Viðbygging við Grunnskóla Fjallabyggðar Ólafsfirði

Málsnúmer 2210096

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Fjallabyggðar - 768. fundur - 22.11.2022

Lagt fram vinnuskjal deildarstjóra fræðslu-, frístunda- og menningarmála vegna fyrirhugaðrar viðbyggingar við húsnæði Grunnskóla Fjallabyggðar á Ólafsfirði.
Vísað til gerðar fjárhagsáætlunar
Bæjarráð vísar tillögum að stækkun grunnskólans til gerðar fjárhagsáætlunar. Bæjarráð áréttar mikilvægi þess að starfsemi miðstigsins verði öll komin undir sama þak við byrjun næsta skólaárs og felur bæjarstjóra að kanna hvaða leiðir, tímabundnar og varanlegar, eru í boði til þess að svo megi verða.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 774. fundur - 03.01.2023

Fyrir liggur minnisblað frá Ævari Harðarsyni og Albínu Thordarson um mögulegar leiðir í viðbyggingu við húsnæði Grunnskóla Fjallabyggðar í Ólafsfirði.
Vísað til afgreiðslu starfsmanns
Bæjarráð þakkar fyrir gott minnisblað og óskar eftir að hönnuðir mæti á fund bæjarráðs eftir viku.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 775. fundur - 10.01.2023

Ævar Harðarson, Albína Thordarson og Árni Gunnar Kristjánsson mættu á fund bæjarráðs til að fara yfir mögulegar leiðir í viðbyggingu við húsnæði Grunnskóla Fjallabyggðar í Ólafsfirði.
Vísað til nefndar
Bæjarráð þakkar Ævari Harðarsyni, Albínu Thordarson og Árna Gunnari Kristjánssyni fyrir góða yfirferð á uppfærðum teikningum. Bæjarráð vísar málinu til kynningar í fræðslu- og frístundanefnd.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 776. fundur - 24.01.2023

Lögð fram ný útfærsla á viðbyggingu við húsnæði Grunnskóla Fjallabyggðar í Ólafsfirði.
Samþykkt
Bæjarráð samþykkir að unnið verði áfram með útfærslu „G2“ eins og hún kemur fram í greinargerðinni.

Fræðslu- og frístundanefnd Fjallabyggðar - 121. fundur - 13.02.2023

Bæjarstjórn Fjallabyggðar hefur samþykkt að farið skuli í viðbyggingu við Grunnskóla Fjallabyggðar í Ólafsfirði. Framkvæmdir hefjast á þessu ári og er áformað að viðbygging verði tekin í notkun haustið 2024. Á 775. fundi bæjarráðs þann 9. janúar 2023 vísaði bæjarráð teikningum að frumhönnun viðbyggingar við Grunnskóla Fjallabyggðar, í Ólafsfirði, til kynningar í fræðslu- og frístundanefnd.
Lagt fram til kynningar
Undir þessum lið sat Erla Gunnlaugsdóttir skólastjóri Grunnskóla Fjallabyggðar og Björk Óladóttir fulltrúi foreldra.

Deildarstjóri fræðslu-, frístunda- og menningarmála kynnti frumhönnun viðbyggingar við Grunnskóla Fjallabyggðar í Ólafsfirði fyrir fundarmönnum. Fræðslu- og frístundaefnd þakkar fyrir kynningu á byggingaráformum og líst vel á frumhönnun.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 792. fundur - 31.05.2023

Deildarstjóri tæknideildar mætti til fundarins og sat fyrir svörum undir þessum dagskrárlið. Farið var yfir stöðu væntanlegs útboðs vegna viðbyggingar við Grunnskóla Fjallabyggðar í Ólafsfirði.
Vísað til afgreiðslu starfsmanns
Bæjarráð þakkar deildarstjóra tæknideildar fyrir yfirferðina. Deildarstjóra falið að leggja endanleg útboðsgögn vegna verksins fyrir næsta fund bæjarráðs.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 794. fundur - 20.06.2023

Lögð er fram tilboðsskrá, verklýsing ásamt teikningum og aðaluppdrætti vegna fyrirhugaðrar viðbyggingar við Grunnskóla Fjallabyggðar í Ólafsfirði. Deildarstjóri tæknideildar óskar einnig eftir heimild til þess að bjóða út verkið.
Samþykkt
Bæjarráð þakkar deildarstjóra tæknideildar fyrir yfirferð á útboðsgögnum. Bæjarráð veitir deildarstjóra heimild til útboðs skv. minnisblaði.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 798. fundur - 28.07.2023

Tilboð voru opnuð í viðbyggingu við Grunnskólann í Ólafsfirði þriðjudaginn 18 júlí.
Vísað til afgreiðslu starfsmanns
Bæjarráð harmar að engin tilboð hafi borist í viðbyggingu Grunnskólans við Tjarnarstíg. Deildarstjóra falið að bjóða verkið út aftur með lengdum verktíma sbr. minnisblað hans.

Fræðslu- og frístundanefnd Fjallabyggðar - 129. fundur - 21.08.2023

Ekkert tilboð barst í viðbyggingu við Grunnskóla Fjallabyggðar í Ólafsfirði þegar útboð var auglýst fyrr í sumar. Búið er að auglýsa útboð að nýju og hefur verktími verið lengdur. Skilatími verks er 1. ágúst 2025.
Lagt fram til kynningar
Undir þessum lið sátu Ása Björk Stefánsdóttir skólastjóri Grunnskóla Fjallabyggðar, Brynhildur Reykjalín Vilhjálmsdóttir fulltrúi kennara, Svala Júlía Bjarnadóttir og Kristrún Líney Þórðardóttir fulltrúar foreldra. Lagt fram til kynningar.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 804. fundur - 15.09.2023

Tilboð voru opnuð í viðbyggingu við grunnskólann á Ólafsfirði þriðjudaginn 5. september. Lagt fram minnisblað hönnuða vegna mats á tilboðinu.
Aðeins barst eitt tilboð í verkið og var það 55% yfir kostnaðaráætlun.
Samþykkt
Í samræmi við tilmæli minnisblaðs hönnuða hafnar bæjarráð því tilboði sem kom í verkið.
Samþykkt með þremur atkvæðum.

Helgi Jóhannsson lagði fram eftirfarandi bókun:
Það eru veruleg vonbrigði að ekki skuli hafa fengist ásættanleg tilboð í viðbyggingu grunnskólans í Ólafsfirði, þrátt fyrir að verktími hafi verið lengdur í seinna útboði.
Undirritaður leggur til að kannað verði með að bjóða verkið út í smærri verkþáttum. Það má hugsa sér að jarðvinna og grunnur verði boðin út saman eða í sitthvoru lagi. Jafnframt að kannað verði hjá hönnuðum byggingarinnar að annað byggingarefni verði fyrir valinu t.d. límtréseiningar. Kosturinn við það er að hægt er að reisa bygginguna á hvaða tíma ársins sem er.
Nú þarf að leita allra leiða til að byggingin rísi sem fyrst og komist í notkun.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 805. fundur - 29.09.2023

Til fundarins mættu Ríkey Sigurbjörnsdóttir, deildarstjóri fræðslu-, frístunda- og menningarmála ásamt Ásu Björk Stefánsdóttur skólastjóra Grunnskóla Fjallabyggðar, til að ræða stöðu skólastarfsins og mögulegar lausnir til framtíðar í kjölfar niðurstöðu útboðs á viðbyggingu við grunnskólann á Ólafsfirði.
Vísað til afgreiðslu starfsmanns
Bæjarráð þakkar deildarstjóra fræðslu-, frístunda- og menningarmála og skólastjóra grunnskólans fyrir komuna á fundinn og góðar umræður á fundinum og felur deildarstjóra og skólastjóra að skila tillögum um mögulegar lausnir til bæjarráðs.

Fræðslu- og frístundanefnd Fjallabyggðar - 131. fundur - 02.10.2023

Eitt tilboð barst í viðbyggingu við grunnskólahús í Ólafsfirði og var því hafnað.
Lagt fram til kynningar
Undir þessum dagskrárlið sat Kristrún Líney Þórðardóttir fulltrúi foreldra grunnskólans. Skólastjóri komst ekki á fundinn.

Viðbygging við skólahús Grunnskóla Fjallabyggðar í Ólafsfirði hefur verið boðin út í tvígang. Ekkert tilboð barst í fyrra skiptið og í seinna skiptið barst tilboð sem var hafnað þar sem það var 55% yfir kostnaðaráætlun.
Ljóst er að til að tilfærsla skólastarfs 5. bekkjar verði að veruleika haustið 2024 þarf að huga að öðrum lausnum.