Bæjarráð Fjallabyggðar

608. fundur 11. júní 2019 kl. 16:30 - 17:20 í Ráðhúsi Fjallabyggðar, Gránugötu 24, Siglufirði
Nefndarmenn
  • Helga Helgadóttir formaður, D lista
  • Nanna Árnadóttir aðalmaður, I lista
  • Jón Valgeir Baldursson aðalmaður, H lista
Starfsmenn
  • Gunnar Ingi Birgisson bæjarstjóri
  • Guðrún Sif Guðbrandsdóttir deildarstjóri stjórnsýslu- og fjármála
Fundargerð ritaði: Guðrún Sif Guðbrandsdóttir deildarstjóri stjórnsýslu og fjármála

1.Trúnaðarmál - v. upplýsingamál

Málsnúmer 1807060Vakta málsnúmer

Niðurstaða færð í trúnaðarbók.

2.Túngata, endurnýjun

Málsnúmer 1906013Vakta málsnúmer

Lagt fram vinnuskjal deildarstjóra tæknideildar, dags. 06.06.2019 þar sem óskað er eftir heimild til þess að auglýsa lokað útboð vegna endurnýjunar á Túngötu Siglufirði, á milli Þormóðsgötu og Kambsvegar. Vegagerðin og Fjallabyggð munu standa saman að framkvæmdinni og er kostnaðarskipting milli aðila 77% vegagerðin á móti 23% framlagi Fjallabyggðar.

Eftirtöldum aðilum verður gefin kostur á að bjóða í verkið:
Árni Helgason ehf, Bás ehf, Fjallatak ehf, Magnús Þorgeirsson, Smári ehf og Sölvi Sölvason.

Bæjarráð samþykkir að fela deildarstjóra tæknideildar að auglýsa lokað útboð vegna endurnýjunar á Túngötu Siglufirði, á milli Þormóðsgötu og Kambsvegar.

3.Bankamál

Málsnúmer 1905084Vakta málsnúmer

Lagt fram vinnuskjal deildarstjóra stjórnsýslu- og fjármála dags. 11.06.2019 þar sem óskað er eftir heimild bæjarráðs eftir framlagningu greiðsluáætlunar að sækja um tímabundna lánalínu til Íslandsbanka.

Bæjarráð samþykkir fyrir sitt leyti og vísar til afgreiðslu bæjarstjórnar.

4.Launayfirlit tímabils - 2019

Málsnúmer 1901048Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar launayfirlit fyrir tímabilið janúar til maí 2019.

5.Göngustígur við Ólafsfjarðarvatn - Verðkönnun

Málsnúmer 1806074Vakta málsnúmer

Lagt fram vinnuskjal deildarstjóra tæknideildar, dags 06.06.2019 þar sem óskað er eftir framkvæmdaleyfi og heimild bæjarráðs til þess að gera lokaða verðkönnun á 2. áfanga göngustígs við Ólafsfjarðarvatns.

Eftirtöldum aðilum yrði gefin kostur á að bjóða í verkið; Árni Helgason ehf, Smári ehf, Bás ehf, Fjallatak ehf, Sölvi Sölvason og Magnús Þorgeirsson.

Bæjarráð samþykkir framkvæmdaleyfi og felur deildarstjóra tæknideildar að auglýsa lokaða verðkönnun vegna 2. áfanga göngustígs við Ólafsfjarðarvatn.

6.Ferðamenn í Fjallabyggð 2004-2018

Málsnúmer 1902073Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar skýrsla um ferðamenn í Fjallabyggð 2014-2018, sem unnin er af fyrirtækinu Rannsókn og ráðgjöf ferðaþjónustunnar fyrir Fjallabyggð í júní 2019.

Niðurstöður eru unnar úr könnuninni Dear Visitors sem fyrirtækið Rannsóknir og ráðgjöf ferðaþjónustunnar hefur framkvæmt meðal brottfararfarþega í Leifsstöð allt frá sumrinu 1996 og síðan nær stöðugt alla mánuði ársins frá janúar 2004. Þá hefur könnunin einnig oft verið framkvæmd á sumrin meðal ferðamanna með Norrænu á Seyðisfirði. Þar hefur frá 2003 allaf verið spurt um komur til Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Í samantekt er lögð áhersla á að skoða komur erlendra ferðamanna í Fjallabyggð í heild og í byggðarkjarnana hvorn fyrir sig með samanburð við komur ferðamanna í Eyjafjörð. Að jafnaði tóku 3-4.000 manns þátt í könnuninni hverju ári.

Samkvæmt Dear Visitors könnun RRF má áætla að 100 þúsund erlendir ferðamenn hafi haft viðkomu á Siglufirði árið 2018, 82 þúsund árið 2016, 32 þúsund árið 2013, 16 þúsund árið 2010 og 10,5 þúsund árið 2004 (sbr. mynd 4.1). Samkvæmt því fjölgaði þeim 9,5 falt frá 2004 til 2018, 6,3 falt frá 2010 til 2018, 3,4 falt frá 2013 til 2018 og um 22% frá 2016 til 2018.

Þetta þýðir að 4,6% erlendra ferðamanna til Íslands með flugi eða ferju árið 2018 höfðu einhverja viðdvöl á Siglufirði (7,5% sumargesta og 3% gesta utan sumars), 3,9% ferðamanna til Íslands árið 2013 en 2,8% árið 2004. Samkvæmt því hefur Siglufjörður aukið hlutdeild sína í ferðamönnum til Íslands um 71% frá árinu 2004 og um 18% frá árinu 2013.
Sumarmánuðina þrjá er áætlað að erlendum ferðamönnum á Siglufirði hafi fjölgað úr 9 þúsund árið 2004 í 58 þúsund árið 2018, eða 6,4 falt. Hins vegar fjölgaði erlendum vetrarferðamönnum þangað 28 falt á sama tímabili, úr 1,5 þúsund í 42 þúsund.
Þessar niðurstöður þýða jafnframt að 17% þeirra erlendu ferðamanna sem lögðu leið sína í Eyjafjörð árið 2018 komu á Siglufjörð. Það hlutfall var hins vegar hins aðeins um 10,5% árið 2010. Þannig hefur Siglufirði tekist að ná í mun stærra hlutfall erlendra ferðamanna á svæðinu til sín en áður var. Þar skipta Héðinsfjarðargöng og síðan mikil uppbygging í ferðaþjónustu mestu máli, með Sigló Hótel í fararbroddi.
Árið 2004 komu um 86% erlendra gesta á Siglufirði þangað að sumarlagi (júní, júlí og ágúst) en 14% hina níu mánuði ársins. Árið 2018 var hlutfall sumargesta hins vegar komið niður í 58% en vetrargesta upp í 42%.
Samkvæmt Dear Visitors könnun RRF má áætla að 78 þúsund erlendir ferðamenn hafi haft viðkomu á Ólafsfirði árið 2018, 66 þúsund árið 2016, 29 þúsund árið 2013, 14 þúsund árið 2010 og 12 þúsund árið 2004 (sbr. mynd 4.2). Samkvæmt því fjölgaði þeim 6,3 falt frá 2004 til 2018, 5,3 falt frá 2010 til 2018, 2,7 falt frá 2013 til 2018 og um 18% frá 2016 til 2018.
Þetta þýðir að 3,6% erlendra ferðamanna til Íslands með flugi eða ferju árið 2018 höfðu einhverja viðdvöl á Ólafsfirði (5,6% sumargesta og 2,5% gesta utan sumars), 3,6% ferðamanna til Íslands árið 2013 (sama hlutfall) en 3,2% árið 2004. Samkvæmt því hefur Ólafsfjörður haldið hlutdeild sinni í ferðamönnum til Íslands frá árinu 2004.
Sumarmánuðina þrjá er áætlað að erlendum ferðamönnum á Ólafsfirði hafi fjölgað úr tæplega 11 þúsund árið 2004 í 43 þúsund árið 2018, eða fjórfalt. Hins vegar fjölgaði erlendum vetrarferða-mönnum þangað 20 falt á sama tímabili, úr 1,7 þúsund í 35 þúsund.
Þessar niðurstöður þýða jafnframt að 13% þeirra erlendu ferðamanna sem lögðu leið sína í Eyjafjörð árið 2018 komu á Ólafsfjörð. Það hlutfall var hins vegar hins aðeins um 9% árið 2010.
Árið 2004 komu um 86% erlendra gesta á Ólafsfirði þangað að sumarlagi (júní, júlí og ágúst) en 14% hina níu mánuði ársins. Árið 2018 var hlutfall sumargesta hins vegar komið niður í 56% en vetrargesta upp í 44%.

Bæjarráð samþykkir að vísa skýrslunni til kynningar í markaðs- og menningarnefnd.

7.Styrkbeiðni - The Viking Surgeons Association

Málsnúmer 1906006Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Jóseps Ó. Blöndal læknis, fh. samtaka skurðlækna sem vinna á litlum/eða afskekktum stöðum, The Viking Sergons Association sem halda ráðstefnu á Siglufirði 4.-6. september. Óskað er eftir styrk frá sveitarfélaginu í formi kvöldverðar og skemmtiatriðs en gert er ráð fyrir 15-20 þátttakendum ásamt mökum og fyrirlesurum.

Bæjarráð samþykkir að óska eftir umsögn bæjarstjóra og markaðs- og menningarfulltrúa.

8.Aldingarður æskunnar

Málsnúmer 1906014Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar erindi Önnu Maríu Guðlaugsdóttur fh. Garðyrkjufélags Tröllaskaga norðurs, dags. 06.06.2019 þar sem bæjarstjórn, bæjarstjóra og deildarstjórum er boðið að vera viðstödd formlega gróðursetningu fyrstu trjánna sem gróðursett verða norðan Menntaskólans á Tröllaskaga og tengjast verkefninu Aldingarður æskunnar 12. júní nk. kl. 13:30. Ómar Valdimarsson formaður Garðyrkjufélags Íslands og Kristinn H. Þorsteinsson, fræðslu-og verkefnisstjóri verða viðstaddir ásamt Önnu Maríu Guðlaugsdóttur formanni Garðyrkjufélags Tröllaskaga Norðurs, þau munu ávarpa samkomuna sem samanstendur af starfsfólki leikskólans, nemendum, foreldrum og velunnurum verkefnisins áður en hafist er handa við að gróðursetja ávaxtatrén og áhugaverð berjayrki.

Bæjarráð þakkar gott boð.

9.Sumarfundur ríkisstjórnarinnar

Málsnúmer 1905062Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar erindi Helgu Maríu Pétursdóttur framkvæmdastjóra Eyþings, dags. 06.06.2019 þar sem fram kemur að fyrirhuguðum sumarfundi ríkisstjórnarinnar með sveitarfélögum á svæði Eyþings verður frestað til 8. - 9. ágúst nk.

10.Umbótaáætlun Leikskóla Fjallabyggðar 2018

Málsnúmer 1803067Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Sunnu Viðarsdóttur og Bjarkar Óttarsdóttur fh. Mennta- og menningarmálaráðuneytisins, dags. 03.06.2019 þar sem óskað er eftir upplýsingum um framkvæmd þeirra umbóta sem áætlaðar voru í umbótaáætlun sveitarfélagsins og Leikskóla Fjallabyggðar á skólaárinu 2018-2019 eigi síðar en 24. júní 2019.

Bæjarráð samþykkir að vísa erindinu til skólastjóra Leikskóla Fjallabyggðar og deildarstjóra fræðslu-, frístunda og menningarmála.

11.Umbótaáætlun Grunnskóla Fjallabyggðar

Málsnúmer 1604017Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Sunnu Viðarsdóttur og Bjarkar Óttarsdóttur fh. Mennta- og menningarmálaráðuneytisins, dags. 03.06.2019 þar sem óskað er eftir staðfestingu skólastjóra og sveitarfélags á því að vinnu samkvæmt umbótaáætlun sveitarfélagsins og skólans sé lokið. Auk þess óskar ráðuneytið eftir mati sveitarstjóranar á því hvernig sveitarfélagi og skóla hefur tekist til að vinna að umbótum á skólastarfi í kjölfar úttektarskýrslu um starfsemi Grunnskóla Fjallabyggðar frá árinu 2015. Óskað er eftir að umbeðnar upplýsingar berist eigi síðar en 24. júní 2019.

Einnig lögð fram staðfesting Erlu Gunnlaugsdóttur skólastjóra Grunnskóla Fjallabyggðar dags. 06.06.2019 þar sem fram kemur að matsþættir umbótaáætlunar séu uppfylltir og þeim lokið. Að mati skólastjóra hefur markvisst verið unnið að umbótum samkvæmt áætlun skólaárin 2016-2019 og hefur sú vinna gengið vel. Horft verði til áframhaldandi uppbyggingarstarfs skólaárið 2019-2020 í samstarfi við ráðgjafarfyrirtækið Tröppu undir kjörorðunum Framúrskarandi skóli - færni til framtíðar.

Bæjarráð samþykkir staðfestingu skólastjóra og felur deildarstjóra stjórnsýslu- og fjármála í fjarveru deildarstjóa fræðslu-, frístunda- og menningarmála að senda skjalið til Mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

12.Fundargerðir Sambands íslenskra sveitarfélaga - 2019

Málsnúmer 1901024Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 871. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 29. maí sl.

13.Fundargerðir nefnda og stjórna Fjallabyggðar - 2019

Málsnúmer 1901004Vakta málsnúmer

Lagðar fram til kynningar fundargerðir
3. fundar Vinnuhóps um markaðsstefnu Fjallabyggðar frá 29. maí 2019.
105. fundar Hafnarstjórnar Fjallabyggðar frá 6. júní 2019.
15. fundar Stjórnar Hornbrekku frá 29. maí 2019 .

Fundi slitið - kl. 17:20.