Fjárhagsáætlun 2023 - Seinni umræða

Málsnúmer 2211114

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Fjallabyggðar - 771. fundur - 06.12.2022

Lagðar fram breytingartillögur á frumvarpi um fjárhagsáætlun 2023-2026.
Samþykkt
Bæjarráð samþykkir að vísa breytingartillögu vegna fjárhagsáætlunar 2023 til seinni umræðu í bæjarstjórn Fjallabyggðar.

Bæjarstjórn Fjallabyggðar - 223. fundur - 15.12.2022

Síðari umræða um fjárhagsáætlun 2023-2026.

Til máls tóku Sigríður Ingvarsdóttir, Guðjón M. Ólafsson, Helgi Jóhannsson og S. Guðrún Hauksdóttir.

Samþykkt
Bæjarstjóri fór yfir helstu niðurstöður áætlunar og leiðréttingar sem gerðar hafa verið á milli umræðna. Að því loknu lagði bæjarstjóri fram eftirfarandi bókun:

Ég vil byrja á því að þakka fulltrúum allra flokka hér, forstöðumönnum hjá Fjallabyggð, og ekki síst deildarstjóra stjórnsýslu og fjármála, fyrir mikla og góða vinnu við gerð fjárhagsáætlunar. Það að koma saman fjárhagsáætlun er ekki einfalt verk, óvissuþættirnir margir og fjölmörg verkefni sem þarf að horfa til varðandi forgangsröðun fjármuna. Því var einstaklega ánægjulegt við alla þessa vinnu að finna hve samstaðan var mikil meðal bæjarfulltrúa, hvort sem þeir tilheyrðu minnihluta eða meirihluta, um að gera sitt allra besta bæjarfélaginu til hagsbóta. Samstarfið í gegnum allt vinnuferlið hefur verið einstaklega gott og vinnufundir og nefndarfundir skilað góðum árangri.
Fjárhagsáætlun ársins er leiðarljós okkar sem berum ábyrgð á rekstri sveitarfélagsins og grundvöllur þess að viðeigandi fjárheimildir séu til staðar til að rekstur Fjallabyggðar gangi eðlilega fyrir sig. Það er mikilvægt að það sé öflugt og skilvirkt eftirlit til staðar með framkvæmd fjárhagsáætlunar hverju sinni og að til sé ábyrgt vinnulag til að bregðast við óvæntum breytingum í ytra umhverfi sem og breytingum sem verða í rekstri sem leiða til frávika.
Sú fjárhagsáætlun sem hér er lögð fram sýnir að aðhalds verður gætt í rekstri á komandi ári og grunnur lagður að enn frekari uppbyggingu á komandi árum á margvíslegum sviðum. Það er fagnaðarefni hve staða Fjallabyggðar er sterk, skuldir litlar og innviðir öflugir.

Helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar
Áætlað er að rekstrarafkoma bæjarsjóðs fyrir árið 2023 verði jákvæð um 126 millj.kr.
Rekstrarafkoma samstæðunnar, fyrir afskriftir og fjármagnsliði, er áætluð jákvæð um 219 millj.kr.
Útsvarsprósentan helst óbreytt á milli ára, þ.e. 14.48%
Skatttekjur ársins 2023 eru áætlaðar 1.748 millj.kr. en útkomuspá ársins 2022 er 1.541 millj.kr.
Heildartekjur A- og B-hluta 2023 verða 3.888 millj.kr. en eru áætlaðar 3.736 millj.kr. í útgönguspá ársins 2022.
Rekstrargjöld A- og B-hluta vegna ársins 2023 eru áætluð 3.492 millj.kr. en eru 3.142 millj.kr. fyrir árið 2022.
Heildareignir sveitarfélagsins eru áætlaðar 6.705 millj. kr. og eigið fé er 4.416 millj.kr. eða 65,9% eiginfjárhlutfall.
Skuldaviðmið A-hluta bæjarsjóðs skv. reglugerð 502/2012 er áætlað 25,6% fyrir árið 2023.
Vaxtaberandi langtímaskuldir árið 2023 eru áætlaðar 91,7 milljónir, en verða 112,5 milljónir í árslok 2022.
Veltufé frá rekstri samstæðunnar er áætlað 614 millj. kr. sem eru 15,8% af heildartekjum.
Handbært fé í árslok 2023 er áætlað 562 millj.kr.
Almennt munu gjaldskrár hækka um 7% á næsta ári, en nýjasta þjóðhagsspá gerir ráð fyrir 8,2% verðbólgu árið 2023 þannig að hækkanir á gjaldskrám eru lægri en spáð verðbólga.

Framkvæmdir og viðhald eigna
Á komandi ári er áætlað að fjárfestingar nemi 308 milljónum og verða þær fjármagnaðar með handbæru fé.
Farið verður í framkvæmdir við nýja viðbyggingu við húsnæði Grunnskóla Fjallabyggðar í Ólafsfirði. Næsta haust mun starf nemenda í 5. bekk flytjast í starfsstöð grunnskólans í Ólafsfirði þannig að frá þeim tíma mun miðstigið vera sameinað. . Bætt verður verulega í tölvuvæðingu á unglingastigi með kaupum á chromebookvélum fyrir nemendur.
Einnig verður lagt fjármagn í bætt umferðaröryggi og ásýnd Aðalgötu í Ólafsfirði.
Það er ánægjulegt að verið sé að fara í framkvæmdir varðandi íbúðarhúsnæði í báðum bæjarkjörnum. Tvö einbýlishús eru í byggingu í Bakkabyggð í Ólafsfirði og búið er að úthluta 7 einbýlishúsalóðum til viðbótar þar. Á gamla malarvellinum á Siglufirði hefur öllum lóðum verið úthlutað, fyrir allt að 27 íbúðir og gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist næsta vor. Nú er unnið að undirbúningi gatnagerðar á malarvellinum. Einnig er búið að úthluta lóðum fyrir 10 íbúðir við Eyrarflöt á Siglufirði í par- og raðhúsum. Því sjáum við fram á langþráða uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í báðum bæjarkjörnum.
Ný geislatæki til hreinsunar á vatni verða sett upp við Múla- og Hvanneyrarlind auk þess verður unnið að úrbótum á eftirlitskerfi dælubrunna í holræsakerfi bæjarins.
Áfram verður haldið með endurnýjun götulýsingar með LED-væðingu. Eins verða miklar framkvæmdir á nýju ári við endurnýjun gangstétta og gerð nýrra göngustíga.
Í fjárhagsáætlun 2023 er gert ráð fyrir stórauknu fé, eða tæplega 150 milljónum, til viðhalds mannvirkja enda er mikil uppsöfnuð viðhaldsþörf mannvirkja í bæjarfélaginu. Til samanburðar fóru 114 milljónir til viðhalds á árinu 2022.

Gjaldskrárbreytingar
Það er virkilega ánægjulegt að greina frá ákveðnum lækkunum á gjaldskrám bæjarins til að mæta þeim álögum sem fasteignaeigendur verða fyrir samhliða hækkun á fasteignamati á landinu öllu. Þannig mun fasteignaskattur og lóðaleiguprósenta lækka um 5%. Auk þess mun holræsa-/fráveitugjaldaprósenta lækka úr 0,29% í 0,275%
Vatnsskattsprósenta fasteigna lækkar úr 0,29% í 0,275%
Þjónustugjöld hækka um 7 %
Aukinn afsláttur verður veittur af fasteignaskatti til tekjulágra elli- og örorkulífeyrisþega
Einnig verður komið til móts við eldri borgara og öryrkja með hækkun tekjuviðmiða um 14% að meðaltali vegna afsláttar á fasteignaskatti.
Ný lög um meðhöndlun úrgangs, sem kalla á breytta gjaldskrá, taka gildi á næsta ári. Þar sem lögum samkvæmt mega bæjarfélög ekki niðurgreiða kostnað við meðhöndlun úrgangs. Sorphirðugjöld hækka því úr kr. 47.340 - í kr. 51.600.

Ýmis verkefni
Hvað varðar ýmis önnur verkefni er vert að nefna að fjárframlög til menningatengdra verkefna eru talsvert aukin og er það vel.
Hjá Fjallabyggð höfum við haft þá venju að auglýsa eftir styrkjum í fjóra styrkflokka þ.e. styrki til fræðslumála, styrki til menningartengdra verkefna, rekstrarstyrki til safna og setra og styrki til hátíðarhalda. Að þessu sinni var einnig auglýst eftir styrkjum í nýjan styrkjaflokk sk. græna styrki. Skilyrði styrkveitinga úr þessum flokki eru að þau verkefni sem styrkt eru nýtist samfélaginu í Fjallabyggð og séu til þess fallin t.d. að bæta umhverfið, að draga úr orkunotkun, mengun eða losun gróðurhúsalofttegunda og /eða bæta ástand og útlit opinna svæða eða fólkvanga innan sveitarfélagsins.
Fjöldi góðra umsókn barst í alla þessa styrkjaflokka og verður úthlutun tilkynnt í byrjun næsta árs.
Bæjarstjórn hefur samþykkt sérstakan stuðning við starfsmenn Leikskóla Fjallabyggðar sem eru jafnframt í námi i leikskólafræði í viðleitni til að fjölga kennurum með sérhæfingu í leikskólafræði til framtíðar. Það er ósk mín að fólk með einlægan áhuga á þessu starfi muni nýta sér þann myndarlega stuðning sem í boði er til að sækja sér menntun í leikskólafræði og verða framtíðarstarfsmenn hjá Leikskóla Fjallabyggðar.
Þá hefur bæjarstjórn samþykkt veglegt fjárframlag eða 30 milljónir króna á næstu 5 árum til kaupa á nýju björgunarskipi í stað gamla Sigurvins sem nú er 34 ára. Með kaupum á nýju og öflugra björgunarskipi er betur verið að tryggja öryggi sjófarenda og styrkja björgunarsvæði á hafsvæðinu úti fyrir Norðurlandi. Björgunarbátajóður Siglufjarðar mun eiga og reka skipið
Það hefur verið góður skóli fyrir mig sem nýr bæjarstjóri Fjallabyggðar að fara í gegnum það ferli sem fjárhagsáætlunargerðin er. Það er mitt mat að þessi áætlun sé unnin af vandvirkni og endurspegli ábyrgan rekstur og rétta forgangsröðun. Fjárhagsáætlunin 2023 sem og þriggja ára áætlun bæjarfélagsins renna styrkum stoðum undir enn frekari uppbyggingu hér í Fjallabyggð og það eru góð tíðindi að íbúum í Fjallabyggð hefur fjölgað um 13 á árinu og vonandi sjáum við fram á enn frekari fjölgun, því hér er svo sannarlega gott að búa.

Að lokum vil ég þakka starfsfólki Fjallabyggðar fyrir óeigingjarnt starf í þágu sveitarfélagsins og bæjarstjórn allri fyrir traust og gott samstarf á árinu sem nú fer senn að renna sitt skeið á enda.
Ég vil að lokum óska bæjarfulltrúum og fjölskyldum þeirra, starfsfólki bæjarins og öllum íbúum Fjallabyggðar gleðiríkrar jólahátíðar.


Sigríður Guðrún Hauksdóttir forseti bæjarstjórnar lagði fram eftirfarandi bókun fyrir hönd bæjarstjórnar:

Fjárhagsáætlun Fjallabyggðar 2023 tekur mið af þeim efnahagslega veruleika sem nú blasir við sveitarfélögum og landsmönnum. Markmið nýrrar bæjarstjórnar hefur verið í samvinnu við starfsfólk sveitarfélagsins að leita allra leiða til þess að halda óskertu þjónustustigi við íbúana og auka það sem því var við komið.
Í fjárhagsáætluninni var einnig lagt mikið kapp á að lágmarka áhrif mikilla kostnaðarhækkana í samfélaginu á íbúa Fjallabyggðar.
Mikil umræða hefur verið um hækkun fasteignaskatta í samfélaginu sökum mikillar hækkunar fasteignamats á landinu öllu. Í fjárhagáætluninni er lagt til að fasteignaskattur, holræsagjald og vatnsgjald verði lækkuð til þess að koma til móts við miklar hækkanir á fasteignamati, ásamt því að afsláttur á fasteignaskatti hjá tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum verður hækkaður.
Gjaldskrár sveitarfélagsins hækka að mestu leyti í takt við þjóðhagsspá Hagstofunnar fyrir árið 2023, eða um 7%. Undanfarin ár hafa gjaldskrár sem snerta barnafólk og viðkvæma hópa verið stillt í hóf en nú verður ekki hjá því komist að hækka þessa gjaldskrár og ætti þessi óhjákvæmilega hækkun ekki að rýra samkeppnishæfni Fjallbyggðar gagnvart öðrum sveitarfélögum. Frístundastyrkur fyrir börn 4 ? 18 ára mun hækka um 5.000 kr og verða 45.000 kr, og áfram verður haldið að efla frístund í góðu samstarfi við íþróttarfélögin.
Nágrannasveitarfélög okkar hafa víðast hvar verið að boða meiri hækkanir en þær sem boðaðar eru í fjárhagsáætlun 2023 hjá Fjallabyggð. Hér munu íbúar Fjallabyggðar njóta þess að rekstur sveitarfélagsins hefur á síðustu árum verið ábyrgur og því er fjárhagsleg staða Fjallabyggðar mjög sterk.
Á vettvangi sveitarfélagsins er unnið mjög mikilvægt starf í þjónustu við íbúanna og svo mun áfram verða. Áfram verður unnið að verkefninu Sveigjanleg dagdvöl af fullum krafti og þar mun Fjallabyggð taka þátt í að þróa ramma að framtíðar fyrirkomulagi samhæfðar þjónustu við eldra fólk ásamt því að áfram verður unnið að Heilsueflandi samfélagi og í anda þess verður áfram gjaldfrjálst í sund og rækt fyrir eldri borgara og öryrkja.
Á þessu ári sem senn er á enda var opnuð ný og glæsileg félagsmiðstöð Neon og mun það verða eitt af verkefnum ársins 2023 að tryggja að þessi nýja og glæsilega aðstaða verði nýtt vel með það að markmiði að efla félagslíf yngri íbúa sveitarfélagsins.

Þegar kemur að fjárfestingum, sem eru áætlaðar um 308 milljónir króna, þá verður dregið úr fjárfestingum samanborið við fyrra ár, en á sama tíma er verið að auka fjármagn til viðhaldsverkefna. Það er mat bæjarstjórnar að mikilvægara sé að ná enn betur utan um fyrri fjárfestingar ásamt því að marka fjárfestingastefnu sveitarfélagsins í innviðum til framtíðar.
Að lokum vill forseti, fyrir hönd bæjarstjórnar, koma á framfæri þökkum til bæjarstjóra, nefndarmanna og starfsmanna sveitarfélagsins fyrir þeirra aðkomu að gerð fjárhagsáætlunar og ánægjulegs samstarfs og óskar íbúum Fjallabyggðar gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.


Fjárhagsáætlun 2023 og þriggja ára áætlun borin undir atkvæði.

Framlögð áætlun samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.