Bæjarráð Fjallabyggðar

522. fundur 10. október 2017 kl. 12:00 - 13:00 í Ráðhúsi Fjallabyggðar, Gránugötu 24, Siglufirði
Nefndarmenn
  • Steinunn María Sveinsdóttir formaður, S lista
  • S. Guðrún Hauksdóttir varaformaður, D lista
  • Ríkharður Hólm Sigurðsson aðalmaður, S lista
  • Jón Valgeir Baldursson áheyrnarfulltrúi, B lista
Starfsmenn
  • Guðrún Sif Guðbrandsdóttir deildarstjóri stjórnsýslu- og fjármála
Fundargerð ritaði: Guðrún Sif Guðbrandsdóttir deildarstjóri stjórnsýslu og fjármála

1.Starf forstöðumanns Bóka- og héraðsskjalasafns

Málsnúmer 1708035Vakta málsnúmer

Ríkey Sigurbjörnsdóttir sat undir þessum lið.

Steinunn María Sveinsdóttir vék undir þessum lið.

Á fundi bæjarráðs þann 3. október var óskað eftir nánari útfærslu á starfsmannahaldi Bókasafns Fjallabyggðar í kjölfar þess að forstöðumaður bókasafnsins dróg uppsögn sína til baka. Lagt fram minnisblað deildarstjóra fræðslu-, frístunda- og menningarmála þar sem lagt er til að starfshlutfall forstöðumanns verði 100% frá og með 15. október.

Bókavörður við bókasafnið hefur sagt upp störfum. Er lagt til að ráðinn verði þjónustufulltrúi í 50% starf sem mun þjónusta bókasafn, héraðsskjalasafn og þjónustumiðstöð ferðamanna, með möguleika á aukningu starfshlutfalls um 25% frá áramótum. Einnig er lagt til að forstöðumaður bókasafns vinni að gerð stefnumótunar fyrir bóka- og héraðsskjalasafnið til næstu 3-5 ára í samvinnu við deildarstjóra.

Bæjarráð samþykkir tillögur deildarstjóra og vísar auknum launakostnaði vegna starfs forstöðumanns til viðauka við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2017.

2.Samningur um skóla- og frístundaakstur

Málsnúmer 1705057Vakta málsnúmer

Ríkey Sigurbjörnsdóttir sat undir þessum lið.

Lagður fram viðauki við samning Fjallabyggðar og Hópferðabifreiða Akureyrar um skóla- og frístundaakstur árin 2017-2020. Í honum gera aðilar samningsins með sér samkomulag um kaup og ísetningu á sætum með þriggja punkta sætisbeltum í öll sæti hópferðabílsins.

Hlutur Fjallabyggðar er 3.300.000 kr. en auk þess festir Fjallabyggð kaup á sessum með baki að upphæð 600.000 kr. Þannig uppfyllir Fjallabyggð ríkari kröfur um öryggi barna í skólaakstri en reglugerðir kveða á um.

Bæjarráð samþykkir að vísa kostnaðinum til viðauka við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2017.

Bæjarráð samþykkir einnig að færa fjármagn á milli liða vegna aukins kostnaðar við hverja ferð í skólaakstri samkvæmt núgildandi samningi við Hópferðabifreiðar Akureyrar.

3.Vatnsveita Ólafsfirði

Málsnúmer 1710035Vakta málsnúmer

Staðfest hefur verið að sýni sem Heilbrigðiseftirlitið tók þann 5. október sl. á Ólafsfirði innihéldu Escherichia coli (E.coli) gerla. Vatnsveita á Ólafsfirði fær vatn úr 2 vatnsbólum þ.e. úr Múla og Brimnesdal.
Niðurstaða sýnatöku gefur til kynna að vatnsbólið sem þjónar einkum nyðri hluta bæjarins m.a. fiskvinnslunum á Ólafsfirði sé í lagi. Íbúum Ólafsfjarðar hefur verið ráðlagt að sjóða allt neysluvatn. Þegar hafa verið gerðar viðeigandi ráðstafanir og er niðurstöðu sýnatöku sem framkvæmd var í gær, mánudag, að vænta síðar í dag.

4.Beiðni um rekstrarstyrk og áframhaldandi framkvæmdarstyrk við Golfklúbb Fjallabyggðar í Ólafsfirði

Málsnúmer 1710002Vakta málsnúmer

Lögð fram umsókn Golfklúbbs Fjallabyggðar um áframhaldandi rekstrar- og framkvæmdastyrk en núgildandi samningar renna út í ár.

Bæjarráð óskar eftir því að forsvarsmenn golfklúbbsins mæti á næsta fund bæjarráðs.

5.Styrkumsóknir 2017 - Ýmis mál

Málsnúmer 1609046Vakta málsnúmer

Við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2017 samþykkti bæjarráð að fresta ákvörðun um styrk til Slysavarnardeildarinnar Varnar þar til að fundað hefði verið með fulltrúum deildarinnar.
Sótt var um styrk til endurbóta á húsnæði félagsins og eftir fund með fulltrúa slysavarnardeildarinnar samþykkir bæjarráð að styrkur að upphæð 500.000 kr. verði afgreiddur til Slysavarnardeildarinnar.

6.Landsvæði fyrir styttu af landvætti

Málsnúmer 1710026Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi frá Guðbrandi Jónssyni, dags. 4. október 2017, þar sem greint er frá því að hann hyggist sækja um styrk til Ferðamálastofu til þess að reisa fjórar styttur af landvættum í fjórðungum landsins. Er gert ráð fyrir því að styttan verði við þjóðbraut, þar sem aðgengi er að rafmagni. Er óskað eftir samþykki Fjallabyggðar til þess að reisa styttuna.

Bæjarráð óskar eftir umsögn deildarstjóra og felur honum að afla frekari upplýsinga.

7.Alþingiskosningar - 2017

Málsnúmer 1709061Vakta málsnúmer

Lagðar fram upplýsingar frá Þjóðskrá Íslands, í bréfi dagsettu 29. september 2017, um meðferð kjörskrárstofna vegna alþingiskosninga 28. október 2017. Fram kemur m.a. að kjörskrár skulu lagðar fram á skrifstofu bæjarfélagsins eigi síðar en miðvikudaginn 18. október 2017.

Þrjú eintök af kjörskrárstofni vegna alþingiskosninga hafa borist og verður kjörskrá yfirfarin og staðfest á næsta bæjarstjórnarfundi.

8.Húsnæðisþing 16. október 2017

Málsnúmer 1710027Vakta málsnúmer

Íbúðalánasjóður og Velferðarráðuneytið standa fyrir fyrsta árlega húsnæðisþinginu hér á landi mánudaginn 16. október 2017 að Hilton Nordica við Suðurlandsbraut kl. 10-17.

Lagt fram til kynningar.

9.Ályktun frá samráðsfundi Félags stjórnenda leikskóla

Málsnúmer 1710024Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar ályktun frá samráðsfundi Félags stjórnenda leikskóla sem haldinn var dagana 28.-29. september á Flúðum. Lýsir félagið yfir áhyggjum af því að samkvæmt skýrslu OECD hafi börn á Íslandi lengsta viðveru hvern dag og flesta leikskóladaga á ári.

Bæjarráð vísar erindinu til fræðslu-, og frístundanefndar.

10.Fundargerðir stjórnar Eyþings 2017

Málsnúmer 1701008Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð frá 299. fundi stjórnar Eyþings sem haldinn var þann 27. september sl.

Fundi slitið - kl. 13:00.