Ályktun um samgöngumál

Málsnúmer 2211054

Vakta málsnúmer

Bæjarstjórn Fjallabyggðar - 221. fundur - 09.11.2022

Guðjón M. Ólafsson lagði fram eftirfarandi ályktun fyrir hönd meirihlutans um samgöngumál í Fjallabyggð:

Betri samgöngur varða hagsmuni allra landsmanna. Bættar samgöngur bæta mannlíf, stuðla að öryggi vegfaranda og íbúa, auka samvinnu á milli sveitarfélaga ásamt því að styrkja og stækka atvinnusvæði. Fjallabyggðargöng og samgöngubætur eru brýnasta hagsmunamál íbúa Fjallabyggðar og mið-Norðurlands.

Bæjarstjórn Fjallabyggðar beinir því til ráðherra samgöngumála og Vegagerðarinnar að tryggja nauðsynlega fjármuni til samgöngumála Fjallabyggðar.

Vegagerðin hefur nú þegar gefið út skýrslu um jarðgöng á milli Siglufjarðar og Fljóta í Skagafirði. Núverandi leið liggur um snjóflóðahættusvæði ásamt því að vera á jarðsigssvæði. Þessi staða hefur leitt til tíðra lokanna og mun leiða til tíðari lokanna í framtíðinni. Leiðin uppfyllir því alls ekki kröfur nútímalegs samfélags þegar kemur að samgöngum. Nú þegar hefur fjármunum verið veitt í rannsóknir og frumhönnun vegna Fljótaganga af Samgönguáætlun og því brýnt að tryggja nauðsynlegt frekara fjármagn í endanlega hönnun þessara ganga þannig að hægt verði að bjóða þau út eins fljótt og hægt er. Ástand vegarins á milli Siglufjarðar og Fljóta í Skagafirði er óviðunandi fyrir íbúa svæðisins, aðra vegfarendur og atvinnulífið á svæðinu.

Bæjarstjórn Fjallabyggðar beinir því einnig til ráðherra samgöngumála og Vegagerðarinnar að setja nauðsynlega fjármuni til rannsókna þannig að hægt sé að ákveða legu nýrra jarðganga á milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur. Múlagöng eru barn síns tíma og vegurinn um Ólafsfjarðarmúla liggur á þekktu snjóflóðahættusvæði. Mikilvægt er að fara í þessa forvinnu til þess að tryggja að þessi göng komist á samgönguáætlun við næstu endurskoðun hennar. Þetta er gríðarlega mikilvægt öryggismál fyrir íbúa svæðisins, vegfarendur og atvinnulíf. Miðstöð opinberrar þjónustu á Norðurlandi er á Akureyri og er íbúum svæðisins ætlað að sækja alla meiriháttar heilbrigðisþjónustu þangað. Bæjarstjórn telur ný jarðgöng á milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur einu raunhæfu leiðina til að tryggja viðunandi samgöngur á milli Fjallabyggðar og Eyjafjarðarsvæðisins.

Bæjarstjórn Fjallabyggðar óskar eftir liðsinni þingmanna Norðlendinga allra, sveitarstjórna á Norðurlandi, landshlutasamtaka atvinnulífsins á svæðinu og annarra hagsmunaaðila á Norðurlandi í þessu mikilvægasta hagsmunamáli svæðisins. Bæjarstjórn lýsir sig fylgjandi hugmyndum stjórnvalda um gjaldtöku til að flýta samgöngubótum og lýsir sig tilbúna til viðræðna um þessar framkvæmdir.

Arnar Þór Stefánsson, Sigríður Guðrún Hauksdóttir, Helgi Jóhannsson og Sigríður Ingvarsdóttir tóku til máls um ályktunina.

Bæjarstjórn samþykkir ályktunina með 6 greiddum atkvæðum.

Helgi Jóhannsson sat hjá við afgreiðsluna og lagði fram eftirfarandi bókun:
Ég get tekið undir flest það sem kemur fram í framlagðri ályktun. Ég tel að bæjarstjórn Fjallabyggðar ætti að berjast fyrir því að farið verði samhliða í ný göng inn í Fljót og ný göng til Dalvíkur. Verði einungis annar kosturinn í forgrunni, þá er hætt við því að langt verði í að vegabætur til og frá Fjallabyggð verði ásættanlegar og muni þar með skaða framtíðarhagsmuni sveitarfélagins og íbúa þess.