndin beinir þeim tilmælum til bæjarráðs að launaáætlun, bókasafns, héraðsskjalasafns og upplýsingamiðstöðvar verði endurskoðuð og hækkun verði til samræmis við umsamdar launahækkanir. Einnig óskar nefndin eftir því að aukið verði við opnun upplýsingamiðstöðvar og launaáætlun verði hækkuð til samræmis við það. Lagt er til að liðirnir bókakaup og tímarit verði óbreyttir frá árinu 2015.
Nefndin harmar að forstöðumaður bókasafns skuli ekki hafa verið hafður með í ráðum við gerð áætlunar fyrir bóka- og héraðsskjalasafnið.

Hrönn vék af fundi að lokinni yfirferð.

Kristinn J. Reimarsson markaðs- og menningarfulltrúi fór yfir aðra liði fjárhagsáætlunar sem snúa að menningarmálum auk áætlunar fyrir tjaldsvæði.

Varðandi salinn í Ráðhúsi Fjallabyggðar sem hýsir listaverkasýningar leggur nefndin til að skoðað verði að keyptir verði milliveggir (þilveggir) í salinn til að auka á notagildi salarins.

Varðandi rekstur Tjarnarborgar þá leggur Fulltrúi D-lista fram eftirfarandi tillögu: "Markaðs- og menningarnefnd leggur til að tryggt verði fjármagn til kaupa á hljóðkerfi í Menningarhúsið Tjarnarborg við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2016".
Formaður óskaði eftir fundarhlé kl. 18:50
Fundur hófst aftur kl. 18:55
Tillaga fulltrúa D-lista samþykkt með þremur atkvæðum HSÁ, ÆB og GMI. Á móti; AEJ.

Guðlaugur vék af fundi kl. 19:00.

Að öðru leyti vísar markaðs- og menningarnefnd tillögum til afgreiðslu bæjarráðs.

2.Gjaldskrár 2016

Málsnúmer 1509094Vakta málsnúmer

Vísað til nefndar
Lagðar fram tillögur að gjaldskrám 2016 fyrir bókasafn, tjaldsvæði og Menningarhúsið Tjarnarborg. Nefndin samþykkir að vísa framkomnum tillögum með þeim breytingum sem gerðar voru á fundinum til afgreiðslu bæjarráðs.

3.Styrkumsóknir 2016 - Menningarmál

Málsnúmer 1510019Vakta málsnúmer

Vísað til nefndar
Farið yfir umsóknir um styrki til menningarmála. Styrkumsóknir nema samtals 13.996.999 kr. Markaðs- og menningarnefnd samþykkir að vísa tillögunum til afgreiðslu bæjarráðs.

4.Rekstur tjaldsvæða 2015

Málsnúmer 1503036Vakta málsnúmer

Lagt fram
Lagðar voru fram skýrslur rekstraraðila tjaldsvæða Fjallabyggðar sumarið 2015. Á Siglufirði voru gistinætur 3.673 sem eru tæplega 1.200 færri en sumarið 2014. Í Ólafsfirði voru gistinætur 227 á móti 795 sumarið 2014. Meginástæða fækkunar gistinátta á tjaldsvæðunum var mjög óhagstætt veðurfar á Norðurlandi. Í Ólafsfirði má einnig rekja fækkun til lokunar á stórum hluta svæðisins vegna framkvæmda og á Siglufirði voru gestir á Pæjumótinu umtalsvert færri en árið áður sem hefur sitt að segja. Markaðs- og menningarnefnd þakkar rekstraraðilum fyrir greinargóðar skýrslur. Nefndin leggur til að gengið verði til viðræðna við rekstaraðila um áframhaldandi umsjón með tjaldsvæðum ef kostur er.

5.Síldarævintýri 2015

Málsnúmer 1504025Vakta málsnúmer

Lagt fram
Á fundinn mættu fulltrúar Félags um Síldarævintýri; Anita Elefsen, Sandra Finnsdóttir og Guðmundur Skarphéðinsson. Rætt var um framtíð Síldarævintýrisins en ljóst er að stjórn félagsins mun segja sig frá störfum við hátíðina. Nefndin samþykkir að boða til almenns íbúafundar þar sem rætt verði um framtíð og fyrirkomulag á Síldarævintýrinu. Einnig vill nefndin koma á framfæri þakklæti til stjórnarinnar og þakkar þeim ómetanlegt framlag við framkvæmd hátíðarinnar á síðustu árum.

6.Rekstraryfirlit ágúst 2015

Málsnúmer 1510030Vakta málsnúmer

Lagt fram
Lagt fram rekstraryfirlit fyrstu átta mánuði ársins.
Menningarmál: Rauntölur, 42.271.031 kr. Áætlun, 48.106.666 kr. Mismunur; 5.835.635 kr.
Atvinnumál (m.a.: rekstur tjaldsvæða og upplýsingamiðstöðva): Rauntölur, 15.961.639 kr. Áætlun, 16.420.200 kr. Mismunur; 458.561 kr.

7.Ásýnd sveitarfélagsins og markaðssetning Ólafsfjarðar

Málsnúmer 1507035Vakta málsnúmer

Samþykkt
Á fundinn mætir Helgi Jóhannsson til að ræða hugmynd Jóhanns Helgasonar um Jólabæinn Ólafsfjörð. Upplýsti hann um að búið er að setja á laggirnar vinnuhóp Ólafsfirðinga sem vilja sjá hugmyndina verða að veruleika og er hann að vinna að frekari útfærslu. Óskaði hann eftir, fyrir hönd hópsins, að fá að leggja fyrir nefndina fastmótaðri hugmyndir um útfærslu á hugmyndinni um jólabæinn. Nefndin fagnar frumkvæðinu og vill endilega fá að sjá fastmótaðari tillögur um hvernig hugmyndin verður útfærð.

Fundi slitið.