Landsvæði fyrir styttu af landvætti

Málsnúmer 1710026

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Fjallabyggðar - 522. fundur - 10.10.2017

Lagt fram erindi frá Guðbrandi Jónssyni, dags. 4. október 2017, þar sem greint er frá því að hann hyggist sækja um styrk til Ferðamálastofu til þess að reisa fjórar styttur af landvættum í fjórðungum landsins. Er gert ráð fyrir því að styttan verði við þjóðbraut, þar sem aðgengi er að rafmagni. Er óskað eftir samþykki Fjallabyggðar til þess að reisa styttuna.

Bæjarráð óskar eftir umsögn deildarstjóra og felur honum að afla frekari upplýsinga.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 523. fundur - 17.10.2017

Lögð fram umsögn deildarstjóra tæknideildar vegna erindis frá Guðbrandi Jónssyni, sem tekið var fyrir á síðasta fundi bæjarráðs, þar sem óskað er eftir samþykki Fjallabyggðar fyrir því að reist verði stytta af landvætti fjórðungsins í sveitarfélaginu.

Bæjarráð tekur jákvætt í erindið en óskar eftir nánari upplýsingum um útlit styttunnar.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 524. fundur - 24.10.2017

Ármann V. Sigurðsson deildarstjóri tæknideildar sat undir þessum lið.

Tekið fyrir bréf Guðbrandi Jónssyni, dags. 18. október 2017, þar sem hann þakkar fyrir jákvæð viðbrögð Fjallabyggðar við mögulegri uppsetningu á styttu af landvætti Norðurlands í sveitarfélaginu, fáist til þess styrkur frá Ferðamálastofu. Guðbrandur óskar eftir því að leitað verði til íbúa um tillögur að útliti styttunnar.

Bæjarráð vísar málinu til umfjöllunar í skipulags- og umhverfisnefnd.

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar - 219. fundur - 22.11.2017

Lagt fram erindi Guðbrands Jónssonar, dagsett 18. október 2017 sem bæjarráð vísaði til umfjöllunar í skipulags- og umhverfisnefnd. Guðbrandur óskar eftir því að leitað verði til íbúa Fjallabyggðar um tillögur að útliti styttu af landvætti Norðurlands sem hann áætlar að staðsetja í sveitarfélaginu.

Í erindi Guðbrands er vísað í drekann sem landvættur norðurlands en nefndin bendir á að landvætturinn fyrir norðurland er gammur. Nefndin tekur vel í hugmynd að landvættum í hverjum landshluta og fagnar því að Fjallabyggð hafi orðið fyrir valinu á staðsetningu landvættis fyrir norðurland. Nefndin telur að útlit styttunnar eigi að vera í höndum Guðbrands og telur ekki ástæðu til að óska eftir hugmyndum íbúa þar að lútandi.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 557. fundur - 22.05.2018

Tekið fyrir erindi Guðbrands Jónssonar þar sem krafist er umsagnar sveitarfélagsins Fjallabyggðar vegna synjunar Ferðamálastofu Íslands um styrk vegna verkefnis Landvætta Íslands í norður.

Bæjarráð óskar eftir umsögn deildarstjóra tæknideildar.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 558. fundur - 29.05.2018

Lögð fram umsögn deildarstjóra tæknideildar vegna erindis Guðbrandar Jónssonar. Guðbrandur krafðist umsagnar Fjallabyggðar vegna synjunar Ferðamálastofu Íslands um styrk vegna verkefnisins Landvætta Íslands í norður.

Ferðamálastofa Íslands hafnaði styrkumsókn Guðbrandar, þar sem ekki lá fyrir samþykki bæjarstjórnar vegna verkefnisins. Bæjarráð hafði tekið jákvætt í erindið og skipulags- og umhverfisnefnd óskað eftir nánari upplýsingum frá umsækjanda um útlit styttunnar. Þær upplýsingar bárust ekki og því fékk málið ekki afgreiðslu í bæjarstjórn.